7Ingveldur Hrómundsdóttir
Ingveldur Hrómundsdóttir var fædd í Skíðsholtakoti í Hraunhreppi árið 1862, dóttir hjónanna Hrómundar Péturssonar og Sigríðar Pálsdóttur sem þar bjuggu (bærinn fór í eyði 1922).  Ingveldur átti eldri systur sem hét Margrét og fór til Ameríku um þrítugt en lítið mun hafa frést af henni hér á landi eftir það.   Þær systur ólust upp við þröngan efnahag og mikla vinnu eins og þá var títt. Ekki var um menntunarmöguleika að ræða nema til undirbúnings fermingu enda heyrði það til undantekninga að stúlkur fengju aðra menntun. Ingveldur lærði hins vegar öll bústörf þeirra tíma. Það kom sér vel síðar í lífinu að hún var ætíð jafn víg á úti- sem innistörf.

Fjölskyldan í Tröð og búskapur í Landbroti
Þegar Ingveldur var 28 ára fór hún til vistar hjá Guðbirni Ó. Bjarnasyni sem hafði tekið kirkjustaðinn Kolbeinsstaði til ábúðar.  Var það álit manna að þau hefðu tekið saman með hjúskap fyrir augum, en af því varð ekki.  Um sumarið réðst til þeirra kaupakona og gerðist hún síðar húsfreyja á bænum. Um líkt leyti réðst Ingveldur að Tröð í sama hreppi. Þar bjuggu þá Sigurður Brandsson hreppstjóri og kona hans Valgerður Pálsdóttir,  sómahjón sem Ingveldur átti eftir að bindast vináttuböndum fyrir lífstíð.  Tvö börn þeirra hjóna voru heima þegar þarna var komið sögu, þau Pálína og Páll.  Pálína giftist skömmu síðar, en Páll var enn um stund í foreldrahúsum.

Árið 1899 andaðist Valgerður húsfreyja og við það varð mikil breyting á Traðarheimilinu. Árið eftir fluttist Páll að heiman.  Var þá bara Sigurður bóndi eftir ásamt fósturdóttur sinni svo ekki var lengur þörf á þjónustu Ingveldar.  En þegar þar var komið sögu hafði hún af dugnaði og ráðdeild komið sér upp talsverðum búfjárstofni og ákvað að festa sér til ábúðar smábýlið Landbrot. Þangað flutti hún árið 1905 með Sigríði móður sína og kaupamann auk fósturbarna sem nánar verður um getið síðar.

Búskapurinn gekk vel í Landbrotum þrátt fyrir að jörðin væri nytjarýr nema helst er sauðfjárbeit varðaði. Tveimur árum síðar gafst Ingveldi kostur á skiptum á jarðnæði og fékk Austurbæinn í Haukatungu til ábúðar.  Þar var þá gamall torfbær og þörf á úrbótum á húsakosti. Hófst þá Ingveldur  handa við bæjarbyggingu, að mestu leyti úr timbri.  Húsið var ein stofuhæð á upphlöðnum kjallara sem var mestmegnis neðanjarðar og ætlaður til geymslu.  Þrátt fyrir takmarkað rými skaut húsfreyja skjólshúsi yfir eldri hjón sem lengi höfðu verið á hrakhólum víða um sveitina. Reyndist hún þeim hollvinur í raunum þeirra, einnig síðar þegar maðurinn féll frá og gamla konan var orðin ein.

Á efri árum Ingveldar var hún spurð að því hvað hún hefði átt flestar ær. Sagði hún þá að hún hefði aldrei náð að fylla hundraðið, ærnar hefðu flestar orðið 99 talsins rétt um 1920. Verðfall, kreppa og mæðiveiki hefðu átt sinn þátt í að fækka fénu eftir það, en þá hefði komið sér vel að hafa kýrnar.

Guðlaugur Jónsson segir svo um Ingveldi: „…Hún getur gengið að því hvenær sem er […] að sinna um kindur sínar, kýr og hesta af fullri kunnáttu jafnhliða því að annast matargerð fyrir heimilið, þjónustubrögð, tóvinnu og vefnað innanbæjar. Hún söðlar eigin hest, ríður í kaupstaðinn í kauptíðinni og stýrir þar sínum innkaupum til búsins [….] hún gengur sjálf í fjárréttina eftir haustsmölun og tiltekur það fé sem á að láta í kaupstaðinn eða leiða til slátrunar heima.  [….] hún var góð húsmóðir og gerði vel við fólk sitt, bæði til fæðis og klæðis.“

Ingveldur tók unga stúlku í fóstur, Kristínu Kjartansdóttur sem var fædd árið 1894. Hún var dóttir Kjartans Eggertssonar og Þórdísar Jónsdóttur sem voru vinnufólk í Tröð, en varð eftir í skjóli Ingveldar þegar þau fóru þaðan árið 1902.  Kristín fylgdi henni í Landbrot ásamt fjögurra ára gömlum dreng, Sigurði Pálssyni barnabarni Sigurðar í Tröð.  Drengurinn var í um ár hjá Ingveldi og eftir það ýmist með afa sínum eða foreldrum sínum, Páli Sigurðssyni og Jóhönnu G. Björnsdóttur frá Stóra-Hrauni. Eftir 10 ára aldurinn var hann eingöngu hjá foreldrum sínum en sýndi Ingveldi mikla tryggð allt fram til dánardags og var hún sem ein af fjölskyldu hans. Sigurður gekk menntaveginn og varð prestur í Hraungerði í Flóa þar sem Ingveldur átti alltaf skjól ef á þurfti að halda.  Árið …. þurfti Kvenfélagið í sveitinni á að fá lánaða spöng á skautbúning og var leitað með þá bón til heimilis Sigurðar og Stefaníu Gissurardóttur konu hans.  Þau hjónin áttu víravirkisspöng og einnig stokkabelti og höfðu gripirnir báðir verið í eigu Ingveldar Hrómundsdóttur. Hafði hún selt þá á sínum tíma til að hjálpa Sigurði til náms.  Svo hagaði til að Páll Kolka læknir og síðar vinur Sigurðar hafði keypt gripina handa konu sinni en þegar hann vissi um uppruna þeirra létu þau hjón smíða eftirlíkingar og færðu Sigurði og Stefaníu upprunalegu gripina. Segir þessi saga sitt um hlýhug Ingveldar til Sigurðar og fórnfýsi hennar við aðra.

Þessu til viðbótar tók Ingveldur að sér ársgamla stúlku, Ásthildi Guðmundsdóttur og ól hana upp sem eigin dóttur. Guðlaugur Jónsson nefnir sem dæmi um hjartahlýju Ingveldar að ung stúlka og mikill einstæðingur Guðfinna Jónsdóttir að nafni, lenti á sveitarframfæri vegna þess að hún var vangefin og bæði heyrnar- og mállaus.  Erfitt reyndist að koma henni fyrir og flæktist hún því á milli bæja. Þegar hún kom á heimili Ingveldar leið henni vel. Hún var ekki látin fara þaðan aftur, Ingveldur hafði hana hjá sér í mörg ár eða þangað til yfir lauk.

Dóttir Kristínar og nafna Ingveldar er Ingveldur Gestsdóttir á Kaldárbakka í Kolbeinsstaðahreppi, sem fæddist þegar amma hennar var 63 ára. Svo fór að Ingveldur eldri var fljótlega kölluð Abba vegna þess að Ingveldur litla var að reyna að segja nafnið hennar en tókst ekki betur til.  Hún á fallegar minningar um Öbbu. Eitt sinn þegar Ingveldur var lítil fór Kristín mamma hennar af bæ ásamt tveimur öðrum konum. Telpuna langað með og fór að orga. Þá bauð Abba henni með sér yfir í Skjólhvamm sem er í hrauninu við bæinn. Þetta var góð samverustund. Abba var með hest, teymdi hann í hvamminn sem var langur spotti og lét barnið sitja á hestinum. Sjálf gekk hún, líka til baka, en þá fékk Ingveldur yngri að ríða hestinum sjálf. Þetta hefur líkast til verið 1931, Ingveldur yngri er fædd 1925. Ferðin í hvamminn sefaði óánægju hennar og lét henni líða vel. Hún minnist þess líka að amma hennar hafði það fyrir sið að setja niður í matjurtagarðinn á Jónamessunótt. Þá var sótt fjöl og sett niður gulrófufræ eftir beinni línu enda var Abba nákvæm og nostursöm. Ingveldur fékk að fara með og þótti það afar spennandi. Í heyskap fékk hún líka að taka þátt og á fallega minningu um slíkan dag. Þá rakaði Abba þúfnastykki, Kristín tók ofanaf fyrir mömmu sína og litla stúlkan Ingveldur fékk lítil föng til að vinna með og bera út á slétta flöt. Ingveldi er minnisstætt að bæði hjá ömmu sinni og Kristínu móður sinni hafi allt af skepnunni verið notað, t.d. lakinn, sem nýttur var soðinn fyrir hunda og ketti, enda var ekkert kattafóður til þá.  Mjólkin var strokkuð og gert smjör og mysuostur. Og alltaf var maturinn góður þrátt fyrir að vinnuaðstæður væru oft frumstæðar og bara moldargólf í eldhúsinu.

Þegar Ingveldur Hrómundsdóttir eltist lét hún Kristínu dóttur sinni og tengdasyni sínum Gesti L. Fjeldsted eftir jörðina, en lét það fylgja að Kristín skyldi skrifuð fyrir henni. Ingveldur lést í skjóli þeirra í Haukatungu árið 1954.

 

Samantekt:  Guðrún Jónsdóttir, 2015.

Helstu heimildir

Guðlaugur Jónsson. 2000. Ingveldur Hrómundsdóttir. Kolbeinsstaðahreppur, ritstj. Þorst. Jónsson, bls. 210-214.
Ingveldur Gestsdóttir, Kaldárbakka, viðtal 2015.
Munnlegar heimildir: viðtal við Ingveldi Gestsdóttur og Sigríði Guðjónsdóttur í janúar 2015.

Ljósmynd: Ingveldur (lengst til hægri) ásamt Sigurði Pálssyni og fjölskyldu hans.