Tónlistarskóli Borgarfjarðar og Safnahús Borgarfjarðar hafa á undanförnum árum unnið saman að því að hvetja ungt fólk til að semja tónlist við borgfirsk ljóð. Fer verkefnið þannig fram að ljóðahefti er útbúið og sett í hendur nemenda. Þeir velja sér texta úr safninu og semja lög við. Þeir ákveða síðan flutningsmátann sjálfir og frumflytja verkin ásamt kennurum sínum á opnum tónleikum.

Verkefnið hefur fengið sérstaklega jákvæð viðbrögð, bæði hjá nemendum skólans og fjölskyldum þeirra, svo og hjá sveitarstjórn Borgarbyggðar og íbúum í héraðinu. Einnig fékk verkefnið styrk hjá afmælisnefnd um fullveldi Íslands og eru tónleikarnir því einn af viðburðum afmælisársins 2018.

Verkefnið byggir á ákvæði í menningarstefnu Borgarbyggðar um frumkvæði, sköpun og menningararf.

Um 160 nemendur stunda nú nám við Tónlistarskóla Borgarfjarðar sem starfað hefur í fimmtíu ár. Safnahús hefur verið við lýði síðan um 1960. Báðar stofnanir eru í eigu Borgarbyggðar og vinna að þessu verkefni þvert á fagsvið sín undir heitinu: „Að vera skáld og skapa“. Verkefnisstjórar eru Guðrún Jónsdóttir forstöðumaður Safnahúss og Theodóra Þorsteinsdóttir skólastjóri Tónlistarskólans.

Á árinu 2018 tekur markmið og textaval sérstakt mið af fullveldisárinu og horft er til ástar á landinu eins og hún kemur fram í ljóðum skálda. Eru skáldin fulltrúar ýmissa tímabila, alveg til samtíma. Val ljóða annaðist Sævar Ingi Jónsson héraðsbókvörður.

Uppskerutónleikar verkefnisins verða nú haldnir í sjötta sinn, á sumardaginn fyrsta, þann 19. apríl n.k. kl. 15.00, í Safnahúsi. Dagskráin tekur um klukkutíma. Hún er öllum opin og boðið verður upp á sumarkaffi að henni lokinni.

 

Ljósmynd: frá fyrri tónleikum verkefnisins þar sem ljóð Halldóru B. Björnsson lágu til grundvallar. Þóra Elfa Björnsson dóttir Halldóru fyrir miðri mynd.

Categories:

Tags:

Comments are closed