Héraðsbókasafn Borgarfjarðar
Aðgangur að safninu er öllum opinn og lánþegaskírteini gildir í eitt ár í senn. Frítt er fyrir öryrkja og ellilífeyrisþega og einnig börn að átján ára aldri. Fyrir þá sem dvelja í skamman tíma í héraðinu er einnig boðið upp á skammtímaskírteini sem gildir í þrjá mánuði í senn. Lánþegahópurinn er fjölbreyttur og þarfir notenda að sama skapi ólíkar, hvort sem um er að ræða afþreyingalestur, eða lestur vegna náms eða atvinnu. Benda má á í því sambandi að nemendur fjögurra skólastiga sækja safnið heim í heimildaleit eða til lestrarörvunar. Á árinu 2015 var öllum leikskólabörnum Í Borgarbyggð færð lánþegaskírteini að gjöf. Þá færist það einnig í vöxt að þeir sem dvelja í hinum fjölmörgu sumarbústöðum í Borgarfirði nýti sér safnið og kaupi sér lánþegaskírteini. Auk hins ágæta bókarkosts má einnig finna ýmislegt annað efni, s.s tímarit, bæði ný og gömul sem oft nýtast t.d námsfólki, myndefni á DVD og VHS og tónlistardiska. Útlán á hljóðbókum eru afar vinsæl hjá öllum kynslóðum einsog undanfarin ár og reynt er að nálgast flest það efni sem gefið er út á því formi en einnig hefur safnið verið áskrifandi af hljóðbókarsíðunni Hlusta.is og útbúið diska fyrir notendur sína.
Sé eintak af bók eða öðru safngagni ekki til á safninu er oft hægt að útvega eintakið með millisafnaláni frá öðrum söfnum, greiða þarf þá örlítið gjald upp í póstkostnað. Eins lánar safnið oft bækur sínar til annarra safna sé þess óskað. Sérstakur samstarfssamningur gildir milli safnsins og Bókasafns Akraness og nægir lánþegum að eiga gillt skírteini í öðru safninu til að geta notað bæði söfnin. Þá er hægt að skila efni á hvorum staðnum sem er. Í Handbókaherbergi er aðstaða fyrir námsfólk og aðra til lestrar og vinnu og og á safninu er þægilegt leshorn þar sem má t.d. líta í nýjustu dagblöðin.
Auk þjónustuhlutverksins má nefna verkefni sem unnið hafa sér fastan árlegan sess einsog sumarlestur fyrir börn á aldrinum 6-12 ára, sagnakvöld fyrir jólin og kynningar á borgfirskum höfundum og önnur þróunarverkefni, oft í tengslum við önnur söfn í Safnahúsinu. Þá stóð safnið fyrir Ljóðasýningu fimmtu bekkja í mörg ár. Nokkuð er um heimsóknir skólahópa, stundum í tengslum við heimsóknir á sýningar sem uppi eru á þeim tíma í húsinu.
Stór hluti gagna safnsins hefur verið tengdur við Gegni, samskrá íslenskra bókasafna. Stór hluti safnkostssins er í aðalsafni og handbókaherbergi en einnig eru eintök skráð í geymlsum safnsins. Þá er einnig varðveitt töluvert safn tímarita sem ekki er skráð í Gegni.
Þá bætist við þessa tölu bókakostur hins merka bókasafns Páls Jónssonar, en sjá má upplýsingar um það merka safn hér annarsstaðar á síðunni. Á árinu 2008 var hafist handa við að skrá safnið í Gegni, en í hillum safnsins eru rúmlega 7000 titlar og margir afar fágætir. Að auki má nefna nokkur mun minni sérsöfn einstaklinga sem sum hver eru geymd á sérstökum stað.