Jón Björnsson 24 áraJón Björnsson var fæddur í Bæ í Bæjarsveit 11. júní 1878.  Foreldrar hans voru Björn Þorsteinsson bóndi í Bæ og kona hans Guðrún Jónsdóttir, sem ættuð var frá Deildartungu í Reykholtsdal. Björn var frá Húsafelli, bróðir fræðimannsins góðkunna Kristleifs Þorsteinssonar. Björn og Guðrún áttu alls 10 börn og var Jón næstelstur. Hann var kenndur við æskuheimili sitt í Bæ. Þau Helga María Björnsdóttir frá Svarfhóli giftast árið 1906 og hefja sinn búskap í Borgarnesi þar sem þau bjuggu síðan óslitið til ársins 1946 er þau fluttust til Reykjavíkur.  Þau eignuðust fjögur börn: Björn Franklín f. 1908, Guðrúnu Laufeyju f. 1910, Halldór Hauk f. 1912 og Selmu f. 1917.

Jón kynnti sér verslun í Danmörku og á Englandi. Hann hóf verslunarrekstur sem fyrsti forstöðumaður (frkvstj) „Framfararfélags Borgfirðinga“ sem síðar varð Kaupfélag Borgarfjarðar. Hann var ásamt föður sínum hvatamaður að stofnun þess félags. Jón hóf síðan sjálfstæðan rekstur eftir að hafa 28 ára gamall keypt „Lange verslunina“ í Borgarnesi árið 1906 og rak hann þar fjölbreytta  verslun um fjörtíu ára skeið á þeim stað þar sem Landnámssetur Íslands er til húsa í dag. Einnig rak hann sláturhús og stundaði útgerð, um tíma með nafna sínum og mági, Jóni Björnssyni sem kenndur var við Svarfhól í Stafholtstungum. Svo segir Friðrik Þórðarson í minningargrein um Jón í apríl 1949:

„Jón Björnsson frá Bæ má telja einn af ármönnum þjóðarinnar á hinu viðskiftalega endurreisnartimabili hennar um og eftir síðustu aldamót. Með afskiftum hans af viðskiftamálum hjeraðsins, kemst öll verslun þess í innlendar hendur og það mikið fyrr en í öðrum nálægum hjeruðum.“

Jón var víðlesinn og átti gott bókasafn. Hann hafði sem ungur maður komið á lestrarfélagi í sinni heimasveit og var formaður lestrarfélagsins í Borgarnesi í mörg ár. Hann var sagður raungóður starfsfólki sínu og hjálpsamur og greiðasamur svo eftir var tekið.

Jón fluttist ásamt Helgu Maríu konu sinni til Reykjavíkur árið 1946 en lifði ekki lengi eftir það. Hann lést 24. mars 1949.

 

Heimildir:

Aðalsteinn Halldórsson o.fl. 1969. Borgfirzkar æviskrár I. bindi, bls. 462. Sögufélag Borgarfjarðar.
Friðrik Þórðarson. 1949. Jón Björnsson frá Bæ, minning. Morgunblaðið, 7. apríl, bls. 6.
Garðar Halldórsson. 2010. Munnleg heimild.

 

Samantekt: Guðrún Jónsdóttir.