Safnahús fékk í vikunni úthlutað 500 þúsund króna styrk frá Akki, styrktar- og menningarsjóði VM (Félag vélstjóra og málmtæknimanna).  Verkefnið sem styrkurinn er veittur til felst í að taka saman lista yfir skáld og hagyrðinga sem verið hafa uppi á starfssvæði Safnahúss (frá Hvalfirði og að Haffjarðará á Snæfellsnesi) og heimildir eru til um.  Listinn verður síðan gerður aðgengilegur inni á heimasíðu Safnahúss.  Í framhaldinu verður settur fróðleikur og/eða myndir undir hvert nafn. Verkefnið er viðamikið, en á árinu 2016 fer fyrsti verkþáttur fram sem er að setja saman listann og koma honum fyrir á heimasíðunni.  Mikil hvatning er í stuðningi sjóðsins og eru stjórn hans færðar bestu þakkir fyrir það traust sem hann ber vott um.

Tilgangur verkefnisins er að safna saman á einn stað heimildum um bókmenntasögu Borgarfjarðarhéraðs. Slíkt yrði afar mikilvægt hvers konar fræðslustarfsemi s.s. skólum og rannsóknaraðilum. Þannig hefur verkefnið mikið samfélagslegt gildi.  Margir einstaklingar sem tilheyra þessum hópi eru lítt þekktir, en með heimildaöflun frá Héraðsskjalasafni er afar líklegt á að mögulegt verði að birta áður óbirtar heimildir, bæði skjöl og myndir.

Á Borgarfjarðarsvæðinu hefur ætíð verið rík bókmenning og eiga mörg þekkt sem óþekkt skáld uppruna sinn þar. Má þar nefna Júlíönu Jónsdóttur sem fyrst kvenna gaf út ljóðabók, Jón Helgason,  Guðmund Böðvarsson, Kristmann Guðmundsson, Stefán Jónsson og Halldóru B. Björnsson. Einnig má nefna hetjur fornsagnanna eins og Egil Skallagrímsson og Snorra Sturluson. Bókmenning hefur alltaf verið ríkur hluti af sögu íslenskrar þjóðar og ein helsta auðlind hennar.

Akkur, styrktar- og menningarsjóður VM, úthlutar árlega fjárstyrkjum til rannsóknarverkefna, brautryðjenda- og þróunarstarfa, menningarstarfsemi og listsköpunar. Markmið og verkefni sjóðsins er að styrkja m.a. að styrkja brautryðjenda- og þróunarstarf sem hefur samfélagslegt gildi svo og menningarstarfsemi og listsköpun.

 

Á meðfylgjandi ljósmynd má sjá fulltrúa Safnahúss, þau Sævar Inga Jónsson héraðsbókavörð og Guðrúnu Jónsdóttur forstöðumann, við móttöku styrksins.  Lengst til hægri er formaður sjóðsins, Ólafur Grétar Kristjánsson.

Categories:

Tags:

No responses yet

Leave a Reply