Þorsteinn Jósepsson var fæddur 18. júlí 1907 á Signýjarstöðum í Hálsasveit, sonur Jóseps G. Elíesersonar bónda þar og Ástríðar Þorsteinsdóttur konu hans.  Jósep var ættaður úr Víðidal í Húnavatnssýslu en Ástríður var frá Húsafelli í Hálsasveit.  Þorsteinn starfaði mikið með ungmennafélaginu heima í héraði, varð ágætur íþróttamaður og  síðar kunnur ljósmyndari, blaðamaður og rithöfundur. Hann dvaldist erlendis um nokkurt skeið, í Þýskalandi og Sviss. Laust fyrir 1940 réðst hann að Vísi bæði sem ljósmyndari og blaðamaður og starfaði þar síðan eða í meira en aldarfjórðung.  Ljósmyndasafn Þorsteins er nú í eigu Þjóðminjasafns Íslands.

Þorsteinn var mikill bókasafnari og hafði áhuga á alls kyns bókmenningu, ferðalögum og náttúruskoðun svo nokkuð sé nefnt. Þess má geta að mikil vinátta var með honum og Páli Jónssyni frá Örnólfsdal (1909-1985), merkum bókasafnara og velgjörðarmanni Safnahúss. Sjá má nánar um Pál með því að smella hér.

Þorsteinn var fyrst giftur Guðbjörgu Maríu Benediktsdóttur en þau skildu. Árið 1947 kvæntist hann Jósefínu Gísladóttur og varð þeim einnar dóttur auðið, er heitin var Ástríður í höfuð ömmu sinni. Jósefína andaðist árið 1962. Síðari kona Þorsteins var Edith Wischatta frá Innsbruck í Austurríki.

Eftirfarandi ritverk hafa komið út eftir Þorstein Jósepsson:

Tindar – smásögusafn 1934
Ævintýri förusveins – 1934
Undir suðrænni sól – 1937
Týrur, smásögusafn – 1946
Í djörfum leik – 1946
Landið þitt – I 1966
Landið þitt II – 1968

Auk ofangreinds ritaði Þorsteinn fjölda greina í innlend og erlend tímarit og í árbækur Ferðafélags Íslands þar sem hann sat í stjórn frá árinu 1942 og til dauðadags, en hann lést í janúarlok árið 1967.

 

Ljósmynd: Þorsteinn Jósepsson. Birt með góðfúslegu leyfi Þjóðminjasafns Íslands.

Samantekt: Guðrún Jónsdóttir.

Helstu heimildir:
Axel Thorsteinsson. 1967. Þorsteinn Jósepsson blaðamaður látinn. Vísir 30. janúar, bls. 16.
Gunnar G. Schram. 1967. Þorsteinn Jósepsson, minning. Morgunblaðið 4. febrúar bls. 12.
Sveinbj. Guðmundsdóttir og Þuríður J. Kristjánsdóttir. 2003. Borgfirskar æviskrár XII. Söguf. Borgarfjarðar, Rvk.
Sverrir Þórðarson. 1967. Þorsteinn Jósepsson, minning. Morgunblaðið 4. febrúar bls. 12.