Sýning í gangi

Spegill litrófsins

Laugardaginn 5. maí s.l. var opnuð sýning á ljósmyndum Áslaugar Þorvaldsdóttur ásamt hækum sem Sigríður Kristín Gísladóttir hefur ort með innblæstri frá myndunum. Sýningin er í Hallsteinssal á efri hæð Safnahúss. Hún ber heitið „Spegill litrófsins“ og byggir á ljósmyndum úr lífi Áslaugar. Myndirnar eru teknar á nokkurra ára tímabili, flestar á Íslandi og þó nokkrar á Spáni. Spánarmyndirnar eru flestar teknar í litlu fjallaþorpi, Cómpeta, í Andalucia héraði en þar dvaldi Áslaug í maí og júní á síðasta ári. Íslandsmyndirnar eru aðallega stemningsmyndir frá Borgarnesi og nágrenni.

Áslaug er fædd í Borgarnesi og hefur búið þar mest alla æfi. Ljósmyndun hefur verið aðaláhugmál hennar lengi en hún starfar hjá Landnámssetri Íslands. Uppáhalds myndavél Áslaugar er gömul Olympus OM 2 filmuvél, en myndirnar á sýningunni eru margar hverjar teknar á Samsung S7, sem hún notar einnig sem síma.

Ljóðskreytan Sigríður Kristín Gísladóttir hefur búið á Akranesi síðustu 11 árin. Hún hefur yndi af orðlist og lengi glímt við ljóðagerð. Ein af fyrirmyndum hennar í þeirri iðju er langamma hennar Sigríður Kristín Jónsdóttir sem orti tækifærisljóð og gaf út ljóðabók á eigin kostnað komin á áttræðisaldur.

Sýningin Spegill litrófsins er sett upp á faglegan og skemmtilegan hátt með samstarfi þeirra Áslaugar og Sigríðar, þvert á listgreinar. Áslaug hlaut styrk frá Uppbyggingarsjóði Vesturlands til að undirbúa sýninguna og Uppbyggingarsjóður styður einnig við menningardagskrá Safnahúss á árinu.

Sýningin stendur fram til 25. ágúst 2018 og er opin á virkum dögum 13-18, en um helgar 13-17 (gengið inn um vestari inngang á bílaplani).  Þar eru einnig grunnsýningar hússins, Börn í 100 ár og Ævintýri fuglanna.

Ljósmynd (Jóhanna Skúladóttir):  Áslaug og Sigríður við opnun sýningarinnar.