Helga erlendisHelga María Björnsdóttir var fædd 1. apríl 1880. Hún ólst upp á Svarfhóli í Stafholtstungum, ein 12 systkina. Faðir hennar hét Björn Ásmundsson og var frá Laxfossi í Norðurárdal, mikill dugnaðar- og framkvæmdamaður, hreppstjóri í 30 ár og oddviti í mörg ár. Móðir Helgu hét Þuríður Jónsdóttir og var frá Svarfhóli. Hún var ljósmóðir, gáfuð og hagmælt kona.

Helga stundaði nám í Hússtjórnarskólanum í Reykjavík og síðar í Mjólkurskólanum á Hvanneyri þar sem hún var hæst námsmeyja. Hún veitti ýmsum rjómabúum forstöðu, þ.á.m. rjómabúi barónsins á Hvítárvöllum og segir sjálf svo frá í skráningu Blöku dóttur sinnar:

Þegar ég var í Bakkakoti hjá Jóhanni bróður mínum [bóndi þar 1894-1905] kom hann dag einn heim frá Hvítárvöllum, hann var góðvinur barónsins. Ég man ég sat í stiganum þegar hann kom með kveðju frá baróninum með ósk um að ég yrði rjómabústýra hjá honum.“

Árið 1904 kom Helga í Borgarnes, en þar voru þá 63 íbúar. Hún var fyrst heimilisstýra hjá Jóni bróður sínum sem var að flytja í nýtt hús. Þau Jón frá Bæ giftu sig síðan 1906 og árið 1907 fluttu þau í Kaupang, elsta húsið í Borgarnesi. Húsið stendur enn en var var þá í þjóðbraut við höfnina og verslunin var í næsta húsi (nú Landnámssetur). Mikið var því um gestakomur og oft margir í gistingu dögunum saman á meðan beðið var eftir næsta skipi.

Helga var þekkt fyrir gestrisni sína, gjafmildi og rausn. Hún var vel lesin og fróð og sagði skemmtilega frá. Hún hafði ljúft viðmót og skipti aldrei skapi þrátt fyrir mikið álag oft á tíðum. Börn hennar og Jóns fæddust árin 1908, 1910, 1912 og 1917. Þau ólust upp í Borgarnesi en fóru síðar öll til náms og starfa annars staðar. Hjónin fluttu að lokum suður sjálf 1946.

Þegar Helga María var tæplega níræð missti hún heilsuna. Blaka dóttir hennar flutti þá til hennar og annaðist hana af natni og hlýju í þrjú ár, en Helga lést þann 16. ágúst 1972.

 

Heimildir:

Aðalsteinn Halldórsson o.fl. 1969. Borgfirzkar æviskrár I. bindi, bls. 397-8 Sögufélag Borgarfjarðar.
Aðalsteinn Halldórsson o.fl. 1978. Borgfirzkar æviskrár V. bindi, bls. 305. Sögufélag Borgarfjarðar.
Guðrún L. Jónsdóttir (Blaka). 1959. Helga í Borgarnesi. óprentuð heimild. Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar.
E.f. 1913. Björn Ásmundsson. Óðinn, 9. árg. 1. tbl. Bls. 8.
Jósef Björnsson frá Svarfhóli. 1954. Æskustöðvar. ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík.

 

Samantekt: Guðrún Jónsdóttir. Ljósmynd: Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar. Líklegt má telja að Blaka dóttir Helgu hafi tekið myndina.