Í dag eru liðin 150 ár frá fæðingu þess mikla þjóðlagasafnara Bjarna Þorsteinssonar. Bjarni var fæddur á Mel í Hraunhreppi á Mýrum 14. október árið 1861. Foreldrar hans voru Þorsteinn Helgason (1835-1908) bóndi á Mel og kona hans Guðný Bjarnadóttir (1833-1909). Bjarni varð stúdent 1883 frá Latínuskólanum í Reykjavík og lauk embættisprófi frá Prestaskólanum 1888. Á námsárunum var hann bæjarfógetaskrifari í Reykjavík, stundakennari við Latínuskólann og sýsluskrifari í Vatnsdal. Árið 1892 kvæntist hann Sigríði dóttur Lárusar Blöndals sýslumanns Húnvetninga og eignuðust þau fimm börn. Bjarni gerðist sóknarprestur í Hvanneyrarprestakalli í Siglufirði 1888 og gegndi því embætti allt til 1935. Hann lærði lítilsháttar tónfræði hjá Jónasi Helgasyni og harmóníumleik hjá frú Önnu Petersen. Bjarni var brautryðjandi í íslensku tónlistarlífi. Hann samdi fjölda alkunnra laga og hafði með messusöngvum sínum mikil áhrif á söngmennt í kirkjum landsins. Stærsta minnisvarða reisti hann sér þó með þjóðlagasafni sínu sem hann safnaði frá árinu 1880 og kom út á árunum 1906-09 með styrk úr Landssjóði og Carlsberg-sjóðnum danska. Ritið vapar ljósi á tónlistararf þjóðarinnar og er óumdeilt afrek á sviði íslenskrar menningarsögu. Bjarni var sæmdur prófessorsnafnbót fyrir afrek sín. Hann lést árið 1938.