Héraðsbókasafn Borgarfjarðar varð til vegna laga um bókasöfn og stofnsett 1956. Þar áður voru þó lestrarfélög starfandi í héraðinu og tilheyra þau einnig sögu safnamenningar á þessu sviði í Borgarfirði.
Fyrsta bókasafnið í Borgarfirði hét Hið J. Möllerska bókasafn og lestrarfélag, starfrækt af prestum, stórbændum og læknum á bilinu 1832-1882. Starfssvæði safnsins var Mýra- og Borgarfjarðarsýsla innan Skarðsheiðar, það sama og Héraðsbókasafn Borgarfjarðar tilheyrir nú.
Upp úr aldamótunum 1900 fóru að verða til bókasöfn í öllum hreppum héraðsins og einstök félög eða ungmennafélög stofnuðu til lestrarfélaga. Í Borgarnesi var Lestrarfélag Borgarness stofnað árið 1905, fyrir tilstilli Jóns Björnssonar frá Bæ. Við formennsku tók síðan Gestur Kristjánsson, verslunarmaður, en í hans tíð var safnið afhent Héraðsbókasafninu. Í dag er safnið hluti af safnaklasa í Safnahúsi sem er til húsa að Bjarnarbraut 4-6 í Borgarnesi. Aðsókn er mjög góð og ýmis sérverkefni á vegum safnsins í gegnum tíðina hafa verið verðmætt framlag til kynningar á sögu og bókmenntum tengdum héraðinu. Má þar nefna ljóðasýningar barna, sagnakvöld og sumarlestur barna.