Sögufélag Borgarfjarðar

Sögufélag Borgarfjarðar var stofnað 7. desember 1963 á fundi í Borgarnesi. Töluverð umræða hafði verið um nauðsyn þess að Borgfirðingar sköpuðu vettvang þar sem borgfirskum fróðleik af ýmsum toga væri haldið til haga. Á stofnfundinn mættu þrjátíu og þrír aðilar og gengið var frá samþykktum félagsins. Þar kemur fram að megin tilgangur félagsins sé að setja saman æviskrár fólks sem átt hefur heima í Borgarfjarðarhéraði, rita sögu borgfirskra býla og skrá og varðveita einstaka þætti úr borgfirskri menningar- og avinnusögu. Á stofnfundinum var einnig kjörin fjögurra manna stjórn fyrir félagið en fimmti stjórnarmaðurinn skyldi koma frá Borgfirðingafélaginu í Reykjavík. Þeir sem kjörnir voru í stjórn:

    Bjarni Valtýr Guðjónsson á Svarfhóli í Hraunhreppi,
    Daníel Brandsson á Fróðastöðum í Hvítársíðu,
    Ingimundur Ásgeirsson á Hæli í Flókadal,
    Valdimar Indriðason á Akranesi.

Árið 1977 fór Ingimundur úr stjórninni en Sigurður B. Guðbrandsson í Borgarnesi kom í stað hans. Næsta breyting varð 1985 en þá tók Snorri Þorsteinsson frá Hvassafelli í Norðurárdal en þá búsettur í Borgarnesi við af Daníel. Ekki kemur fram í gögnum Sögufélagsins hver var í stjórninni frá Borgfirðingafélaginu. Ekki liggur alveg ljóst fyrir hvernig stjórnin breyttist eftir þetta. Núverandi stjórn skipa: Guðmundur Þór Brynjúlfsson frá Brúarlandi – býr í Borgarnesi, Ingibjörg Daníelsdóttir á Fróðastöðum í Hvítársíðu og Sævar Ingi Jónsson á Ásfelli í Innri Akraneshreppi.

Fyrstu verkefni félagsins voru að vinna að skráningu og útgáfu æviskráa en um árabil höfðu áhugamenn unnið að því í tómstundum sínum. Í upphafi lá fyrir að þetta yrði tímafrekt verk og áætlað var að útgáfa hæfist ekki fyrr en eftir 4-5 ár. Ákveðið var að ráða þrjá menn til verksins. Það voru Aðalsteinn Halldórsson frá Litlu-Skógum, Ari Gíslason frá Syðstu-Fossum og Guðmundur Illugason frá Skógum en þeir höfðu allir um árabil safnað upplýsingum um Borgfirðinga, bæði lifandi og látna. Fyrsta bókin í Borgfirzkum æviskrám kom út 1969 en sú síðasta árið 2007 og voru bækurnar þá orðnar 13. Æviskrár Akurnesinga, fjögur bindi, komu út samhliða BÆ. Fyrstu 10 árin komu út sex fyrstu bindin. Höfundunum þremur entist ekki aldur til að klára verkið og árið 1997 bætast í höfundahópinn þær Kristín og Sveinbjörg, dætur Guðmundar Illugasonar og Þuríður J. Kristjánsdóttir frá Steinum. Eftir útgáfu síðasta bindis hefur verið unnið að söfnun leiðréttinga og viðbóta.

Meðan undirbúningur að útgáfu fyrstu æviskránna stóð yfir var ráðist í að gefa út íbúatal yfir Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, þar með talið Akranes. Hið fyrsta var byggt á upplýsingum frá 1. desember 1964. Síðar voru íbúatöl gefin út á fimm eða sex ára fresti. Hið síðasta byggt á þjóðskrá árið 2011. Lengi vel seldust íbúatölin mjög vel og voru tekjur af þeim notaðar til að fjármagna útgáfu æviskránna, ásamt myndarlegum framlögum frá hreppum Mýra- og Borgarfjarðarsýslu. Sala á æviskránum gekk einnig vel en ekki þótti fært að miða verð þeirra við kostnaðarverð, því mikil vinna lá að baki sem greitt var fyrir en þó var sjálfboðavinna afar mikil og unnin af fjölda aðila.

Á aðalfundi félagsins í desember 1979 var samþykkt að Sögufélagið stæði fyrir útgáfu ársrits þar sem ætti að „flytja annála úr byggðum Borgarfjarðar, fréttir frá félögum og félagasamtökum í héraðinu, frásagnir af atvinnulífi, félags- og menningarlífi, merkum atburðum o.fl.“ skrifar Bjarni Valtýr Guðjónsson í fyrsta hefti Borgfirðingabókar sem kom út 1981. Enn í dag 40 árum síðar kemur Borgfirðingabók út árlega en þó varð nokkurt hlé eftir fyrstu þrjú ritin. Efnisval hefur breyst að nokkru leyti. Ekki er um árlegt yfirlit frá sveitarfélögum og félagasamtökum að ræða heldur koma greinar frá þeim á nokkurra ára fresti. Hins vegar hefur eldri fróðleikur um líf og störf fólks ásamt nútímafrásögnum fengið aukið vægi.

Hægt er að nálgast greinarbetri upplýsingar um tilurð, stofnun og starf félagsins m.a. í  formála Guðmundar Böðvarssonar í Borgfirzkum æviskrám I. bindi og í greinum Bjarna Valtýs Guðjónssonar og Jóns Einarssonar í Borgfirðingabók 1981.

Höfundur greinar: Ingibjörg Daníelsdóttir, Fróðastöðum, Hvítársíðu.
Gert fyrir Safnahús Borgarfjarðar í febrúar 2021.

Mynd 1
Fyrir nokkru hannaði Aðalsteinn Svanur Sigfússon merki og gaf Sögufélaginu. Aðalsteinn  hefur lengi unnið fyrir félagið við umbrot Borgfirðingabóka.

Mynd 2
Lengi vel var kápumynd Borgfirzkra æviskráa eins konar merki (logo) félagsins. Ragnar Lár gerði myndina og ef vel er að gáð þá er R.´69 falið í grasinu. Aftan á kápunni eru einnig myndir eftir hann frá ýmsum stöðum Borgarfjarðarhéraðs.