Í manntali 1901 eru ellefu taldir til heimilis á Gilsbakka í Hvítársíðu, fyrir utan prestshjónin sr. Magnús Andrésson og Sigríði Pétursdóttur og börn þeirra. Samtals voru tuttugu og einn í heimili.  Af börnunum er Andrés elstur,  þá átján ára og Sigrún yngst, tveggja ára. Þegar þetta var bjó heimilsfólk í gömlum reisulegum torfbæ og enn má sjá móta fyrir veggjum hans við hlið húss sem byggt var á jörðinni á árunum 1914-1917.

Á meðal vinnuhjúa árið 1901 er talin kona að nafni Guðrún Sigurðardóttir, þá rúmlega fimmtug.  Hún átti sér nokkuð sérstaka sögu, var fædd á Háafelli í Hvítársíðu árið 1850, dóttir Sigurðar Guðmundssonar og Þuríðar Jónsdóttur. Guðrún missti föður sinn þegar hún var á fimmtánda ári. Skömmu síðar réði móðir hennar til sín ráðsmann, Þiðrik Þorsteinsson frá Hurðarbaki í Reykholtsdal. Þau Þuríður rugluðu saman reitum sínum árið 1867. En svo fór að Guðrún átti frá tuttugu og tveggja ára til fertugs þrjú börn sem Þiðrik stjúpfaðir hennar var faðir að, og lítið fékk hún af börnum sínum að segja. Að sögn fékk hún ekki einu sinni að ráða nöfnum þeirra, en þetta voru dætur sem voru nefndar Benónýja (f. 1872), Bóthildur (f. 1888) og Rebekka (f. 1890).

Eftir nokkra hrakninga kom Guðrún að Gilsbakka 1898 og var þar til dánardags 1943. Þar leið henni vel og þar lærði hún m.a. fyrst að prjóna. Síðustu ár sín var hún rúmliggjandi vegna heilsubrests. Hún er sögð alltaf hafa farið fram á að fá fjóra sykurmola með kaffinu, tvo fyrir sig og tvo sem hún stakk í box sem hún átti og gat gaukað að börnum úr. Það helsta sem hún prjónaði voru leppar og eru einir slíkir eftir hana í vörslu Byggðasafns Borgarfjarðar. Guðrún var stálminnug og kunni að sögn utan að nær allar ættartölur í Sýslumannsaæfum.

Magnús Sigurðsson á Gilsbakka (1924-2009) mundi Guðrúnu vel: „Vera má að sálargáfur hennar hafi verið nokkuð einhæfar, enda tækifærin fábreytt, sem buðust til þroska á því sviði.  Enginn efi er að hún bjó í ríkum mæli yfir bókhneigð og fræðalöngun, eins og margir ættmenn hennar. Hún varð snemma læs… og minni hennar á það, sem vakti áhuga hennar, var bæði trútt og lifandi. … hún kunni margt af sögum og ævintýrum, og án efa hefur hún haft margt af þeim úr bókum, fyrst og fremst Þjóðsögum Jóns Árnasonar, en þó held ég að þar hafi slæðst með sögur, sem ég hef a.m.k. aldrei rekist á í bókum. Ég trúi því að hún hafi sótt þær beint í uppsprettuna, munnlega geymd í þjóðdjúpinu sjálfu.“

Samantekt og uppsetning: Guðrún Jónsdóttir, 2021.      

Ljósmynd 1: eina myndin sem til er af Guðrúnu Sigurðardóttur. Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar. 
Ljósmynd 2: í baðstofunni í gamla bænum á Gilsbakka. Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar.  

Helstu heimildir:
Magnús Sigurðsson. 1994. Bréf til nafna míns í Stóraási . Óprentuð heimild.
Þuríður J. Kristjánsdóttir og Sveinbjörg Guðmundsdóttir. 2003. Borgfirzkar æviskrár 12. bindi, bls. 127.
Aðalsteinn  Halldórsson o.fl. 1975. Borgfirzkar æviskrár IV. bindi, bls. 49.
Munnlegar heimildir og yfirlestur:  Ásgeir Pétursson og Ragnheiður Kristófersdóttir.