Þann 14. janúar 2011 voru hundrað ár liðin frá fæðingu Björns Hjartar Guðmundssonar sem smíðaði Bjössaróló. Af því tilefni var sett upp sýning í Safnahúsi í sem tileinkuð var minningu Björns, eða Bjössa eins og flestir kölluðu hann.

Björn var fæddur á Ferjubakka í Borgarhreppi en bjó í Borgarnesi frá tvítugsaldri. Hann var trésmiður og vann lengst af hjá Kaupfélagi Borgfirðinga. Hann var samviskusamur í störfum sínum og sérstaklega var nýtni hans viðbrugðið, en hann gat gert ótrúlega margt nýtilegt úr efni sem flestir aðrir hefðu hent. Meðal þess sem hann átti þátt í að bjarga frá eyðileggingu voru gömlu verslunarhúsin í Englendingavík.  Kona hans var Inga Ágústa Þorkelsdóttir (1917-1993) og eignuðust þau tvö börn, Birgi og Öldu.

Björn var barnelskur og börn hændust að honum. Árið 1979 hóf hann smíði róluvallar fyrir börn á Vesturnesi í Borgarnesi og hélt honum síðan við og endurbætti. Hann lagði áherslu á að hafa leiktækin í náttúrulegum litum og vildi að börnin gengju vel um og umgengjust náttúruna af virðingu og gætni. Meðal annars beindi hann þeim tilmælum til þeirra að þau tíndu ekki blómin heldur leyfðu þeim að vaxa. Á nokkrum stöðum setti hann upp málshætti til þess að börnin lærðu þá, gjarnan bjó hann þá stafina til úr trjágreinabútum.

Í dag annast umhverfis- og landbúnaðarfulltrúi Borgarbyggðar eftirlit og viðhald vallarins, sem kenndur er við höfund sinn og kallaður Bjössaróló. Völlurinn er orðinn mörgum landsmönnum kunnur fyrir sérstakt útlit og hönnun og er skilgreindur sem menningarminjar. Árið 2001 var afhjúpað þar upplýsingaskilti þar sem m.a. má sjá mynd af Birni og Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, þar sem hún prófar rólu á Bjössaróló.

Þegar Björn var orðinn aldraður og bjó í blokk eldri borgara við Borgarbraut 65, hóf hann smíði nýs leikvallar þar og gerði litla torfbæi sem hann dreifði um holtið. Til smíðanna byggði hann litríkan vinnuskúr úr ýmis konar efni sem til féll. Skúrinn var því miður rifinn eftir lát Björns en myndir af honum hafa varðveist og verið gefnar skjalasafninu.

Verkfærasafn Björns barst Byggðasafni Borgarfjarðar árið 2011 sem gjöf frá Ágústu Einarsdóttur, dótturdóttur hans.

 

 

 

 

 

 

 

 

Ljósmyndir: Efst er mynd af Birni við vinnu sína (Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar, ljósmyndari óþekktur)

Neðst frá vinstri: Vinnuskúr Bjössa við blokkina að Borgarbraut 65 (ljósm: Björn Sv. Björnsson), Bjössi og Inga kona hans ásamt Vigdísi Finnbogadóttur (ljósm: Theodór Þórðarson) og nokkur leiktæki á Bjössaróló (ljósm: Guðrún Jónsdóttir).