Birt með góðfúslegu leyfi höfundar.
Ástarljóð
Mig langar að semja ástarljóð eitt
sem að eilífu lifir í hjarta
og ekki freistar mín annað neitt
en að yrkja til landsins míns bjarta.
Það lýsir með regnboga leiðan dag
svo ljómi af himinsins boga.
Aldrei mun hverfa hið eilífa lag
sem Íslandsins tendraði loga.
Þú, Ísafold, skapaðir eld minn og sál
og allt sem ég dái og er.
Þú veittir mér ljóð og þú veittir mér mál
og visku sem aldregi þver.
Ó, Frón, þú ert allt sem fallegast er,
um fjöll þín mig ávallt mun dreyma.
Minn anda og dug ég eftirlæt þér.
Ég ann þér, því hér á ég heima.
Vorkyrrð
hvítur himinn kyrrðar
hvíslar haf
fjallsins tvífari
fyllir hug
rofin aðeins ró
rjómahvítum fjarska
líf í báru blá
bærir ljós
Comments are closed