Sparisjóður Mýrasýslu tók til starfa þann 1. október 1913.  Höfuðstöðvar hans voru alltaf í Borgarnesi,  fyrst í húsi Kaupfélags Borgfirðinga við Skúlagötu sem nefnt var Salka.  Er Kaupfélagið flutti starfsemi sína í verslunarhúsin í Englendingavík árið 1916 fylgdi sjóðurinn með og var þar fram til ársins 1920 að nýtt hús var byggt við Skúlagötu 14 (kallað Gamli sparisjóðurinn). Þar var starfsemi sparisjóðsins var á neðri hæð en íbúð gjaldkera hans á efri hæð.  Þarna var reksturinn til húsa í 42 ár eða allar götur til ársins 1962 að reist var nýbygging að Borgarbraut 14 sem flutt var inn í í lok september það ár.  Það hús var síðar stækkað og þar var starfsemin til ársins 2005 að hún var flutt í nýtt hús að Digranesgötu 2 þar sem nú er Arion banki. 

 

Í sviptingum ársins 2008 varð rekstur Sparisjóðsins ekki undanskilinn áföllum eins og kunnugt er og að lokum rann saga hans sitt skeið.  Á þessum tímamótum verður vitnað í orð Magnúsar Sigurðssonar á Gilsbakka sem lengi gegndi formennsku stjórnar Sparisjóðsins og ritar svo í formála að 90 ára sögu hans: „Á tímum eins og nú eru, þegar margt er á hverfanda hveli, innan héraðs og utan, er gott að glöggva sig á liðinni tíð – og forsendum þess, sem þá tókst vel, en þær voru fyrst og fremst samstaða hinna mörgu og smáu um verkefnin og þær hugmyndir sem þau voru byggð á.“ 

 

Eins og Magnús kom einnig inn á í nefndum formála er saga sparisjóðsins góður og gildur þáttur í sögu Borgarfjarðarhéraðs á tuttugustu öld. Því er hans minnst hér í tilefni dagsins.