Safnahúsið verður að venju með öflugt menningarstarf í vetur og hefst dagskráin í lok október með fyrirlestrum á sviði arkitektúrs og sagnfræði. Tvær nýjungar verða í starfseminni, annars vegar fyrirlestrahaldið og hins vegar myndamorgnar þar sem gestir eru beðnir um að þekkja fólk á myndum. Einnig verður lengri opnunartími sýninga og bókasafns einn dag á aðventunni, þann 8. desember. Verður þá opið til 21.00 og heitt á könnunni.

Fimmtudaginn 26. október n.k. flytur Sigursteinn Sigurðsson arkitekt erindi sem hann nefnir „Mannvirkin og sagan: Húsahönnun í héraði.“ Nokkrum vikum síðar eða 16. nóvember, verður fyrirlestur Heiðars Lind Hanssonar sagnfræðings á dagskrá með efni úr sögu Borgarness undir yfirskriftinni „Tíu afleggjarar úr sögu Borgarness.“ Sýningin Tíminn gegnum linsuna mun standa til áramóta, en þar eru sýndar ljósmyndir fjögurra ljósmyndara sem mynduðu mannlíf og umhverfi í Borgarnesi á 20. öld. Örsýning í minningu Dr. Selmu Jónsdóttur mun einnig standa til áramóta. Þann 7. desember verður fyrsti myndamorguninn, kl. 10.30.  Eftir áramótin verða aftur tveir slíkir, annars vegar 25. janúar og hins vegar 22. febrúar. 

Árið 2018 verður viðburðaríkt og skal fyrst telja að þá verða opnaðar fjórar listsýningar í Hallsteinssal. Sýnendur eru listakonur úr héraði: Guðrún Helga Andrésdóttir (janúar), Christina Cotofana (mars), Áslaug Þorvaldsdóttir (apríl) og Steinunn Steinarsdóttir (sept.). Ennfremur verða fyrirlestrar á dagskrá. Guðrún Bjarnadóttir náttúrufræðingur fjallar um jurtalitun 18. janúar og Már Jónsson sagnfræðingur um Jón Thoroddsen 15. febrúar.  Fyrirlestrarnir eru styrktir af Uppbyggingarsjóði Vesturlands.

Á sumardaginn fyrsta (19. apríl) kl. 15.00 verða lokatónleikar verkefnisins Að vera skáld og skapa, sem er samstarfsverkefni Tónlistarskóla Borgarfjarðar og Safnahúss. Þar vinna nemendur skólans að tónsmíðum á grunni valdra texta borgfirskra skálda. Verkefnið er nú haldið í sjötta sinn.

Í árslok verður 90 ára afmælis Hvítárbrúarinnar minnst í samvinnu við Helga Bjarnason blaðamann.

Auk ofangreinds verður um ýmis smærri verkefni að ræða s.s. framsetningu fróðleiks um fólk og staði á heimasíðu hússins, þátttöku á landsvísu í verkefnum innan fagsviða s.s. Bókasafnsdegi, Skjaladegi og Safnadegi. Sýningin um Pourquoi-pas strandið (1936) fær að standa enn um sinn og lestrarátakið Sumarlestur verður á sínum stað með tilheyrandi uppskeruhátíð í ágúst.

Grunnsýningar Safnahúss, Börn í 100 ár og Ævintýri fuglanna eru hönnunarverk Snorra Freys Hilmarssonar. Var sú fyrri opnuð í júní 2008, en sú síðari vorið 2013. Hafa þær báðar fengið góðar umsagnir í erlendum ferðahandbókum.

Í Safnahúsi eru fimm söfn starfrækt og eru þau öll í eigu Borgarbyggðar: Byggðasafn Borgarfjarðar, Héraðsbókasafn Borgarfjarðar, Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar, Náttúrugripasafn Borgarfjarðar og Listasafn Borgarness.

 

Categories:

Tags:

Comments are closed