F. 16. október 1883, d. 12. júlí 1958

Höfundur: Ragnheiður Kristófersdóttir

Ragnhildur Benjamínsdóttir

Ég kalla hana Rönku. Í uppvexti mínum var hún eitt af því sjálfsagða og óbreytanlega og mér þótti vænt um hana. Ranka giftist ekki og eignaðist ekki börn. Hún vann öðrum alla æfi og gerði ekki víðreist. Hún var alla æfi í uppsveitum Borgarfjarðar, lengst af í Hvítársíðu.

Ranka fæddist að Hallkelsstöðum í Hvítársíðu. Foreldrar hennar voru hjónin Benjamín Jónsson og Nikhildur Erlingsdóttir sem þar bjuggu.  Þau voru bæði alin upp á Hallkelsstöðum hjá hjónunum Nikulási Björnssyni og Ragnhildi Símonardóttur. Þau voru barnlaus og þegar Benjamín og Nikhildur giftust þurfti ekki að skipta reytunum!

Benjamín og Nikhildur eignuðust fimm börn: Nikulás f. 1879, d. 1882., Ragnhildi f. 1881, d. 1883. Ragnhildi f. 1883, lengi vinnukona í Kalmanstungu, Sigríði f. 1886, gift kona á Akureyri og Nikólínu f. 1889, lengi vinnukona á Gilsbakka.

Áður hafði Benjamín  eignast barn með Ragnheiði Nikulásdóttur, þá vinnukonu á Hallkelssstöðum, það var Jóhannes, f. 1872, síðar bóndi á Hallkelsstöðum.

Ranka ólst upp á rótgrónu heimili foreldra sinna og vandist í æsku öllum venjulegum störfum, eins og þau gerðust á sveitaheimilum þessa tíma, bæði úti við og innanbæjar.  Sem barn og unglingur sat hún yfir ánum meðan haft var í kvíum, hún lærði að mjólka bæði ær og kýr og hún þótti góður smali, hún var svo dugleg að hlaupa. Meðan heyskapur var stundaður með gamla laginu, með orfi og hrífu, var hún talin góður sláttumaður og gekk að því verki þegar þurfti ásamt því að raka og hjálpa til í heybandi. Hún lærði líka að breyta ull í fat og mjólk í mat. Öll þessi störf urðu meira og minna í hennar verkahring alla æfi, í fyrstu í foreldrahúsum en seinna á bæjum í nágrenninu.

Ég veit ekki hvar Ranka var í vistum framan af, hún var eitthvað í Hraunsási, annað hvort vinnukona eða kaupakona og í Stóra-Ási var hún vinnukona, ég held kannske í tvö ár, og ef til vill hefur hún verið einhversstaðar víðar, en þetta veit ég ekki vel.

Ranka var í Reykjavík í einn (eða kannski tvo) vetur. Þar lærði hún karlmannafatasaum. Ég held að það hafi verið nokkuð um, að ungar stúlkur brygðu á það ráð ef þær gátu. Þetta var svo nytsöm kunnátta meðan allur fatnaður var saumaður heima.

Fleira kann ég ekki að segja um vistferli Rönku annað en það, að 1913 kom hún að Kalmanstungu og var þar uns yfir lauk.

Ólafur og Sesselja í Kalmanstungu

Þegar Ranka kom að Kalmanstungu bjuggu þar afi minn og amma, Ólafur Stefánsson og Sesselja Jónsdóttir. Ólafur og Ranka voru að öðrum og þriðja að frændsemi, Ólöf móðir Ólafs og Þórunn amma Rönku voru systur, Magnúsdætur frá Fljótstungu.

Árið 1930 urðu miklar breytingar í Kalmanstungu. Ólafur bóndi lést, Sesselja hætti búskap og jörðin skiptist á milli bræðranna, Kristófers og Stefáns, sem báðir giftust það ár og stofnuðu heimili. Ranka fylgdi Kristófer og var æ síðan á hans heimili.

Mamma kom úr Reykjavík og var óvön sveitastörfunum. Þá var Ranka nú betri en enginn, hún kunni á öllu skil og var vön öllum aðstæðum í Kalmanstungu. Mömmu og Rönku kom alltaf vel saman og virtu hvor aðra. Mamma vandist nýjum aðstæðum og Ranka hélt áfram að annast ýmislegt, sem lengi hafði verið í hennar verkahring. Hún hirti kýrnar, gaf þeim og mjólkaði og vann úr mjólkinni. Hún bjó til besta skyr, sem ég hef smakkað. Það er vandaverk, en hún studdist við reynsluvísindi kynslóðanna. Mjólkin þarf að vera mátulega heit svo að vel fari þegar hún er hleypt. Það var aldrei til mjólkurmælir heima.  Ranka stakk bara fingri ofan í mjólkina og  fann þá hvað var mátulegur hiti. Ranka vildi alltaf skilja mjólkina sjálf. Hún trúði varla unglingunum til að snúa skilvindunni mátulega hratt svo að rjóminn væri hæfilega þykkur.  Ranka bakaði líka rúgbrauðin. Þau voru sælgæti.

Fjallagrös voru alltaf til í Kalmanstungu og notuð í grasamjólk og grasagraut, sem var þykkur, eins og ávaxtagrautur. Ranka var alveg sjálfsögð í allar grasaferðir, alltaf var farið á hestum og henni fannst þær vera bestu skemmtiferðir, þó voru þær oftast farnar þegar rigning var og blautt á. Hún fór líka með okkur til berja.

Ranka vann alltaf svolítið af ull heima, kembdi og spann og prjónaði aðallega vettlinga og sokka. Hún kunni líka að vefa. Það var ekki til vefstóll heima eftir að ég man eftir, en það voru til nokkur brekán sem Ranka hafði ofið.

Ranka hafði gaman af að lesa, bæði sögur og þjóðlegan fróðleik, en ekki lá hún í bókum á virkum dögum! Hún átti fáeinar bækur, hún lánaði mér bæði Skugga-Svein og Þúsund og eina nótt. Ranka átti kommóðu og koffort og hægindastól fékk hún í vinnuhjúaverðlaun, í annað skipti fékk hún silfurskeið og síðar gauksklukku í samskonar verðlaun og svo átti hún hnakk. Hún fór ekkert af bæ nema ef hún skrapp upp að Hallkelsstöðum að finna frændfólk sitt. Einu sinni á seinni árunum þurfti hún þó að fara í Borgarnes til að fá ný gleraugu og vera nótt í burtu, þá hafði hún áhyggjur af því að við gætum ekki mjólkað kýrnar.

Ranka stamaði og kom sér illa við meðal ókunnugra og ef henni var mikið niðri fyrir, en hversdagslega meðal heimafólks bar ekki mikið á því. Hún vildi ekki vera ein heima ef það skyldu koma gestir. Hún hafði gaman af að hlýða á tal manna, hún hafði sínar skoðanir og hvikaði ekki frá þeim þó að öðru væri haldið fram.

Ranka var alla tíð heilsugóð. Ég minnist þess ekki að hún væri rúmföst þó einhverjar umgangspestir væru á ferðinni, hún fór að minnsta kosti alltaf í fjósið. En svo komu mislingar á bæinn og úr þeim andaðist Ranka, heima í rúminu sínu, 12. júlí 1958.

Ranka var áreiðanleg og vönduð manneskja, ég vissi aldrei til að hún ætti nokkurn óvin.