Tvær merkar gjafir hafa borist til Byggðasafns Borgarfjarðar. Um er að ræða skipsbjöllu og lukt úr skipinu M/S Hvítá, sem gegndi talsverðu hlutverki í útgerðarsögu Borgarness um miðja síðustu öld.  Það var Björgvin E. Vídalín kafari og framkvæmdastjóri Eldvíkur ehf sem afhenti gripina tvo, sem hann hafði gætt vandlega síðan hann sótti þá sjálfur í flakið árið 1966 eða fyrir rúmri hálfri öld.

Björgvin segir sjálfur svo frá: „Ungur fékk ég mikinn áhuga á köfun og nýtt hvert tækifæri til að vaða út í sjó og kafa. Um 1966 eða 67 fór ég að kafa út frá skipasmíðastöðinni Bátalóni, í Hafnarfirði. Ég synti út í Helgasker til að tína krækling og öðuskel. Þegar ég fór til baka var komið háflóð. Ég synti að skipi sem maraði í hálfu kafi í fjörunni. Á dekkinu var bjalla sem ég tók í land ásamt lukt, sem ég tel að hafi verið í formastri flaksins.“

Um Hvítána
Hvítáin var byggð í Svíþjóð árið 1946 og kom til Íslands í júlímánuði það ár. Hún var keypt af félagi sem hét Fjörður og starfaði undir forystu þeirra Eggerts Einarssonar og Finnboga Guðlaugssonar í Borgarnesi. Skipið var til að byrja með 91 brúttólest en var síðar stækkað upp í hundrað lestir. Þetta fyrsta sumar fór það á síldveiðar fyrir Norðurlandi og þótti reynast vel. Skipstjóri var Gunnar Ólafsson.  Á næstu árum var oft aflabrestur á síldarmiðunum og var því útgerðin erfið fjárhagslega. Það var svo í byrjun ársins 1954 að það skall á ofviðri mikið. Var það síðar nefnt Hæringsveður því þá sleit skipið Hæring upp frá Reykjavíkurhöfn. Í þessu veðri slitnaði Hvítáin einnig upp ásamt fleiri bátum og strandaði að lokum við Laugarnes. Við þetta skemmdist hún mikið og var því í lamasessi þann vetur. Árið 1956 var skipið síðan selt til Hafnarfjarðar og var þá nefnt Flóaklettur GK 430. Það lenti aftur í hremmingum í árslok 1963 þegar það losnaði frá gömlu bryggjunni í  Hafnarfirði og rak upp í klappir. Að lokum var það í eigu Bátalóns h.f. í Hafnarfirði og var orðið að flaki þar þegar Björgvin kafaði þangað á flóði og bjargaði skipsbjöllunni og luktinni.  Munirnir tveir eru nú komnir í trygga vörslu byggðasafnsins og verða hafðir til sýnis um sinn í Safnahúsi á sýningunni Tíminn gegnum linsuna, en þar er fjallað um sögu Borgarness.

Þess má að lokum geta að á undanförnum árum hefur mikið af upplýsingum verið safnað um útgerðarsögu Borgarness. Má þar sérstaklega nefna ötula vinnu Sigvalda Arasonar og Sveins Hálfdanarsonar í Borgarnesi, sem einnig hafa gengist fyrir því að gefa líkan af öllum Borgarnesskipunum til byggðasafnsins. Þar á meðal er líkan af Hvítánni, sem var gefið safninu árið 2009 að viðstöddum Gunnari Ólafssyni skipstjóra og konu hans Dýrleifu Hallgrímsdóttur. 

Ljósmyndir (GJ): 1) Björgvin við gripina góðu. 2) Sveinn Hálfdanarson og Sigvaldi Arason. 3) Sigvaldi Arason, Gunnar Ólafsson og Dýrleif Hallgrímsdóttir við líkanið af Hvítánni.

Categories:

Tags:

Comments are closed