Safnahús

Vetraropnun í Safnahúsi

Vetraropnun hefur nú tekið gildi í Safnahúsi og gildir fram að 1. maí 2019. Er þá opið sem hér segir: Grunnsýningar á neðri hæð Opnar alla virka daga kl. 13.00-16.00. Spyrjist fyrir á bókasafninu og fáið fylgd á sýningarnar. Aðgangseyrir, sjá annars staðar á síðunni. Sýningar á efri hæð (Hallsteinssalur): Opið á opnunartíma bókasafns kl. 13.00-18.00.  Nokkrar sýningar eru í salnum á ári hverju, margar þeirra myndlistarsýningar. Ókeypis aðgangur. Bókasafn Bókasafnið er opið alla virka daga 13.00 – 18.00 árið um kring. Héraðsskjalasafn Héraðsskjalasafnið er opið 13.00 – 16.00 alla virka daga og einnig 08.00 – 12.00 skv. samkomulagi. Tekið skal fram að húsið er opið á öðrum tímum en ofangreint skv. samkomulagi og leiðsögn veitt. Sjá nánar um móttöku almennra hópa og skólahópa undir sýningar/hópamóttaka hér annars staðar á síðunni. Leitið frekari upplýsinga í síma 433 7200 eða sendið bréf á safnahus@safnahus.is. Verið innilega velkomin í Safnahús – starfsfólk.

Sýning Steinunnar Steinarsdóttur opnuð

Laugardaginn 1. september kl. 13.00 verður opnuð ný sýning í Safnahúsi.  Það er Steinunn Steinarsdóttir sem sýnir þar ullarmyndverk og hverfist sýningin um ýmis form sögu, eins og heiti hennar gefur til kynna. Verkefnið tengist líka sagnaheimi Safnahúss á ýmsan hátt. Steinunn segir svo um sýninguna:   „Ævintýri, sögur og annar fróðleikur hafa verið mér hugleikin frá barnsaldri og ég hef alltaf lesið mikið, bókasafnið er mér því kært. Mig langaði að tengja sýninguna við hinu ýmsu hlutverk Safnahússins og nota því m.a. gamlar ljósmyndir af óþekktu fólki af ljósmyndasíðu Safnahússins sem innblástur ásamt sýningum Safnahússins og gef viðfangsefnunum nýtt líf og hlutverk sem sögupersónum. Með því að nota ull sem efnivið myndast enn sterkari tenging við fortíðina og handverkið sem hefur fylgt okkur sem þjóð í gegnum aldirnar.“    Steinunn er fædd 1977 og uppalin í Tröð í Kolbeinsstaðahreppi. Hún býr og starfar í Borgarnesi og lauk prófi frá Fagurlistabraut Myndlistarskólans á Akureyri vorið 2016 og hafði áður lokið fornámi við sama skóla. Hún hefur tekið þátt í allmörgum samsýningum og sýndi síðast í Hallsteinssal í Safnahúsi fyrir tíu árum. Það verður því áhugavert að sjá þau verk sem hún sýnir þar nú og fylgjast með þróun í listsköpun þessarar…

Sumarlestrinum lýkur

Sumarlestrinum lauk fyrir stuttu og var þátttaka afar góð auk þess sem börnin lásu meira hvert fyrir sig en verið hefur.  Er þetta ánægjuleg þróun. Á næstunni verður uppskeruhátíð í Safnahúsi fyrir þessa duglegu lestarhesta þar sem þau fá viðurkenningar fyrir góða frammistöðu. Sumarlesturinn stóð yfir frá 10. júní – 10. ágúst, en hann er fyrir börn á aldrinum 6-12 ára.  Þau koma á bókasafnið og velja sér bækur til lesturs og skrá sig.  Um leið og valið er lestrarefni við hæfi og eftir áhuga hvers og eins er lestrarkunnáttan þjálfuð sem er eitt af markmiðum átaksins. Þetta var í ellefta sinn sinn sem Héraðsbókasafnið gekkst fyrir þessu verkefni og umsjón hafði Sævar Ingi Jónsson héraðsbókavörður með aðstoð Sandra Sjabanssonar sumarstarfsmanns bókasafnsins.

Gömul hús í Borgarnesi hverfa

Á þessum vikum hverfa tvö gömul hús í Borgarnesi af sjónarsviðinu til að rýma fyrir stækkun lóðar við grunnskólann, þar sem viðbygging er í smíðum. Annað húsanna hefur þegar verið rifið og var það svokallað Dýralæknishús eða Gunnlaugsgata 21. Það stóð á brekkubrúninni sunnan við skólann. Húsið var byggt árið 1936 og var 125,8 fm., það var á sínum tíma reist af Paul Chr. Ammendrup klæð- og feldskerameistara og eiginkonu hans Maríu S. Ammendrup. Bjarni Bachmann safnvörður til áratuga kallaði húsið „Klæðskerahúsið”. Ammendruphjónin fluttu í Borgarnes frá Danmörku og bjuggu þar í eitt ár, síðar í Reykjavík. Á meðfylgjandi myndum sést húsið og að baki þess er svokallað Veggjahús, sem auglýst hefur verið til niðurrifs og/eða flutnings, mynd af því fylgir líka með, það var byggt árið 1929 (124 fm) og voru það hjónin Þorbjörn Jóhannesson (f. 1866) og Margrét Guðrún Sigurðardóttir (f. 1875) sem fluttu í Nesið árið 1928 frá Stafholtsveggjum. Húsið kennt við bæinn. Þau áttu níu börn, tvö dóu í frumbernsku. Þau voru með skepnur og var útihús byggt á lóðinni.  Jóhannes sonur hjónanna (Jói á Veggjum) bjó loks einn í húsinu í tæp 30 ár eftir daga foreldra sinna. Einnig má hér sjá mynd af næsta húsi…

Viðurkenning frá Grapevine

Rýnihópur ferðatímaritsins Grapevine hefur veitt Safnahúsi viðurkenningu og telur sýningar hússins í fremstu röð. Er þetta afar ánægjulegt fyrir Borgarbyggð sem hefur ákvæði um framúrskarandi safnastarf meðal markmiða sinna í menningarmálum. Meðal þess sem tilgreint er við grunnsýningar hússins er að í annarri þeirra sé sýnt eftirminnanlega fram á þær gríðarlegu breytingar sem æska landsins stóð frammi fyrir á 20. öld þegar samfélagið tók stökk yfir í nútímann.  Grunnsýningar Safnahúss eru tvær, Börn í 100 ár og Ævintýri fuglanna. Þær eru hannaðar af Snorra Frey Hilmarssyni leikmyndahönnuði sem hefur hlotið mikið lof fyrir nálgun sína.  Hér má sjá textann á heimasíðu blaðsins: Safnahús Borgarfjarðar is one of the most locally-focused museums in the country. Located inside a bright red house near the sea, the museum offers a new program every year focusing on local artists. Their permanent exhibition, ‘Children Throughout A Century’, dives into the dramatic changes Icelandic children have faced as Icelandic society transformed from an agricultural community to a modern nation. “They reconstructed an old turf living room and from there you just walk into a modern teenagers bedroom from IKEA,” one panel member says. “It’s a crazy contrast, just a great exhibit.”   

Safnfræðsla

Eitt megin markmið menningarstefnu Borgarbyggðar er að efla menningarvitund með fræðslu hvers konar.  Safnahús leggur sitt af mörkum með því að vanda til um móttöku skóla- og frístundahópa og koma árlega margir slíkir á söfnin. Eru þetta öll skólastig, frá leikskóla- og upp í háskóla, auk almennra hópa s.s. vinahópa og félagasamtök. Frásögn er hagað eftir hópnum hverju sinni og aldrei eru vandræði að finna viðfangsefni eða nálgun, því borgfirsk saga er uppfull af afreksfólki sem á einn eða annan hátt er frásagnarvert.  Einnig hefur hönnun Snorra Freys Hilmarssonar á sýningunum Börn í 100 ár og Ævintýri fuglanna vakið mikla athygli, en hún er djúphugsuð og á erindi við alla.  Þannig vinnur menningin með listinni sem er einnig hluti af menningunni. Hér ofar má sjá nokkrar myndir af hópum sem komið hafa í húsið að undanförnu og vill starfsfólk Safnahúss nota tækifærið til að þakka leiðbeinendum og leiðangursstjórum fyrir gott og gefandi samstarf um heimsóknirnar það sem af er ári.

Flutti lagið sitt í Alþingishúsinu

Ungur nemandi Tónlistarskóla Borgarfjarðar, Kristján Karl Hallgrímsson frá Vatnshömrum, kom fram við hátíðlega athöfn í Alþingishúsinu 17. júní, þar sem ný hátíðarútgáfa af Íslendingasögum og þáttum var afhent. Kristján Karl flutti þar eigið lag við ljóð Sigríðar Einarsdóttur frá Munaðarnesi. Viðstödd voru m.a. frú Vigdís Finnbogadóttir og hr. Guðni Th. Jóhannesson, ráðherrar og forsætisráðherra. Var gerður afar góður rómur að lagi og flutningi Kristjáns sem er einungis 10 ára gamall. Samkoman var á vegum afmælisnefndar um 100 ára fullveldi Íslands, en Alþingi fól nefndinni að stuðla að heildarútgáfu Íslendingasagnanna á afmælisárinu. Lagið sem Kristján Karl samdi var fyrst flutt á sameiginlegum tónleikum Safnahúss og Tónlistarskólans í vor, en þessar tvær stofnanir standa árlega að verkefninu „Að vera skáld og skapa“, þar sem nemendur skólans velja ljóð eftir borgfirskt skáld og semja lag við það undir handleiðslu kennara sinna. Þess má geta að kennari Kristjáns Karls við Tónlistarskólann er Hafsteinn Þórisson. Það var Einar K. Guðfinnsson formaður afmælisnefndar sem kynnti unga listamanninn í Alþingishúsinu á þjóðhátíðardaginn og fórust honum m.a. svo orð: „Segja má að öll listsköpun eigi sér rætur í einhvers konar texta. Verkefnið „Að vera skáld og skapa“ spratt af þeirri hugsun og er eitt af fjölmörgum verkefnum sem…

Sumarlestrarmyndin 2018

Við kynnum nýjan höfund Sumarlestrarmyndar fyrir okkur, það er hún Ragnheiður Guðrún Jóhannesdóttir sem gert hefur þessa fallegu mynd fyrir verkefnið í ár.  Eins og sjá má á myndinni líður manni vel þegar maður les bækur.  Nánar um Sumarlesturinn: Hann stendur yfir frá 10.júní-10.ágúst og er fyrir börn á aldrinum 6-12 ára.  Börnin koma á safnið og velja sér bók eða bækur til lesturs og skrá sig um leið í Sumarlesturinn.  Um leið og valið er lestrarefni við hæfi og eftir áhuga hvers og eins er lestrarkunnáttan þjálfuð ennfremur sem er eitt af markmiðum átaksins, annað markmið er að hafa gaman yfir sumarið með bók í hönd.   Þetta er í ellefta sinn sinn sem Héraðsbókasafnið gengst fyrir þessu verkefni.  Fyrir hverja lesna bók fæst happamiði sem fer í pott sem dregið er úr í lok sumars þar sem nokkrir heppnir lestrarhestar hljóta vinning, en öllum þátttakendum er færður glaðningur á sérstakri sumarlesturshátíð í Safnahúsi þar sem farið er í leiki og veitingum gerð skil.  Bókasafnið er opið alla virka daga frá 13 til 18. Sjáumst krakkar á bókasafninu í sumar!  

Sumarlestur í Safnahúsi

Frá 10.júní-10.ágúst verður eins og undanfarin ár boðið uppá Sumarlestur á bókasafninu fyrir börn á aldrinum 6-12 ára.  Börnin koma á safnið og velja sér bók eða bækur til lesturs og skrá sig um leið í Sumarlesturinn.  Um leið og valið er lestrarefni við hæfi og eftir áhuga hvers og eins er lestrarkunnáttan þjálfuð ennfremur sem er eitt af markmiðum átaksins, annað markmið er að hafa gaman yfir sumarið með bók í hönd.   Þetta er í ellefta sinn sinn sem Héraðsbókasafnið gengst fyrir þessu verkefni.  Fyrir hverja lesna bók fæst happamiði sem fer í pott sem dregið er úr í lok sumars þar sem nokkrir heppnir lestrarhestar hljóta vinning, en öllum þátttakendum er færður glaðningur á sérstakri sumarlesturshátíð í Safnahúsi þar sem farið er í leiki og veitingum gerð skil.  Bókasafnið er opið alla virka daga frá 13 til 18. Sjáumst krakkar á bókasafninu í sumar!   Ljósmynd (GJ): Frá uppskeruhátíð Sumarlestrarins 2017.

Ný bók Guðmundar Eggertssonar

Meðal nýrra bóka sem keyptar hafa verið að undanförnu á bókasafnið er ný bók Dr. Guðmundar Eggertssonar en hann er fæddur árið 1933 og er alinn upp á Bjargi í Borgarnesi.  Bókin ber heitið Rök lífsins og þar er sagt frá nokkrum brautryðjendum líffræðinnar, sérstaklega á sviði erfðafræði.  Guðmundur var lengi prófessor í líffræði við Háskóla Íslands og vann að rannsóknum á sameindaerfðafræði. Hann hefur verið nefndur faðir erfðafræðinnar á Íslandi.  Rök lífsins er fjórða bók Guðmundar á sínu fræðasviði en einnig hefur hann skrifað fjölda greina í tímarit.  Bókin er 192 síður, í mjúku bandi. Það er hið nýja og vaxandi forlag Benedikt sem gefur hana út. Hönnun kápunnar var í höndum Ólafs Unnars Kristjánssonar.  Ljósmyndir með frétt: (GJ): a: Guðmundur Eggertsson kynnir bók sína Ráðgátu lífsins í Safnahúsi fyrir fjórum árum. b: forsíða nýju bókarinnar.