Sú skemmtilega hugmynd hefur fæðst hjá aðstandendum Skemmukaffisins á Hvanneyri að fá eitthvað að láni frá söfnum í héraðinu til að sýna gestum.  Meðal muna sem koma frá Byggðasafni Borgarfjarðar er rokkur úr eigu Hildar Guðmundsdóttur, húsfreyju á Haukagili í Hvítársíðu.

Rokkurinn kom til Byggðasafns Borgarfjarðar 1972 og er líklega smíðaður um 1920, af móðurbróður hennar Þorsteini Hjálmarssyni frá Kolsstöðum í Hvítársíðu, bónda á Hvarfi í Víðidal.  

 

Þorsteinn Hjálmarsson var listasmiður. Hann var fæddur árið 1840 og lést 1921. Svo segir Kristleifur Þorsteinsson um hann í Héraðssögu Borgfirðinga: „Hann var orðlagður fyrir hagleik og snilli, og frá hans hendi var hver smíðisgripur bæði svipfallegur og vandaður að frágangi.“ 

 

Hildur Guðmundsdóttir var fædd 1877 og lést 1938. Hún var dóttir Guðmundar Sigurðssonar og Helgu Hjálmarsdóttur bænda á Kolsstöðum. Hildur var gift Jóni Sigurðssyni (1871-1935) bónda á Haukagili.

 

Skemmukaffi verður opið á sumar frá kl. 12-17. Það er til húsa í gömlu skemmunni á Hvanneyri, elsta húsinu á staðnum, en það var byggt árið 1896. Það er Soffía Reynisdóttir veitingakona sem rekur Skemmukaffi.  Hún fær einnig ljósmyndir frá Hvanneyri á Héraðsskjalasafninu og verða þær settar í þar til gerðar möppur sem gestir geta flett í á staðnum.

 

Ljósmynd (Guðrún Jónsdóttir):  Gamli rokkurinn frá Haukagili bíður þess að verða sóttur af Soffíu Reynisdóttur – sýningin Kaupmannsheimilið í baksýn.

 

 

 

 

 

Categories:

Tags:

Comments are closed