Benónía Jónsdóttir (1872-1946) var fædd á Gilsbakka í Hvítársíðu, dóttir hjónanna Jóns Jónssonar og Sigurbjargar Steingrímsdóttur sem síðar bjuggu í Suddu í Reykholtsdal og fluttu til Ameríku vorið 1898. Þess má geta að Jón og Sigurbjörg eru fyrirmyndir aðal söguhetja bóka Böðvars Guðmundssonar, Híbýli vindanna og Lífsins tré.

Jón og Sigurbjörg eignuðust ellefu börn en aðeins fimm komust upp, auk Benóníu þau Sigríður, Böðvar, Þóra og Jóhannes. Þau fluttu öll síðar til Ameríku og einungis Böðvar og Benónía urðu eftir heima. Böðvar ólst upp hjá hjónunum Eyjólfi Jóhannessyni og Helgu Guðmundsdóttur sem lengst af bjuggu í Hvammi í Hvítársíðu. Síðar varð hann bóndi á Kirkjubóli í sömu sveit og var faðir Guðmundar Böðvarssonar skálds.

Foreldrar Benóníu voru bláfátæk og voru háð sveitarframfærslu. Litla stúlkan var tekin af þeim nýfædd og komið í fóstur. Svo segir Silja Aðalsteinsdóttir um hana í bókinni Skáldið sem sólin kyssti:

„Benónía var ársgömul skráð sveitarbarn á Bjarnastöðum árið 1872, og þegar skipti um ábúendur þar árið 1874 var hún skilin eftir eins og búshlutur. Allir á bænum fóru burt; hún ein tók á móti nýrri fjölskyldu sem flutti þangað inn, þriggja ára gamalt barn.“

Benónía giftist Eggerti Gíslasyni árið vorið 1897 og bjuggu þau að Vestri Leirárgörðum í Leirársveit. Þau áttu sex börn á árabilinu 1896-1907: Sæmund, Magnús, Láru, Áslaugu, Kláus og Gunnar.

Árið 2019 barst Byggðasafni Borgarfjarðar rokkur úr eigu Benóníu. Hann hafði hún fengið árið 1886 og var hann smíðaður af Árna Þorsteinssyni smið á Brennistöðum í Flókadal (1860 – 1939).  Það var Svanhildur Ólafsdóttir dótturdóttir Benóníu sem gaf rokkinn til safnsins. Þess má geta að á aðventunni þetta sama ár var rokknum stillt upp í Safnahúsi við hlið lítils jólatrés sem Guðmundur Böðvarsson skáld og frændi Benóníu hafði smíðað. Gripirnir stóðu á útsaumuðum dúkum eftir Ingibjörgu Sigurðardóttur, móður Guðmundar.

                                          Safnahús Borgarfjarðar 2020. Guðrún Jónsdóttir.


Helstu heimildir:
Silja Aðalsteinsdóttir. 1994. Skáldið sem sólin kyssti, bls 16-17, 20, 28, 99 og 201.
Aðalsteinn Halldórsson o.fl. 1969. Borgfirskar æviskrár I, bls. 177-178 og 503-504.
Aðalsteinn Halldórsson o.fl. 1971. Borgfirskar æviskrár II, bls. 53-54.
Svanhildur Ólafsdóttir. 2019, samantekt um Benoníu Jónsdóttur.
Ljósmynd: Árni Böðvarsson, Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar.