Að vera skáld og skapa

Tónlistarskóli Borgarfjarðar og Safnahús Borgarfjarðar hafa á undanförnum árum unnið saman að því að hvetja ungt fólk til að semja tónlist við borgfirsk ljóð. Verkefnið ber vinnuheitið Að vera skáld og skapa og fer þannig fram að í Safnahúsi er unnið að vali efnis, gjarnan í samvinnu við viðkomandi skáld eða fjölskyldu þess. Þegar vali er lokið er ljóðahefti útbúið og sett í hendur nemenda. Þeir velja sér texta úr heftinu og semja lög við. Ennfremur ákveða þeir flutningsmátann og frumflytja verkin undir handleiðslu kennara sinna á opnum tónleikum í Safnahúsi á sumardaginn fyrsta. Verkefnið byggir á ákvæði í menningarstefnu Borgarbyggðar um frumkvæði, sköpun og menningararf. Það hefur fengið afar jákvæð viðbrögð, bæði hjá nemendum skólans og fjölskyldum þeirra, svo og hjá sveitarstjórn Borgarbyggðar og íbúum í héraðinu.

Um 180 nemendur stunda nú nám við Tónlistarskóla Borgarfjarðar sem starfað hefur í rúm fimmtíu ár. Safnahúsið hefur verið við lýði síðan um 1960. Báðar stofnanir eru í eigu Borgarbyggðar og vinna að þessu verkefni þvert á fagsvið sín. Verkefnisstjórar eru Guðrún Jónsdóttir forstöðumaður Safnahúss og Theodóra Þorsteinsdóttir skólastjóri Tónlistarskólans.

Á árinu 2018 tók markmið og textaval sérstakt mið af fullveldisárinu og horft var til ástar á landinu eins og hún kom fram í ljóðum skálda. Voru höfundar fulltrúar ýmissa tímabila. Árið 2019 lágu ljóð eftir Böðvar Guðmundsson til grundvallar. Á árinu 2020 verður unnið með ljóðasafn eftir Þorstein frá Hamri (1938-2018), sem var eitt mesta skáld íslenskrar tungu og er þekktastur fyrir ljóð sín. Í vinnuhefti nemenda eru 37 ljóð, valin af Ástráði Eysteinssyni prófessor sem vann það verk af mikilli alúð. Fjölskylda Þorsteins veitti góðfúslegt leyfi til birtingar ljóðanna í þágu verkefnisins og Hólmfríður Úa Matthíasdóttir útgáfustjóri Forlagsins veitti verðmæta aðstoð. Til stóð að uppskerutónleikar verkefnisins yrðu haldnir í áttunda sinn á sumardaginn fyrsta, þann 23. apríl 2020 kl. 15.00. Með tilliti til sóttvarna og samkomubanns var þeim frestað og stefnt er að því að halda þá fimmtudaginn 22. apríl 2021 ef aðstæður leyfa.

Nokkrar myndir frá tónleikum verkefnisins.