Margrét Sigríður Einarsdóttir skáldkona var fædd þann 14.október árið 1893, næstelst af sex börnum hjónanna Einars Hjálmssonar og Málfríðar K. Björnsdóttur sem bjuggu fyrst í Hlöðutúni í Stafholtstungum en síðar í Munaðarnesi í sömu sveit en við þann bæ kenndi Sigríður sig jafnan. 

Sigríður stundaði ýmis störf, var meðal annars sýsluskrifari á Patreksfirði og í Borgarnesi og starfaði einnig um tíma í Sparisjóði Mýrasýslu. Síðar flutti hún til Reykjavíkur og starfaði lengst sem safnvörður á Þjóðminasafni Íslands en sinnti þó ýmsum öðrum fjölbreyttum störfum.  Ljóðabækur hennar urðu alls fjórar talsins, sú fyrsta leit dagsins ljós árið 1930 og bar heitið Kveður í runni.

Í þesssari fyrstu bók sinni yrkir Sigríður bæði hefðbundin ljóð að formi til en einnig birtir hún prósaljóð bæði frumort og þýdd. Með þeim ljóðum sínum  hafði hún áhrif á nokkra af helstu frumkvöðlum frjálsara forms í ljóðagerð og lærðu af henni ekki ómerkari skáld en Jón úr Vör og Steinn Steinarr.  Aðrar ljóðabækur Sigríðar eru Milli lækjar og ár 1956, Laufþytur 1970 og Í svölu rjóðri 1971.  Þá kom út þýðing hennar á bók Michel Del Castillo Ljós í myrkrinu árið 1966. Hún birti einnig efni í ýmsum safnritum og starfaði við útgáfu tímarits Kvenréttindafélags Íslands, 19.júní.

 

Ennfremur lauk hún við þýðingu sambýlismanns síns, Karls Ísfelds, á finnska ljóðabálknum Kalevala en Karli tókst ekki að ljúka verki sínu fyrir andlátið. Hefur þýðing hans þótt mikið þrekvirki og aðkoma Sigríðar ekki síðri, því henni tókst það vel upp að hvergi sést hvar nýr þýðandi tekur við, heldur fellur efnið saman í eina heild. 

Sigríður var einn af stofnfélögum Ungmennafélags Stafholtstungna og varð síðar gerð að heiðursfélaga þess og fleiri félaga, til að mynda Kvenfélagsins Sifjar á Patreksfirði, Póstmannafélagsins og Menningar og Friðarsamtaka Íslenskra kvenna.

Með Karli Ísfeld eignaðist hún soninn Einar árið 1935. Hún lést árið 1973, áttræð að aldri.

 

Það fer vel á því að ljúka þessari stuttu kynningu á einu ljóða Sigríðar og fyrir valinu verður ljóðið Ég lít til baka úr ljóðabók hennar Laufþyt:

 

Ég lít til baka

löngu liðna daga

og leita þangað

vorsins fegursta dags.

 

Ég lít til baka

þar átti ég áður heima

sem undi ég mér

við fegurð sólarlags.

 

Ég lít til baka

– læt mig löngum dreyma

liðna tíð – eitt kvöld

um sólarlag.

 

Mynd með frétt: Frænkurnar Sigríður Einarsdóttir (til vinstri) og Halldóra B. Björnsson, myndin er líklega tekin í Borgarnesi.  Eigandi myndar: Þóra Elfa Björnsson.

 

Categories:

Tags:

Comments are closed