Vegagerð ríkisins minntist eitt hundrað ára starfsafmælis í Borgarnesi í Safnahúsi s.l. þriðjudag, en það var árið 1910 sem Guðjón Bachmann brúasmiður og verkstjóri fluttist í Borgarnes og hóf þar störf við vegagerð. Af þessu tilefni afhenti stofnunin Byggðasafni Borgarfjarðar nú líkan af gömlu Hvítárbrúnni, sem þótti á sínum síma mikið verkfræðiafrek og er enn mikil héraðsprýði. Líkanið er í hlutföllunum 1:42 og er smíðað af Erling M. Andersen. Hreinn Haraldsson vegamálastjóri ávarpaði samkomuna og sagði m.a. að þótt menn vissu hvenær starfsemin hefði hafist í Borgarnesi lægi ekki alveg fyrir hvenær formleg vegagerð (nú starfsemi Vegagerðar ríkisins) hefði hafist í landinu, en líklega væri það ekki löngu fyrr.