Magnús var Þingmaður, prestur og prófastur á Gilsbakka í Hvítársíðu og gegndi fjölmörgum öðrum ábyrgðarstörfum fyrir samfélag sitt. Hann var fæddur í Núpstúni í Hrunamannahreppi 30. júní 1845, sonur Andrésar Magnússonar (1818 -1857) og Katrínar Eyjólfsdóttur (1820-1911),  síðar í Syðra-Langholti.

Magnús var elstur systkina sinna. Hann missti föður sinn 12 ára gamall og fluttist ári síðar að Urriðafossi í Flóa með móður sinni sem giftist Einari Einarssyni bónda þar.

Magnús þótti efnisdrengur og fékk við fermingu vitnisburðinn „prýðilega í öllu.“ Hann fór ungur til vetrarvertíða á Vatnsleysuströnd, þar sem hann kynntist Guðmundi Ívarssyni formanni sem síðar varð mágur hans og velgjörðarmaður.  Guðmundur kenndi Magnúsi sjó sem kallað var, en Magnús kenndi honum skrift og reikning.  Þarna kom fyrst í ljós hæfileiki Magnúsar til að fræða aðra, en það átti eftir að verða honum ástríða síðar á ævinni. Guðmundur stuðlaði að því að Magnús færi í nám hjá séra Helga Hálfdánarsyni, þá presti á Álftanesi haustið 1866 þá rúmlega tvítugur.  Hann tók síðan próf í Lærða skólann vorið 1867 og hóf þar nám um haustið. Að sumrinu fór hann til kaupavinnu norður að Grenjaðarstað til séra Magnúsar Jónssonar sem þekktur var um allt land fyrir smáskammtalækningar (homopathiu.) Ungi maðurinn lærði af nafna sínum og átti síðar eftir að verða nafnkunnur fyrir slíkar lækningar.

Magnús átti við veikindi að stríða á þriðja vetri sínum í skólanum og lauk því ekki prófi fyrr en 1875, þegar hann var um þrítugt. Guðfræðipróf tók hann frá Prestaskólanum tveimur árum síðar. Hann var fylgdarmaður Kr. Kålunds á ferðum hans um Ísland sumrin 1873 og 1874. Árin 1877-1881 var hann biskupsskrifari í Reykjavík og stundaði jafnframt kennslu.

Árið 1881 giftist hann mætri konu, Sigríði Pétursdóttur (1860-1917) og fékk Gilsbakka í Hvítársíðu 17. júní sama ár. Alls eignuðust þau hjón tíu mannvænleg og hæfileikarík börn og komust átta þeirra til fullorðinsára. Hér eru þau tilgreind:

Þorlákur (1882-1882)
Andrés (1883-1916)
Sigríður (1885-1980)
Pétur (1888-1948)
Katrín (1890-1972)
Guðmundur (1891-1892)
Steinunn Sigríður (1894-1976)
Guðrún (1896-1943)
Ragnheiður (1897-1981)
Sigrún (1899-1989).

11.08.11 (1)

 

 

 

 

 

 

 

Sigríður og Magnús bjuggu á Gilsbakka til æviloka og þar búa afkomendur þeirra og tengdafólk enn.

Þegar þau fluttu þangað var Gilsbakki talinn með rýrari brauðum landsins, en bújörðin góð. Margt þurfti að gera á staðnum og voru bæði bæjarhús og kirkja léleg.  Í janúar 1882 brann hluti bæjarins og urðu ungu hjónin að endurnýja hann.  Kirkja var einnig byggð á árunum 1882-3 en hún fauk í óveðri 15. desember 1907.  Svo sagði þá í Norðra:

„Kirkjan á Gilsbakka fauk í ofviðri og brotnaði … Hún var nýlega bygð og í stór skuld við síra Magnús Andrésson, er hafði látið gera hana.“

Ný kirkja var þá byggð og vígð ári síðar.  Prestakallið var lagt niður árið 1907 og sameinað Reykholtsprestakalli. Árið 1909 keypti sr. Magnús jörðina og lét síðar reisa þar stórt íbúðarhús úr steini í stað torfbæjarins.  Það hús stendur enn og á því er ártalið 1917.

Árið 2011 var sett upp ítarleg heimildasýning um sr. Magnús í Safnahúsi, en skömmu áður höfðu ættingjar hans gefið talsvert magn muna og skjala úr hans eigu til Safnahúss. Magnús var einstakur embættismaður er vönduð vinnubrögð snerti og skrifaði afar góða rithönd.  Hluti af ræðusafni hans fylgdi gjöfinni og eru þær varðveittar í rauðum kistli sem þær voru ævinlega geymdar í á meðan hann lifði.

 

Helstu heimildir:
Magnús Helgason. 1925. Sjera Magnús Andrjesson á Gilsbakka. Andvari 1.tbl. bls. 30.
www.althingi.is. Skoðað 18. jan. 2011.
Björk Ingimundardóttir, Sigríður B. Jónsdóttir ofl. 2009. Gilsbakkakirkja. Kirkjur Íslands 13. bindi, bls. 91-124.
Magnús Helgason. 1925. Sjera Magnús Andrjesson á Gilsbakka. Andvari 1.tbl. bls. 30.
www.althingi.is. Skoðað 18. janúar 2011.
Óþekktur höf.: Norðri. 21. janúar 1908. Frétt á bls. 11.

Munnlegar heimildir og yfirlestur: Ásgeir Pétursson, Ragnheiður Kristófersdóttir o.fl.

Samantekt: Guðrún Jónsdóttir.