Á árinu 2018 eru liðin 100 ár frá því að Magnús Jónasson keypti fyrsta bílinn sem kom í Borgarnes.
Af þessu tilefni minnist Safnahús Magnúsar með þrennum hætti; grein hefur verið rituð í Borgfirðingabók, veggspjaldasýning sett upp í Safnhúsi og fróðleik hér með komið á framfæri á heimasíðu hússins.  Fór undirbúningur fram í samvinnu við fjölskyldu Magnúsar svo og í samstarfi við Sögufélag Borgarfjarðar útgefanda Borgfirðingabókar. Eru viðkomandi aðilum færðar bestu þakkir.

Upphafið
Magnús var einn sjö barna Jónasar Jónassonar og Ingibjargar Loftsdóttur sem fluttu í Borgarfjörðinn árið 1894. Þegar hann fæddist bjuggu þau á Galtarhöfða í Norðurárdal. Fátæktin var mikil á barnmörgu heimili og Magnús fór ungur að heiman í vinnumennsku. Haustið 1916 hóf hann nám í húsgagnasmíði hjá Jónatani Þorsteinssyni í Reykjavík.

Fyrsta ökuskírteinið
Jónatan var umsvifamikill atvinnurekandi og framleiddi allt frá stórum kerrum til húsgagna. Hann flutti einnig inn bifreiðar og þar fékk Magnús bílaáhugann. Hann lærði á bíl hjá Jóni Ólafssyni frostaveturinn mikla 1917-1918, lauk prófinu í febrúar 1918 og eignaðist sama ár fyrsta borgfirska ökuskírteinið, þá 24 ára gamall. Einnig keypti hann gamlan Ford sem var skráður MB 1. Ári seinna eignaðist hann nýjan Ford og fékk sá númerið MB 2.  Oft þurfti Magnús að fara yfir óbrúaðar ár og ófæra vegi. Á yngri árum veiktist hann af berklum og var nokkuð bæklaður á fæti. Hefur það vafalaust háð honum nokkuð, en engu að síður starfaði hann sem atvinnubílstjóri í áratugi.

Konungsævintýri
Árið 1930 rak Magnús orðið bílastöð ásamt Friðriki Þórðarsyni. Það ár fóru þeir eitt sinn suður í Hvalfjörð til að taka á móti Kristjáni X.  Danakonungi sem vildi renna fyrir lax í Norðurá. Var þá m.a. ekið yfir Andakílsá óbrúaða, en allt fór þó vel.  Veitti konungur Magnúsi síðar heiðurspening fyrir góða þjónustu.

Fjölskylda og heimili
Magnús giftist árið 1933 Önnu S. Agnarsdóttur (f. 1907) sem ólst upp á Hofi í Vatnsdal. Eignuðust þau tvö börn, Ingibjörgu Ástu og Skjöld Heiðar. Áður hafði Anna eignast son, Reyni Karlsson. Tvo fóstursyni áttu þau einnig, Magnús Reynisson og Magnús Hauk Norðdahl. Fjölskyldan bjó lengst af í húsi sem í dag er Borgarbraut 7 í Borgarnesi en hefur gjarnan verið kallað nítjánnítján (byggingarárið).  Byggði Magnús húsið ásamt Árna bróður sínum sem síðar flutti til Reykjavíkur. Var það byggt af stórhug, tvær hæðir og ris og rúmlega tvö hundruð fermetrar að stærð. Þótti það með glæsilegustu húsum í Borgarnesi og garðurinn skartaði fallegum gosbrunni. Var löngum gestkvæmt á heimilinu sem var biðstaður ferðalanga og margir bílstjórar Magnúsar héldu þar til. Mæddi því mikið á húsfreyju sem var orðlögð fyrir hlýjar og góðar móttökur. Þegar breskt herlið kom í Borgarnes árið 1940 leigði það stofuna á miðhæðinni undir skrifstofu.

Margir Borgnesingar muna húsið á blómatíma þess. Það stendur enn og þegar þetta er skrifað er endurbygging þess hafin eftir langan tíma í niðurníðslu.

Magnús Jónasson þótti vandaður, hjálpfús og orðheldinn. Starfsævi hans varð löng og vann hann vel fram yfir sjötugt. Í júní 1969 tóku þau hjón ákvörðun um að setja hús sitt á sölu og síðar sama ár lést Magnús, 75 ára að aldri. Anna lifði mann sinn en flutti fljótlega til Reykjavíkur eftir lát hans. Hún lést um áttrætt, árið 1987. Þau eru jarðsett í Borgarneskirkjugarði.

Ljósmyndir:
Magnús Jónasson á unga aldri.
Anna og Magnús.
Húsið 1919 í Borgarnesi (Einar Ingimundarson).

Samantekt í janúar 2018, Safnahús Borgarfjarðar, Guðrún Jónsdóttir. Ljósmyndir: Fjölskylda Magnúsar og Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar. Þakkir fyrir upplýsingar, yfirlestur og ljósmyndir:  Skjöldur Magnússon, Torfhildur Eyrún Ragnarsdóttir, Ingibjörg Ásta Magnúsdóttir, Atli Norðdahl og Jóhanna Skúladóttir.

Aðrar helstu heimildir:
Aðalsteinn Halldórsson o.fl. 1985. Magnús Jónasson. Borgfirzkar æviskrár VII. bindi, bls. 349.
B.V.G. o.fl. 1983. Þegar kóngurinn kallaði „Stopp“ Kaupfélagsritið maí bls. 28-38 og júlí bls. 52-57.
„Bróðursonur“ 1969. Magnús Jónasson – Minning. Morgunblaðið 14. desember, bls. 22.
Br. 1968. Þegar kóngurinn kallaði: STOPP. Morgunblaðið, 15. júní, bls. 14.
Guðmundur Jónsson. 1969. Magnús Jónasson, minning. Morgunblaðið 13. desember, bls. 12 og 22.
Hreinn Ómar Arason. 2017. Bifreiðar á MB og M númerum. Borgfirðingabók, bls. 257.
Jón Jónsson o.fl. 1979. Jónas Jónsson. Borgfirzkar æviskrár VI. bindi, bls. 373-374.
Egill Ólafsson og Heiðar Lind Hansson. 2017. Bílaöld hefst. Saga Borgarness I. bindi, bls. 186 – 191.
Magnús Jónasson. 1969. Auglýsing. Morgunblaðið, 22. júní, bls. 4.
S.J. 1968. Fimmtíu ár undir stýri. Tíminn, 20. febrúar, bls. 3.