Safnahúsið

Safnahús Borgarfjarðar er safnaklasi fimm safna þar sem nýjar aðferðir eru nýttar til miðlunar á grundvelli frumkvæðis, virkni og samvinnu. Söfnin eru þessi:
Héraðsbókasafn Borgarfjarðar
Héraðsskjalasafn  Borgarfjarðar
Byggðasafn Borgarfjarðar
Listasafn Borgarness
Náttúrugripasafn Borgarfjarðar

Stofnunin er staðsett í Borgarnesi. Hún er í eigu Borgarbyggðar en þjónar einnig Skorradalshreppi og Hvalfjarðarsveit með þjónustusamningum.  Starfssvæði hússins nær því allt frá rótum Snæfellsness suður til Hvalfjarðar.

Starfsemin er til húsa að Bjarnarbraut 4-6 auk þess sem munageymslur eru á Sólbakka og í Brákarey. Húsið á Bjarnarbrautinni hýsti áður starfsemi Prjónastofu Borgarness sem var stofnuð 1970 og starfaði langt fram á 9. áratug síðustu aldar.  Húsið var byggt undir starfsami fyrirtækisins og er því að stofni til iðnaðarhúsnæði. Safnahús fékk hluta hússins til afnota árið 1987, efri hæðina og risið. Í dag er allt húsið nýtt undir safnastarfið. Byggingin er hönnuð af arkitektunum Geirharði Þorsteinssyni og Hróbjarti Hróbjartssyni.  Um steinhús er a ræða og var það klætt utan með Ímúr árið 1994.  Einnig varð sú breyting árið 1999 að aðalinngangur hússins var stækkaður og lyftu komið fyrir til að bæta aðgengi að söfnunum.

Safnahús er leitandi og opið í starfi sínu og vinnur náið með samfélaginu á starfssvæði sínu sem nær frá rótum Snæfellsness til Hvalfjarðar.

Auk fjölda skammtímasýninga eru tvær grunnsýningar í húsinu, Börn í 100 ár og Ævintýri fuglanna. Þær draga þúsundir gesta að árlega og eru hannaðar með það í huga að nýtast í safnkennslu. 

Hópamóttaka á sýningar
Almennir  hópar
Skólahópar