Að vera skáld og skapa

Árið 2012 hóf Safnahús samstarf við Tónlistarskóla Borgarfjarðar um listsköpun ungs fólks á grundvelli borgfirskrar bókmenningar. Var gerður samingur milli stofnananna tveggja þar sem byggt er á fagþekkingu þeirra hvorrar um sig. Verkefnið fer þannig fram að á haustönn er í Safnahúsi unnið að samantekt á verkum eftir borgfirsk skáld, eitt eða fleiri eftir þema hverju sinni. Hefti er útbúið og fært Tónlistarskólanum í byrjun vorannar. Þá taka nemendur skólans við og velja sér ljóð sem þeir síðan semja tónlist við undir handleiðslu kennara sinna. Verklokin eru svo tónleikar í Safnahúsi á sumardaginn fyrsta þar sem ungu tónskáldi flytja sjálf eigin verk fyrir áheyrendur. Hefur þetta mælst einstaklega vel fyrir og nemendurnir sem eru á grunnskólaaldri hafa staðið sig með miklum sóma.

Meðal þeirra skálda sem hafa átt ljóð til grundvallar tónsmíðunum eru þessi: Halldóra B. Björnsson, Guðmundur Böðvarsson, Snorri Hjartarson og Júlíana Jónsdóttir. Árið 2019 er helgað verkum eftir Böðvar Guðmundsson. Valdi hann ljóðin sjálfur og verður viðstaddur tónleikana sem verða 25. apríl kl. 15.00.

Nokkrar myndir frá tónleikum verkefnisins.