Aðsókn að Safnahúsi hefur aukist til muna á fyrstu átta mánuðum ársins miðað við 2014. Aðsókn að sýningum hefur aukist um 32 % og að bókasafni rúm 10 %. Er þetta einkar ánægjuleg þróun fyrir markmið sveitarfélagsins um húsið sem menningarmiðstöð í héraði.
Grunnsýningar hússins, Börn í 100 ár og Ævintýri fuglanna hafa báðar fengið lof í erlendum ferðahandbókum og á alþjóðlegum ferðamálasíðum. Ekki síst hefur listræn og falleg hönnun Snorra Freys Hilmarssonar vakið athygli, en sýningarnar eru báðar hannaðar af honum.
Sýningin Gleym þeim ei er í Hallsteinssal á efri hæð Safnahúss. Hún er hönnuð af Heiði Hörn Hjartardóttur og er með aðsóknarmestu tímabundnu sýningum Safnahúss. Fyrirhugað var að sú sýning stæði út október en ákveðið hefur verið að framlengja líftíma hennar fram í miðjan nóv.
Þess má svo geta að laugardaginn 21. nóvember verður opnuð sýning á myndverkum Bjarna Guðmundssonar prófessors á Hvanneyri en hann er forstöðumaður Landbúnaðarsafns Íslands og miðlar ómetanlegum fróðleik um vinnulag og búskaparhætti í máli og myndum.
Ljósmyndir: Guðrún Jónsdóttir.
Comments are closed