Sigríður Pétursdóttir Gilsbakka_2Sigríður Pétursdóttir var húsfreyja á Gilsbakka í Hvítársíðu. Hún var dóttir hjónanna Sigríðar Þorsteinsdóttur frá Reykholti og Péturs Sívertsen, sem síðar bjó í Höfn í Melasveit.

Sigríður var fædd árið 1860 í „Húsinu“ á Eyrarbakka þar sem foreldrar hennar bjuggu frá því þau giftu sig 1857.  Hún átti tvö eldri systkini, Sigríði eldri (f. 1858) og Torfa (f. 1859).  Sigríður yngri var þriðja systkinið og það yngsta. Hún missti móður sína nýfædd og við það leystist heimilið upp.  Sigríður eldri var tekin í fóstur af afa sínum og ömmu í Reykjavík (Sigurði og Guðrúnu Sívertsen) og giftist síðar til Danmerkur (Tajsen).  Torfi var tekinn í fóstur af Guðmundi Thorgrímssyni á Eyrarbakka en dó ungur.  Sigríður yngri ólst fyrir tilstilli ömmu sinnar Sigríðar Pálsdóttur upp hjá Sigríði Guðmundsdóttur á Selalæk, ekkju séra Gísla Ísleifssonar í Kálfholti.  Sú kona kom að Gilsbakka til fósturdóttur sinnar þegar hún var gift sr. Magnúsi Andréssyni og þau hjón nýflutt þangað og var þar há þeim til æviloka.

Þegar Sigríður Pétursdóttir yngri kynntist Magnúsi var hún aðstoðarstúlka í Görðum á Álftanesi hjá frú Þórunni, konu séra Þórarins Böðvarssonar. Gekk hún einnig í Kvennaskólann fyrir tilstilli Sigríðar Pálsdóttur ömmu sinnar í tvo vetur.  Þar var kennari hennar Magnús Andrésson og þar með voru örlögin ráðin. Var brúðkaup þeirra haldið í Görðum 9.  sept. 1881.  Þau fóru fyrst austur í sveitir til að heimsækja ættingja og vini, en fóru ríðandi yfir Kaldadal að Gilsbakka síðar um haustið.  Sigríður tók þar við stóru búi og var algengt að um 20 manns væru í heimili.  Eiginmaður hennar var oft löngum stundum í burtu vegna þingsetu og annarra embættisstarfa.  Alls áttu þau tíu börn á árunum 1882-1899.  Þar af dóu tveir synir í barnæsku; Þorlákur og Guðmundur.  Einnig misstu þau hjón Andrés son sinn úr berklum rúmlega þrítugan í júní 1916.  Lát hans var þeim mikið áfall. Stuttu síðar fékk Sigríður aðkenningu af slagi og náði aldrei aftur fullri heilsu. Hún lést 24. ágúst 1917 einungis 57 ára gömul.

Svo segir Þórður Kristleifsson um frú Sigríði á Gilsbakka (óbirt: Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar):

„…Frú Sigríður var svo gæfusöm að ávinna sér þegar í þessari umsvifamiklu stöðu virðingu og fullkomið trúnaðartraust vinnuhjúa sinna. Og allir, sem af henni höfðu nokkur kynni, báru til hennar hlýjan hug. Hún var mannkostakona, hafði mannbætandi, göfgandi áhrif á umhverfi sitt.

Einhver ólýsanlegur bjarmi geislaði af svipmóti frú Sigríðar á Gilsbakka, einhver eðlislægur, sannur yndisþokki, svo að öðrum varð rótt og létt í skapi í návist hennar og fóru af hennar fundi með vorlega birtu í geði.“

 

Heimildir:

Magnús Helgason. 1925. Sjera Magnús Andrjesson á Gilsbakka. Andvari 1.tbl. bls. 30.
Peter Abel Borup og Sigurdór Sigurðsson. 1994. Borgfirzkar æviskrár IX, bls. 80. Sögufélag Borgarfjarðar.
Munnlegar heimildir og yfirlestur: Ásgeir Pétursson, Ragnheiður Kristófersdóttir o.fl.

Samantekt: Guðrún Jónsdóttir.