Í dag eru liðin 120 ár frá fæðingu Guðrúnar Jóhannsdóttur skáldkonu en hún ólst upp á bænum  Sveinatungu í Borgarfirði, dóttir hjónanna Jóhanns Eyjólfssonar og Ingibjargar Sigurðardóttur. Árið 1915 fluttist fjölskyldan að Brautarholti á Kjalarnesi og kenndi Guðrún sig við þann bæ síðan, en taldi sig þó fyrst og fremst vera Borgfirðing. Eftir Guðrúnu komu út sex bækur á 20 ára tímabili frá 1927-1947, einkum ljóðabækur fyrir börn og fullorðna. Guðrún er þekktust fyrir fjölmargar þulur sínar en einnig má sjá mörg önnur form kveðskapar í bókum hennar.

Árið 2002 kom út bókin Tilfinningar en umsjón með útgáfunni hafði dóttir Guðrúnar Ingibjörg Bergsveinsdóttir en Sorptimistaklúbbur Seltjarnarness gaf út. Í formálanum kemur fram að bókin sé hugsuð sem handbók fyrir þá sem vilji koma tilfinningum sínum á framfæri jafnt á gleði og sorgarstundum. Bókin naut mikilla vinsælda og er fyrir nokkru orðin ófáanleg. Fyrsta ljóð bókarinnar gefur tóninn fyrir það sem koma skal:

 

Ég trúi því er lestu ljóðin mín

að ljóst þú megir í þeim brotin finna

og að ég hafi aldrei ort þau upp á grín

en aðeins vegna tilfinninga minna.

 

Það er gaman að segja frá því að í nýjustu Borgfirðingabók sem væntanleg er innan skamms er birt ítarleg grein um ævi og störf Guðrúnar Jóhannsdóttur frá Brautarholti eftir Björn Jón Birgisson sagnfræðing og Ingibjörgu dóttur Guðrúnar.

Guðrún lést 29.sept. 1970.

 

Mynd: Guðrún Jóhannsdóttir frá Brautarholti, mynd úr eigu Ingibjargar Bergsveinsdóttur.

 

Categories:

Tags:

Comments are closed