Að haustlagi árið 1881 komu nýgift hjón ríðandi austan úr sveitum yfir Kaldadal, það var stefnt á Borgarfjörðinn. Þetta voru Sigríður Pétursdóttir og Magnús Andrésson, hún 21 árs og hann 36 ára. Hann hafði lært til prests í Reykjavík og fengið sitt fyrsta brauð, Gilsbakka í Hvítársíðu. Þar komu hjónin að kirkju, bæjar- og útihúsum í bágu ásigkomulagi og byggðu staðinn upp. Í janúar 1882 brann hluti bæjarins og urðu ungu hjónin að endurnýja hann. Kirkja var byggð á árunum 1882-3 en hún fauk í desember 1907.
Í júlí 1882 eignuðust hjónin sitt fyrsta barn, Þorlák. Það ár geysuðu mislingar og Sigríður veiktist. Hún hélt þó lífi en barnið dó. Ári síðar fæddist Andrés og síðan koll af kolli, þau Sigríður yngri, Pétur, Katrín, Guðmundur (lést ársgamall), Steinunn, Guðrún, Ragnheiður og loks Sigrún, í apríl 1899.
Öll búskaparin var heimilið stórt og umfangsmikið. Algengt var að um tuttugu manns væru í heimili og mikið var um gestakomur. Í þá daga var heimilið einnig framleiðslustaður, bæði á matvælum og fatnaði auk flestra verkfæra. Kornið var malað og kaffið brennt, ullin spunnin og skórnir saumaðir. Auk þess sem vinnufólk var á heimilinu voru þar skjólstæðingar og í það minnsta tvö fósturbörn, þau Vigdís Eyjólfsdóttir og Jón Jónsson. Ýmsir aðrir áttu skjól á Gilsbakka sem griðastað eftir hrakninga um sveitir og gat slík dvöl framlengst í áratugi jafnvel.
Ný kirkja var byggð á Gilsbakka og vígð árið 1908, hún stendur enn. Prestakallið var lagt niður árið 1907 og sameinað Reykholtsprestakalli.
Árið 1909 keypti sr. Magnús jörðina og lét síðar reisa þar stórt íbúðarhús úr steini í stað torfbæjarins. Það hús stendur enn og á því er ártalið 1917. Sigríður Pétursdóttir lést árið 1917 og sr. Magnús Andrésson árið 1922. Afkomendur þeirra búa enn á Gilsbakka þegar þetta er skrifað (nóv. 2017).
Árið 2011 var sett á fót sýning um heimilið á Gilsbakka í tíð sr. Magnúsar og Sigríðar. Við opnun hennar flutti Guðrún Jónsdóttir forstöðumaður Safnahúss ávarp sem sjá má með því að smella hér.
Ljósmyndir
Mynd af bæjarhúsum efst á síðu (eftir 1882): Sigfús Eymundsson. Birt með góðfúslegu leyfi Þjóðminjasafns Íslands.
Sr. Magnús og Sigríður kona hans. P. Brynólfsson. Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar.
Mynd sem tekin er í gömlu baðstofunni á Gilsbakka. Ljósmyndari ókunnur. Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar.
Endurgerð teikning sem Guðrún Sigurðardóttir frá Gilsbakka gerði af gamla bænum eins og hann var eftir 1882, byggð á lýsingu Katrínar Magnúsdóttur (1890-1972).