6. GunnaGuðrún var fædd í Síðumúla í Hvítársíðu 26. ágúst 1861, dóttir Jóns Þorvaldssonar frá Stóra Kroppi og Helgu Jónsdóttur frá Deildartungu. Jón og Helga voru bræðrabörn. Þau voru fyrst búsett í Bæ í Bæjarsveit, þá í Síðumúla (1859-1868) og loks á Úlfsstöðum í Hálsasveit fram að því að Jón lést árið 1872. Þau áttu tíu börn, þar af þrjár Guðrúnar. Þegar fjölskyldan flutti frá Síðumúla að Úlfsstöðum segir sagan að það hafi verið gert fyrir tilstilli hreppsyfirvalda, sem óttuðust að svona barnmörg fjölskylda yrði sveitföst í Síðunni. Börnin voru þá sex á lífi, þrjú voru látin og það yngsta fæddist í ágúst árið 1872.

Guðrún kom sem vinnukona að Húsafelli um 1880, til hjónanna Þorsteins Magnússonar og Ástríðar Þorsteinsdóttur. Hún og Ástríður voru systradætur. Nokkru eftir að Guðrún kom að Húsafelli fór Helga móðir hennar til Ameríku ásamt seinni manni sínum. Guðrúnu bauðst að fara með en afþakkaði og dvaldi áfram á Húsafelli. Tveir bræðra hennar voru þá þegar farnir vestur.

Störf Guðrúnar á Húsafelli voru flest innanhúss. Hún eldaði, þvoði, spann og prjónaði og ól upp fósturbörn sem henni voru falin. Eitt þeirra var Sigurður Snorrason, síðar bóndi á Gilsbakka í Hvítársíðu, en hann var Guðrúnu ætíð mjög kær.

Guðrún var afar nærsýn og hvessti stundum augun á gesti til að sjá þá betur. Enginn gerði sér grein fyrir nærsýninni fyrr en hún var orðin gömul og las gleraugnalaust. Á árum hennar á Húsafelli komu þangað ýmsir merkir listamenn s.s. Ásgrímur Jónsson, Júlíana Sveinsdóttir, Kristmann Guðmundsson og Guðmundur Thorsteinsson (Muggur). Þetta urðu góðir vinir Guðrúnar. Einn mesti dýrgripur hennar var vindlakassi sem Muggur hafði gert klippimynd á. Í honum geymdi hún tvær aðrar gjafir frá honum, silkiklút og bókina Íslensk ljóð sem hann áritaði til hennar.

Guðrún var læs en kunni ekki að skrifa og varð því að leita hjálpar annarra við bréfaskipti svo sem við fjölskyldu sína í Ameríku. Þorsteinn Þorsteinsson frá Húsafelli er helsti heimildamaður Safnahúss um Guðrúnu. Hann segir svo í áður óbirtum texta: „En styrkleiki Gunnu var í því að tala við fólk og sýna því hlýtt viðmót og það setti svip á allt heimilið.  …Hún las mikið og dáði skáldin og var fróð um þann heim sem var henni næstur þó skólaþekkingu brysti. Hún var söm og jöfn við alla, lét aldrei hafa sig í þrætur eða deilur án þess þó að láta af meiningu sinni.“

Þegar Guðrún var komin hátt á tíræðisaldur var hún farin að heilsu. Síðasta árið sitt naut hún góðrar umönnunar á Gilsbakka, hjá Sigurði Snorrasyni fóstursyni sínum og konu hans Önnu Brynjólfsdóttur frá Hlöðutúni. Guðrún lést á Gilsbakka þann 7. júní 1957.

 

Samantekt: Guðrún Jónsdóttir.

Helstu heimildir:
Aðalsteinn Halldórsson o.f. 1975. Borgfirzkar æviskrár IV. Sögufélag Borgarfj. Rvk.
Þosteinn Þorsteinsson. 1982. Óbirt bréf til Önnu Brynjólfsdóttur á Gilsbakka. 2. sept.
Vilhj. S. Vilhjálmsson. 1951. Hún bíður þess að skógurinn laufgist. Fólkið í landinu. Menningar- og fræðslusamband alþýðu, Rvk.

 

Ljósmynd: Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar.