Síðasti dagur myndlistarsýningar Josefinu Morell er miðvikudagurinn 10. apríl og hefur hún verið afar vel sótt.  Næsta verkefni í Hallsteinssal er sýning Snjólaugar Guðmundsdóttur sem hefur fengið heitið Vefnaður, þæfing og bókverk. Sú sýning verður opnuð laugardaginn 13. apríl kl. 13.00 og verður opin til 16.00 þann dag en eftir það alla virka daga 13.00 til 18.00. Snjólaug hefur lengi fengist við handíðir og hönnun og notar margs konar hráefni, svo sem ull,  skeljar, bein o.fl.  Á sýningunni má sjá vefnað, þæfð verk og ljóð svo nokkuð sé nefnt.

Á sumardaginn fyrsta þann 25. apríl n.k., standa Tónlistarskóli Borgarfjarðar og Safnahús fyrir tónleikum þar sem nemendur skólans flytja eigin tónsmíðar við ljóð Böðvars Guðmundssonar. Um 20 lög verða frumflutt. Tónleikarnir hefjast kl. 15.00 og eru opnir öllum. Vonast er til að sem flestir líti við í Safnahúsinu þennan dag og fagni sumri með unga tónlistarfólkinu.  Þess má geta að Böðvar verður viðstaddur tónleikana.

Sýning Snjólaugar stendur til 10. maí og laugardaginn 18. maí verður opnuð ný sýning, á verkum úr safnkosti Listasafns Borgarness. Safnið er eitt fimm safna undir hatti Safnahúss og var stofnað árið 1971 utan um stórgjöf listvinarins Hallsteins Sveinssonar til Borgnesinga. Hallsteinn hafði rammað inn verk fyrir marga helstu myndlistarmenn sinnar samtíðar og átti hundruð verka.  Sýningin stendur allt sumarið eða fram til loka september. Sýningarstjórn annast Helena Guttormsdóttir myndlistarmaður og lektor við umhverfis- og skipulagsbraut Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri.  Í lokin má geta þess að 8. ágúst mun Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir flytja fyrirlestur um myndlist í Safnahúsi og er hann haldinn í tengslum við listahátíðina Plan B sem fer fram í Borgarnesi og nágrenni.

Ljósmynd með frétt: Josefina Morell á sýningu sinni. Myndataka: Guðrún Jónsdóttir.

Categories:

Tags:

Comments are closed