Samstarfsverkefni Tónlistarskólans og Safnahússins tengt borgfirskum skáldum er nú komið í fullan gang og er það í fjórða sinn sem það kemst til framkvæmda. Verkefnið snýst um að hvetja ungt fólk til listsköpunar á grundvelli borgfirskra texta og þetta árið er það höfundarverk Snorra Hjartarsonar sem varð fyrir valinu.
Snorri var fæddur á Hvanneyri árið 1906 og ólst upp á Ytri-Skeljabrekku og í Arnarholti. Hann tengist því víða inn í héraðið. Verkefnið fer þannig fram að nemendur skólans fá vinnuhefti með ljóðum Snorra í hendur og vinna svo að því að tónsetja þau undir handleiðslu kennara sinna.