Halldóra B. Björnsson fæddist í Litla Botni í Hvalfirði árið 1907 og var næstelst í stórum systkinahópi sem öll ortu og hafa komið út ljóðabækur eftir flest þeirra. Fjölskyldan bjó allmörg ár í Grafardal en einnig á Geitabergi og Draghálsi. Halldóra elskaði landið sitt og bar djúpa virðingu fyrir því og orti mörg ljóð þar sem þessar tilfinningar koma vel fram. Hún var þeirrar skoðunar að við ættum öll að ganga vel um jörðina og skila henni í góðu standi til næstu kynslóða. Hugsa um þá sem á eftir koma.

Hún hafði andstyggð á stríði og hermennsku og í minningu þess tíma í seinni heimsstyrjöldinni þegar bandarískur her reisti herbúðir og fleiri mannvirki í Hvalfirði orti hún ljóðin Morgunbæn í Hvalfirði og Í skjóli Skarðsheiðar. Mörg ljóða hennar eru í svipuðum stíl þar sem vonsku mannanna og stríðsbrölti þeirra er mótmælt. 

Hún átti létt með að yrkja um tilfinningar og samband fólks við hvert annað hvort sem var rímað eða órímað. Hún þótti hafa gott vald á íslensku máli og bregða upp einföldu myndmáli í ljóðum sínum. Nokkrar ljóðabækur komu út eftir hana og í bókinni Eitt er það land færir hún í stílinn minningar úr æsku sinni og Jörð í álögum eru nokkrar frásagnir af forfeðrum hennar sem margir bjuggu á Hvalfjarðarströndinni.  Halldóra lést 1968.                               

Ofangreint er skrifað fyrir Safnahús af dóttur Halldóru, Þóru Elfu Björnsson. Eru henni færðar bestu þakkir fyrir dýrmæta aðstoð við ýmis fræðastörf fyrir söfnin gegnum tíðina.