Á fyrstu árum byggðar í Borgarnesi var algengt að fólk kæmi þangað úr dreifbýlinu í grennd og byggði sér hýbýli. Svo var einnig um ábúendur í Grísatungu í Stafholtstungum, hjónin Kristján Kristjánsson (1869-1949) og konu hans Þuríði Helgadóttur (1870-1959). Þau hjón höfðu búið í Grísatungu árin 1903 til 1915 en fluttu þá í Borgarnes og byggðu sér lítið hús við aðalgötuna inn í bæinn, sem nú nefnist Borgarbraut, áður Borgarnesbraut. Húsið nefndu þau Grísatungu eftir heimaslóðum sínum. Það var eitt svokallaðra Efstu húsa í Borgarnesi á þessum tíma.

Kristján og Þuríður áttu alls 12 börn og var það yngsta fætt í Grísatungu í Borgarnesi. Þegar þau flytja í húsið eru átta af börnum þeirra hjá þeim, á aldrinum 2ja til 12 ára: Steinunn 14 ára, Helgi 12 ára, Ingvar 11 ára, Halldóra 9 ára, Axel 8 ára, Karl Kristján 6 ára,  Ágúst Hannibal 4 ára og Davíð 2ja ára. Ekki er vitað hvað húsið var þá stórt, en í dag er það skráð 70,2 fm. Eftir lát foreldranna bjó ein dætra Kristjáns og Þuríðar í húsinu um áratuga skeið.

Þess má að lokum geta að byggingaleyfi var veitt fyrir húsið 27. apríl 1915 og hefur sú bókun varðveist í fundargerð bygginganefndar Borgarneshrepps frá þeim tíma.

 

Á ljósmyndinni efst er húsið Grísatunga lengst til vinstri.

Samantekt: Guðrún Jónsdóttir.
Ljósmyndir og aðrar heimildir: Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar, Borgfirskar æviskrár VII bindi, bls 190.