Ungur nemandi Tónlistarskóla Borgarfjarðar, Kristján Karl Hallgrímsson frá Vatnshömrum, kom fram við hátíðlega athöfn í Alþingishúsinu 17. júní, þar sem ný hátíðarútgáfa af Íslendingasögum og þáttum var afhent. Kristján Karl flutti þar eigið lag við ljóð Sigríðar Einarsdóttur frá Munaðarnesi. Viðstödd voru m.a. frú Vigdís Finnbogadóttir og hr. Guðni Th. Jóhannesson, ráðherrar og forsætisráðherra. Var gerður afar góður rómur að lagi og flutningi Kristjáns sem er einungis 10 ára gamall. Samkoman var á vegum afmælisnefndar um 100 ára fullveldi Íslands, en Alþingi fól nefndinni að stuðla að heildarútgáfu Íslendingasagnanna á afmælisárinu.

Lagið sem Kristján Karl samdi var fyrst flutt á sameiginlegum tónleikum Safnahúss og Tónlistarskólans í vor, en þessar tvær stofnanir standa árlega að verkefninu „Að vera skáld og skapa“, þar sem nemendur skólans velja ljóð eftir borgfirskt skáld og semja lag við það undir handleiðslu kennara sinna. Þess má geta að kennari Kristjáns Karls við Tónlistarskólann er Hafsteinn Þórisson.

Það var Einar K. Guðfinnsson formaður afmælisnefndar sem kynnti unga listamanninn í Alþingishúsinu á þjóðhátíðardaginn og fórust honum m.a. svo orð:

„Segja má að öll listsköpun eigi sér rætur í einhvers konar texta. Verkefnið „Að vera skáld og skapa“ spratt af þeirri hugsun og er eitt af fjölmörgum verkefnum sem afmælisnefnd hefur stutt við á árinu.  Verkefnið er samstarfsverkefni Safnahúss Borgarfjarðar og Tónlistarskóla Borgarfjarðar. Tekið var saman úrval úr ljóðum borgfirskra skálda og nemendur kynntu sér bæði ljóð og höfunda, sóttu sér innblástur og hughrif úr ljóðunum og sömdu síðan tónlist við valið ljóð undir handleiðslu kennara sinna.  Verkin voru svo flutt á sumardaginn fyrsta í Safnahúsinu í Borgarfirði fyrir troðfullu húsi. Með okkur í dag er einn þátttakandi í verkefninu, Kristján Karl Hallgrímsson 10 ára búsettur á Vatnshömrum í Andakíl. Kristján Karl valdi sér ljóð eftir Sigríði Einars frá Munaðarnesi. Sigríður starfaði í fjölda ára sem safnvörður við Þjóðminjasafn Íslands og var virk í félagsmálum, hún var meðal annars fulltrúi á Heimsþingi kvenna í Kaupmannahöfn 1953. Sigríður gaf út fjórar ljóðabækur  og einnig lauk hún við þýðingu sambýlismanns síns, Karls Ísfeld á ljóðabálkinum Kalevala.“

Ljósmynd: Kristján Karl flytur lagið sitt á tónleikum í Safnahúsinu í Borgarnesi í vor.

Ísland, ættjörð mín frjáls

Öll þau ilmandi blóm!
þessi ástríku blóm,
þessi bláu og fallegu blóm
þetta sumar þér gaf
sínum auðæfum af,
það var ættlands míns litblómatraf.

Þetta sólgeislaregn!
Þessi fagnaðarfregn,
sem flaug öllum mótvindum gegn.
– Lítill glókollur frjáls!
Sérhver hnjúkur og háls
hljómar bergmál þíns brimhvíta máls.

Það var dagurinn sá
með sumarsins þrá,
hinn seytjándi júní var þá.
Og hann vaknaði nýr
í vorregni hlýr,
því að von þín í moldinni býr.

Ísland, ættjörð mín frjáls!
Sérhver hnjúkur og háls
hljómar töfra þíns málmskæra máls.
Þá var dagurinn þinn.
Rætist draumurinn þinn!
– En hvað dreymir þig, glókollur minn?

Sigríður Einars frá Munaðarnesi 1893-1973.  Milli lækjar og ár (1956).

 

Categories:

Tags:

Comments are closed