Jóhanna Jóhannsdóttir var fædd í Skógum á Fellsströnd í Dölum 13. febrúar 1910, ein níu systkina. Foreldrar hennar voru hjónin Jóhann Jónasson og Margrét Júlíana Sigmundsdóttir (1876-1968). Jóhanna stundaði í tvö ár nám í húsmóðurfræðum á Hallormsstað og lauk námi frá Ljósmæðraskóla Íslands árið 1940. Eftir að hafa verið eitt ár ljósmóðir í Vatnsdal í Húnavatnssýslu starfaði hún í ljósmóðurumdæmi Borgarness óslitið í tæp 40 ár,  frá 1942 til 1980. Þá var umdæmi hennar þrír hreppar, Borgarhreppur, Álftaneshreppur og Hraunhreppur.

 

Erfiðleikar
Helsta heimild um veru Jóhönnu í Borgarnesi er frásögn Solveigar systur hennar sem segir að ýmsir erfiðleikar hafi verið á vegi hennar. Nefna má að erfitt var að fá gott húsnæði í Borgarnesi á þessum tíma. Um tíma leigði hún lítið forstofuherbergi sem var ansi kalt. Var það bagalegt því oft kom hún köld og hrakin heim úr vinnu. Lengst af leigði Jóhanna litla kjallaraíbúð á Skallagrímsgötu 5 og þar gátu konur dvalið hjá henni fram yfir fæðingu ef á þurfti að halda. Ljósmóðurstarfið var ekki fullt starf og því hefði Jóhanna gjarnan viljað vinna önnur störf með til að afla tekna. Það var hins vegar ekki auðvelt um vik því fáir vildu hafa fólk í vinnu sem sí og æ þyrfti að fara frá til að sinna skyldustörfum. Oftast fór Jóhanna ferða sinna með mjólkurbílnum og gat þá þurft að bíða úti á vegum í langan tíma hvernig sem viðraði. Hafa ber í huga að í þá daga var góður skjólfatnaður af skornum skammti. En Jóhanna lét ekki deigan síga og tók bílpróf árið 1949, þá tæplega fertug. Eftir það fékk hún af og til lánaðan bíl til að fara til sængurkvenna, en árið 1951 fékk hún undanþágu á skömmtunarárunum til að kaupa sér bíl.  Var það Willis árg. 1951, ljósgrár að lit. Var sett á hann ný yfirbygging og þennan bíl átti Jóhanna alveg þar til hún hætti ljósmæðrastörfum árið 1980 eða í tæp þrjátíu ár.  Bíllinn er nú (2021) í eigu Kristjáns Björnssonar frá Þverfelli í Lundarreykjadal og var þar áður í eigu Arnar Símonarsonar. Hefur ökutækið varðveist vel og prýðir sýninguna Börn í 100 ár í Safnahúsi.

Saga um Jóhönnu
Árið 2014 kom gestur á sýninguna sem þekkti til Jóhönnu. Var það Jón Magnús Guðnason (f. 14.7.1936, d. 31.12.2018) frá Árbakka í Andakíl. Rifjaði hann við það tækifæri upp í samtali við sýningarvörð að eitt sinn hafði Jóhanna verið á leið að Árbakka á jeppanum í erfiðri færð og mikilli hálku og fest hann góðan spöl frá bænum. Þá greip hún töskuna sína og hélt áfram fótgangandi.  Þegar hún kom að Árbakka bað hún tiltæka menn um að sækja fyrir sig bílinn og Jón Magnús var einn þeirra sem fór.  Hann sagði að þetta væri gott dæmi um skapfestu og einurð Jóhönnu að halda áfram fótgangandi við svona aðstæður þegar hennar var þörf.

Síðustu ár kjarkaðrar konu
Jóhanna var mörgum minnisstæð enda sterkur persónuleiki. Árið 1976 hélt hún upp á 25 ára afmæli bílsins með því að aka honum hringveginn. Hún var góður bílstjóri og fékk tvívegis viðurkenningu frá Samvinnutryggingum fyrir öruggan akstur.

Jóhanna giftist ekki og átti ekki afkomendur. Árið 1952 hóf hún sambúð með Benedikt Sveinssyni sem þá var skrifstofumaður hjá Kaupfélagi Borgfirðinga.  Hann lést árið 1967. Jóhanna bjó í Borgarnesi fram til 1980 að hún flutti til Reykjavíkur. Hún var farin á heilsu síðustu ári ævi sinnar og lést í Reykjavík 29. apríl 2007, þá 97 ára gömul.

Ljósubókin
Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar hefur um 12 ára skeið safnað eiginhandaráritunum ljósubarna Jóhönnu í sérstaka bók sem er verðugur minnisvarði um ævistarf hennar sem ljósmóður.

Helstu heimildir:
Ingibjörg Jónasdóttir. 2020. Munnleg heimild.
Jón Guðnason. 1961. Dalamenn, æviskrár II, bls. 127.
Grétar Sæmundsson o.fl. 2007. Minningargrein um Jóhönnu. Morgunblaðið 27. maí, bls. 65.
Solveig Jóhannsdóttir: Um veru Jóhönnu Jóhannsdóttur í Borgarnesi. Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar.

Samantekt: Guðrún Jónsdóttir, apríl 2021.
Ljósmyndir:  Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar.