Hér skal að nokkru getið fræðimannsins og rithöfundarins Kristleifs Þorsteinssonar. Hann var fæddur á Húsafelli 5. apríl 1861 og var Snorri Björnsson langafi hans. Kristleifur var yngstur af tólf börnum foreldra sinna, Ingibjargar Jónsdóttur frá Deildartungu og Þorsteins Jakobssonar frá Húsafelli. Þegar hann fæddist voru sex af systkinum hans látin, þar af fjögur úr barnaveiki með stuttu millibili. Nafn sitt fékk hann frá tveimur þeirra, sem hétu Kristín og Þorleifur.  Mun  það vera í fyrsta sinn sem nafnið Kristleifur varð til.

Kristleifur dvaldist á Húsafelli  fram á fullorðinsár og stundaði sveitastörf,  en sjóróðra á Suðurnesjum á vertíðum. Hann byrjaði búskap á Uppsölum í Hálsasveit árið 1888, þá nýkvæntur fyrri konu sinni, Andrínu Guðrúnu Einarsdóttur (1859-1899). Undir aldamótin 1900 flutti hann búferlum að Stóra-Kroppi í Reykholtsdal. Kristleifur missti konu sína árið 1899 og kvæntist öðru sinni ári síðar, Snjáfríði Pétursdóttur (1862-1951) frá Grund í Skorradal. Þau áttu eina dóttur barna, Guðnýju, sem síðar giftist Birni Jakobssyni á Varmalæk. Börn Kristleifs af fyrra hjónabandi voru þessi:

Ingibjörg, giftist Þorsteini bónda Þorsteinssyni á Húsafelli.
Þorsteinn, bjó á Gullberastöðum, kvæntur Kristínu Vigfúsdóttur.
Þórður, bjó á Laugarvatni, kvæntur Guðrúnu Eyþórsdóttur.
Katrín, ógift, var ráðskona hjá föður sínum.
Einar, bóndi í Runnum, kvæntur Sveinbjörgu Brandsdóttur.
Jórunn, giftist Jóhannesi Erlendssyni og bjó á Sturlureykjum.
Andrína Guðrún, gift Birni bónda Gíslasyni í Sveinatungu.

Kristleifur var þekktur fyrir merka sagnaritun sína um borgfirska hætti og sögu. Minni hans var afar gott og gat hann lýst atvikum úr bernsku sinni með glöggum hætti. Meðal rita sem eftir hann liggja er Úr byggðum Borgarfjarðar, greinasafn um mannlíf og verkhætti í Borgarfirði. Hann átti einnig stærstan þátt í Héraðssögu Borgfirðinga og ritaði fjölda greina auk fréttapistla sem hann sendi  reglulega í Lögberg, annað blað Íslendinga vestan hafs í um þrjátíu ár. Kristleifur náði háum aldri og hélt áfram að skrifa á meðan heilsan leyfði. Pétur Ottesen segir í minningargrein við andlát hans 1952:

„Fyrir það afrek sem Kristleifur hefur unnið með sagnaritun sinni og fræðimennsku eru ekki einasta Borgfirðingar í mikilli þakkarskuld við hann, heldur þjóðin öll“

Kristleifur lést þann 1. október 1952 og var jarðsettur í heimagrafreit á Stóra-Kroppi við hlið Snjáfríðar síðari konu sinnar.

Heimildir m.a.:

Aðalsteinn Halldórsson ofl. 1985. Borgfirzkar æviskrár VII bindi.
Kristleifur Þorsteinsson. 1941. Frá bernskuárunum. Vísir, sunnudagsblað, 13. apríl.
Pétur Ottesen. 1952. Héraðsþulur og fræðimaður Kristleifur á Stórakroppi. Mbl bls. 6 og 12.
Þorsteinn Þorsteinsson. 2006. Kristleifur og uppruni hans. ópr./Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar.

Samantekt: Guðrún Jónsdóttir.