Sá mikilvægi áfangi náðist í Safnahúsi nú í maílok að lokið var við að greina, mynda og skrá steinasafn Náttúrugripasafns Borgarfjarðar auk þess sem búið var um gripina upp á nýtt og þeim komið í góðar geymslur. Þess má geta að þar með er Náttúrugripasafn Borgarfjarðar fyrsta safn sinnar tegundar sem skráir safnkost sinn í Sarp. Greiningu steinasafnsins annaðist Unnur Þorsteinsdóttir meistaranemi í jarðfræði en einnig komu Bryndís Ýr Gísladóttir og Rob Askew að verkinu. Ljósmyndun, skráning og frágangur var í höndum Halldórs Óla Gunnarssonar.  Verkefnið var stutt af Uppbyggingarsjóði Vesturlands og Safnaráði Íslands.  Stærsti hluti safnsins er steinasafn sem Þórdís Jónsdóttir, Höfn í Borgarfirði eystra gaf náttúrugripasafninu  árið 1983.  Má nú sjá safn Þórdísar á www.sarpur.is með því að smella hér.

 Fyrsta afhending Þórdísar kom árið 1978 þegar hún var á ferð í Borgarnesi og Bjarni Bachmann safnvörður ræddi við hana. Þá kom fram að hún vildi hvergi frekar vita af steinasafni  sínu en í Borgarnesi. Árið 1983 gaf hún safnið í heild sem  við andlát hennar gekk til náttúrugripasafnsins.  Þórdís var úr Mýrasýslu, fædd 8. júlí árið 1900, dóttir Kristínar Herdísar Halldórsdóttur (1868-1948) og Jóns Böðvarssonar (1856-1934) sem voru m.a. bændur á þremur bæjum í Norðurárdal, Hreðavatni, Hvammi og Brekku en bjuggu síðast í Borgarnesi.

Eftir að Þórdís fór úr föðurgarði var hún oftast í vistum sem kallað var, vinnukona á stærri heimilum. Hún fluttist ung á Borgarfjörð eystri (1934), þar var  Ragnhildur systir hennar gift fyrir. Í fyrstu var Þórdís ráðskona í Höfn hjá Magnúsi Þorsteinssyni en síðar tók hún upp samband við Þorstein son hans. Þau fluttu til Borgarness 1936 og bjuggu þar í fjögur ár þar til þau fluttust aftur austur að Höfn.  Í Borgarnesi vann Þórdís mest að saumaskap og hélt einhver saumanámskeið uppi um sveitir Borgarfjarðar.  

Hér til vinstri má sjá mynd sem Sigríður Zoëga tók af Þórdísi ungri og efst er mynd af henni áttræðri (Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar). 

Steinasöfnun hóf Þórdís fyrst á efri árum og þá einvörðungu í Hafnarfjalli og fjörum.  Margir steinasafnarar lögðu þá leið sína í Hafnarfjall og gaukuðu þá að henni steini og steini. Sumarkrakka í Höfn sendi hún líka út af örkinni í steinaleit. Þórdís var mjög gestrisin og steinasafn hennar laðaði marga að. Síðustu sjö æviár sín dvaldi hún á dvalarheimil aldraða á Egilsstöðum og á sjúkradeild að síðustu. Hún andaðist í sjúkrahúsinu á Egilsstöðum 31. desember 1992.  

Hér á eftir má sjá myndir sem Guðrún Jónsdóttir forstöðumaður Safnahúss tók á meðan á greiningu og skráningu steinasafnsins stóð. Á fyrri myndinni má sjá Halldór Óla Gunnarsson við vinnu sína og á næstu mynd eru (frá vinstri) þau Rob Askew, Unnur Þorsteinsdóttir og Bryndís Ýr Gísladóttir.                                         Samantekt: Guðrún Jónsdóttir. Helsta heimild: Magnús Þorsteinsson í Höfn 2017. 

Categories:

Tags:

Comments are closed