Selma Jónsdóttir listfræðingur var merkur brautryðjandi á íslensku listasviði á 20. öld. Hún var fyrst kvenna til að ljúka doktorsprófi við íslenskan háskóla og var forstöðumaður Listasafns Íslands fyrstu 30 ár starfstíma þess. Selma var fædd og uppalin í Kaupangi í Borgarnesi og átti alltaf sterk tengsl við Borgarfjörð.

Uppruni og fjölskylda
Selma fæddist 22. ágúst 1917, yngst barna kaupmannshjónanna Helgu Maríu Björnsdóttur og Jóns Björnssonar. Foreldrar hennar voru bæði mikilhæf og virtar manneskjur, hvort á sínu sviði. Helga María var frá Svarfhóli í Stafholtstungum og Jón var ættaður frá Húsafelli í Hálsasveit en kenndi sig ávallt við Bæ í Bæjarsveit þar sem hann ólst upp.

Selma ólst upp við gott atlæti, stóran frændgarð í uppsveitum Borgarfjarðar og glaðværð á æskustöðvunum í Borgarnesi. Það varð henni gott veganesti að vera alin upp á menningarheimili þar sem gestagangur var mikill. Heimili kaupmannshjónanna var í þjóðbraut og opið fjölmörgum góðum vinum sem þar áttu leið um.

Mynd: Selma var yngst í fjögurra systkina hópi og listrænir hæfileikar einkenndu þau öll. Á myndinni sjást þau ásamt foreldrunum sínum. Frá v. var elstur Björn Franklín (f. 1908), þar næst Guðrún Laufey (Blaka, f. 1910), þá Selma og næstyngstur (lengst til hægri) var Halldór Haukur Jónsson arkitekt (f. 1912).

Kaupangur er elsta húsið í Borgarnesi, byggt um 1880. Þangað fluttu Jón og Helga María árið 1907 og bjuggu þar í nærfellt fjörutíu ár. Á upphafsárum búskapar þeirra hjóna var það eitt örfárra íbúðarhúsa á staðnum og mæddi mikið á heimilinu vegna gestamóttöku. Húsið stendur við höfnina og var ekki að sökum að spyrja því þá ferðuðust flestir sjóðleiðis upp í Borgarnes.  Í dag hefur húsið verið gert upp og er nýtt í ferðaþjónustu.

Selma giftist árið 1955 Dr Sigurði Péturssyni, gerlafræðingi, sem síðar varð forstöðumaður gerlarannsóknarstofu Fiskifélags Íslands. Þau voru barnlaus.

Menntun
Selma fór ung að heiman til náms og lærði m.a. stund á þýsku og þýskar bókmenntir í Hamborg og Heidelberg. Árið 1941 lá leiðin til Bandaríkjanna þar sem hún lagði stund á listasögu. Auk þess las hún heimspeki, mannfræði o.fl. og lauk B.A. prófi í listasögu við Columbia háskólann í New York.

Einnig fór Selma til Englands þar sem hún stundaði masternám við Warburg Institute í London. Þar kynntist hún miðaldalist og heillaðist af henni. Árið 1949 lauk hún síðan M.A. prófi í listasögu frá Columbia háskólanum. Var hún fyrst Íslendinga til að ljúka háskólaprófi í listfræði og starfa við fræðigrein sína hérlendis. Doktorsritgerð sína Býzönsk dómsdagsmynd í Flatatungu (útg. 1959) varði hún við Háskóla Íslands í janúar 1960 og varð fyrst íslenskra kvenna doktor þaðan.

Hlutverk í sögu Listasafns Íslands
Árið 1950 var Selma ráðin að Listasafni Íslands, sem þá var til húsa í byggingu Þjóðminjasafnsins við Suðurgötu. Var hún skipuð fyrsti forstöðumaður safnsins  árið 1961.

Selma byggði upp starfsemi Listasafnsins með miklum metnaði, lagði línurnar um varðveislu verka, innkaup á samtímalist og uppsetningu á vönduðum yfirlitssýningum þar sem helstu listamenn þjóðarinnar voru kynntir. Auk þeirrar þekkingar á miðaldalist sem hún hafði öðlast hafði hún einnig einlægan áhuga á nútímalist, erlendri sem innlendri og átti margt góðra vina meðal fremstu listamanna Íslands.

Selma var félagslynd, hafði sterka útgeislun og fór létt með að eignast góða vini og trausta samstarfsmenn. Hugurinn snerist um kynningu á íslenskri myndlist og að vegur Listasafns Íslands yrði sem mestur. Til að ná fram markmiðum sínum þurfti hún oftar en ekki að beita eðlislægri útgeislun og hyggindum. Hún var jafnaðarlega létt og kát og hrókur alls fagnaðar meðal góðra vina.  

Meðfram starfi við Listasafnið vann Selma stöðugt að rannsóknum á íslenskri miðaldalist. 

Framtíðarsýn
Selmu dreymdi stóra drauma um framtíð Listasafns Íslands, sá fyrir sér sjálfstæða safnbyggingu og vildi veg safnsins sem mestan. Hún fylgdi áhuga sínum fast eftir og tók að lokum af skarið með tillögu um staðsetningu í miðborg Reykjavíkur. Hún var hugmyndasmiðurinn og driffjöðurin á bak við þá aðgerð þegar ríkissjóður hafði makaskipti við þáverandi eigendur brunarústa að Fríkirkjuvegi 7 til þess að við Tjörnina í Reykjavík yrði framtíðar aðsetur safnsins.  Selma náði að sjá draum sinn verða að veruleika við Fríkirkjuveginn. Hún sá hylla undir lok verksins þótt ekki entist henni aldur til að taka þátt í vígslu nýju heimkynna safnsins 30. janúar 1988.
Selma lést í Reykjavík 5. júlí 1987.  

Byggt á samantekt undirritaðra sem gerð var í júlí og ágúst 2017

Garðar Halldórsson
Guðrún Jónsdóttir

Ljósmyndir: Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar og fjölskylda Selmu. Mynd efst á síðu: Kaldal.

Eftirtaldir aðilar minnast Dr Selmu í samstarfi á afmælisárinu:

Kvennasögusafn Íslands                    www.kvennasogusafn.is
Landsbókasafn-Háskólabókasafn    www.landsbokasafn.is
Listasafn Íslands                                  www.listasafn.is
Listfræðafélag Íslands                        www.listfraedi.is
Safnahús Borgarfjarðar                      www.safnahus.is
Þjóðminjasafn Íslands                        www.thjodminjasafn.is