Í dag eru hundrað ár liðin frá fæðingu Dr.Hallgríms Helgasonar, eins af okkar mestu fræðimönnum á sviði tónlistar á 20.öld.  Hann varelstur fimm barna hjónanna Helga Hallgrímssonar frá Grímsstöðum í Álftaneshreppi á Mýrum og Ólafar Sigurjónsdóttur frá Vatnsleysuströnd. Þó Hallgrímur væri Reykvíkingur að megninu til dvaldi hann oft í Borgarfirði á lífstíð sinni og safnaði þar meðal annars þjóðlögum á sínum tíma. Það er ekki ofsögum sagt að Hallgrímur hafi helgað líf sitt tónlist í sem fjölbreyttustu mynd og framlag hans er geysimikilvægt á mörgum sviðum hennar.  Hann tók m.a kennarapróf í fiðluleik frá Konservatorium Zürich 1949, og ríkispróf í tónsmíði frá sama skóla, sama ár og lauk doktorsgráðu í tónvísindum við Universität Zürich 1954. Hann var fiðluleikari með hljómsveit Reykjavíkur 1927-1933, söngkennari við MR 1940-46, stjórnaði ýmsum kórum og kom fram sem píanóleikari, bæði hér innanlands sem víða um lönd.  Hallgrímur var prófessor við University of Saskatchewan 1966-1974 og dósent við HÍ 1974-1983.  Þá samdi hann fjölmörg tónverk, t.d sönglög, móttettur, einleiksverk fyrir hin ýmsu klassísku hljóðfæri, verk fyrir strengjasveit, sinfóníuhljómsveit og svo framvegis.  Hallgrímur hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín.   

Hann kom einnig að ritstörfum og meðal verka hans eru bækurnar Almenn tónfræði 1944, Tónfræði 1975, Tónmenntir I-II, útgefnar 1977 og 1980 en þær bækur eru einhverskonar tónlistarorðabækur sem hafa mikið notagildi enn þann dag í dag.  Íslands lag kom út árið 1973 en þar sagði Hallgrímur frá starfi sex merkra brautryðjenda á sviði íslenskra tónmennta á 18. og 19. öld. Íslenzkar tónmenntir- kvæðalög forsaga þeirra, bygging og flutningsháttur kom út 1980, Tónmenntasaga Íslands kom út 1992 og  Tónskáld og tónmenntir 1993 en þær eru hluti af ritröðinni Íslensk tónmenntaritun sem ekki kom meira út af en ritin tvö sýna glöggt hversu atorkusamur og kappsfullur Hallgrímur hefur verið allt fram á efri ár því hann lést aðeins ári eftir útkomu seinna ritsins, árið 1994, áttræður að aldri. Eiginkona hans var Valgerður Tryggvadóttir (1916-1995). Hún var fædd á Hesti í Andakíl, dóttir Tryggva Þórhallssonar síðar ráðherra og Önnu Guðrúnar Klemensdóttur. Hallgrímur og Valgerður áttu ekki afkomendur.  

 

Samantekt: Sævar Ingi Jónsson.

Ljósmynd: Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar. 

Categories:

Tags:

Comments are closed