Á sumardaginn fyrsta þann 24. apríl n.k. kl. 13.00 verður opnuð ný sýning í Safnahúsi. Um er að ræða minningarsýningu um Guðmund Böðvarsson skáld (1904-1974) og er hún unnin með mikilli þátttöku ungs fólks. Verkefnið er unnið í samstarfi Safnahúss og Tónlistarskóla Borgarfjarðar með þátttöku grunnskólanna í héraðinu. Sýningarhönnun er í höndum tveggja ungra hönnuða, Magnúsar Hreggviðssonar og Sigursteins Sigurðssonar. Sýningin mun standa fram í september.
Safnahús hefur unnið að verkefninu í náinni samvinnu við Böðvar Guðmundsson sem hefur valið ljóðin sem notuð eru til grundvallar og mun flytja erindi um föður sinn við opnunina. Þá munu nemendur Tónlistarskólans flytja tónlist sem þeir hafa frumsamið við ljóð Guðmundar. Einnig flytja þeir nokkur lög sem áður hefur verið samin við ljóðin. Þeir hafa unnið að undirbúningi þessa í vetur undir handleiðslu kennara sinna.
Í tengslum við sýninguna hafa grunnskólanemendur (aðallega í 9. bekk Grunnskólans í Borgarnesi) einnig unnið að veggspjaldagerð út frá ljóðum og hugsjónum Guðmundar og verða þau hluti sýningarinnar. Þess má einnig geta að myndbandsupptaka verður gerð af opnunardagskránni og eru það ungir nemendur í kvikmyndaáfanga við Grunnskólann í Borgarnesi sem annast það verk undir leiðsögn kennara síns.
Á sýningunni er lögð áhersla á ljóð Guðmundar undir þemanu „Landið sem þér er gefið“ auk þess sem sýndir verða valdir útskurðarmunir eftir hann. Þannig er stórum hluta listsköpunar hans gerð skil í sýningunni sem verður eins og áður sagði opnuð kl. 13.00 á Sumardaginn fyrsta. Fornbílafélag Borgarfjarðar (Samgönguminjasafnið í Brákarey) mun við það tækifæri stilla upp gömlum bílum við Safnahús, Guðmundi til heiðurs.
Það er sérlega ánægjulegt að ungt fólk skuli í þetta miklum mæli vinna með minningu Guðmundar Böðvarssonar á afmælisárinu 2014. Og þema verkefnisins er bein vísun í tengslin við landið og náttúruna sem er rauður þráður í ljóðasmíð hans.
Comments are closed