Í Safnahúsi eru alls fimm söfn og sinnir hvert þeirra sínu hlutverki (sjá nánar undir söfnin hér efst á síðunni). Þar á meðal er Héraðsbókasafn og Héraðsskjalasafn. Borgfirsku söfnin hafa alltaf lotið einni yfirstjórn og verið í sama húsnæði. Eykur það mjög fjölbreytni í sýningarstarfi og samþættingu. Árið 2007 setti Borgarbyggð sér stefnu í menningarmálum þar sem kveðið var á um víðtækt hlutverk stofnunarinnar. Er stefnan endurskoðuð árlega. Samkvæmt þeirri sýn er í dag öflug menningarmiðstöð í Safnahúsi sem þjónar svæðinu allt frá Hvalfirði og vestur á Snæfellsnes. Héraðsbókasafnið er mikið sótt jafnframt því að gestir sæki húsið heim til að njóta hvers kyns menningar eða að skila inn gögnum og munum. Tengslanet Safnahúss við samfélagið er afar virkt og skiptir miklu máli fyrir starfsemina. Einnig skapar húsið mikilvæga afþreyingu fyrir ferðamenn og er þekkingarsetur fyrir skólahópa.

Ljósmynd: (frá vinstri) Gestur Friðjónsson og Ingibjörg dóttir hans færa Jóhönnu Skúladóttur héraðsskjalaverði góða gripi og gögn vegna minningar Ingibjargar Friðgeirsdóttur á Hofsstöðum á Mýrum, móður Gests. Ingibjörg var ein kvennanna sem minnst var á sýningunni Gleym þeim ei sem sett var upp í Safnahúsi vorið 2015 í tilefni af 100 ára kosningaafmæli íslenskra kvenna.

Myndataka: Guðrún Jónsdóttir.