Safnahús

Opnunartími um hátíðar

Opið verður í Safnahúsi á virkum dögum um komandi hátíðar samkvæmt vetraropnun, en einnig á öðrum tímum skv. samkomulagi fyrir hópa sem sækja vilja húsið heim. Næsti viðburður í Safnahúsi er svo opnun sýningar á myndlist Guðrúnar Helgu Andrésdóttur kl. 13.00 laugardaginn 6. janúar. Þar á eftir fylgir fyrirlestur Guðrúnar Bjarnadóttur náttúrufræðings. Erindi hennar er um jurtalitun og verður á dagskrá fimmtudaginn 18. janúar kl. 20.00. Starfsfólk Safnahúss sendir öllum velunnurum safnastarfsins góðar hátíðarkveðjur með þökkum fyrir góðar stundir og ósk um farsælt og gott ár 2018. Ljósmynd (Guðrún Jónsdóttir): Norðtungukirkja.

Jólatréð frá Kirkjubóli

Ein gersema Byggðasafns Borgarfjarðar er lítið jólatré sem Guðmundur Böðvarsson skáld á Kirkjubóli í Hvítársíðu smíðaði. Það er allt árið á sýningu í Safnahúsi og á aðventunni er það sett við inngang bókasafnsins þar sem flestir gestir hússins ganga hjá. Af þessu tilefni sendi Böðvar sonur Guðmundar okkur litla sögu um tréð fyrir nokkrum árum og er hún svona:  Við krakkarnir skreyttum það með pappírsborðum og svo stóð það á stofuborðinu og við fengum heitt kakó og kökur þegar öllum gegningum var lokið og öðrum verkum á aðfangadagskvöld og búið að hlusta á útvarpsmessu frá dómkirkjunni í Reykjavík, ýmist var það séra Bjarni eða Jón Auðuns, og mér fannst þeir geta talað ótrúlega lengi og missti alltaf þráðinn. Loks þegar Páll Ísólfsson fór að spila lagið úr Töfraflautunni vissi maður að þessu var að ljúka og jólin gengin í garð.  Líklega hef ég verið fjögurra – fimm ára þetta tiltekna kvöld en þá kviknaði í pappaskrautinu á jólatrénu meðan við sátum við kökuborðið og móðir mín var handfljót að þrífa könnuna með kakóinu og hella á eldinn. Mig minnir að mér hafi fundist þetta óþarfa sóun á góðum drykk. Aðfangadagur og aðfangadagskvöld var ágætt í sjálfu sér, en skemmtilegast var þó…

Aðventa lesin á aðventunni

Næstkomandi föstudag 8. desember  verður heildarupplestur í Safnahúsi, á Aðventu, bók Gunnars Gunnarssonar. Hefst lesturinn kl. 17.15 og stendur yfir til um 19.45. Það er áhugahópur sem stendur að lestrinum og er fólk beðið að láta vita fyrirfram ef það vill lesa með hópnum. Eru gestir og gangandi boðnir velkomnir að setjast um stund og hlýða á lesturinn. Ýmislegt annað verður um að vera dagana 7. og 8. desember og er heildardagskráin sem hér segir: 7. desember (fimmtudagur) kl. 10.30 „Þekkir þú myndina?“  Sýndar verða ljósmyndir og gestir beðnir að greina þær.     Heitt á könnunni og piparkökur – allir velkomnir 8. desember (föstudagur) Lengd opnun – bókasafnið opið til 20.00. kl. 17.15-19.45 Upplestur í Hallsteinssal: Aðventa Gunnars Gunnarssonar lesin. kl. 20.00 Frásögn Gunnlaugs A. Júlíussonar afrekshlaupara af þátttöku hans í hlaupi á Bretlandi fyrir nokkrum árum. Bókamerki – gestir dagsins fá bókamerki að gjöf, gefið út í minningu Jóns Guðmundssonar frá Hólmakoti og Bjarna Valtýs Guðjónssonar. Húsið er opið til 21.00 þetta kvöld, kaffi og konfekt.  Allir velkomnir.  

Rausnargjöf til Byggðasafns Borgarfjarðar

„Borgfirðingafélagið í Reykjavík var stofnað árið 1945 og var m.a. stofnaðili að Byggðasafni Borgarfjarðar.  Félagið hefur í gegnum árin átt fulltrúa í stjórn safnsins, fylgst með starfsemi þess og lagt því margt gott til. Félagið starfaði ötullega í sjötíu ár og voru stofnfélagar um 150 talsins. Vegna breyttra samfélagsaðstæðna hefur það nú lagt niður störf. Af því tilefni færði fráfarandi stjórn þess safninu veglega fjárupphæð, kr. 720.000, sem eftir stóð sem peningaleg eign þess.  Það var Þráinn Kristinsson frá Gunnlaugsstöðum í Stafholtstungum sem færði safninu gjöfina ásamt ýmsum gögnum um starfsemina sem lögð verða inn á Héraðsskjalasafnið. Þráinn var í stjórn félagsins allt frá árinu 1963 og kom hingað í umboði stjórnar. Fyrirhugað er að setja fróðleik um sögu félagsins hér inn á síðuna við fyrsta tækifæri og væru myndir frá starfi félagsins vel þegnar. Samkvæmt samtali milli aðila verður féð notað í þágu safnkosts Byggðasafnsins og verður nýtt í þeim tilgangi strax á næsta ári.  Á þessum tímamótum ber að þakka það merka og farsæla menningarstarf sem unnið hefur verið af félögum Borgfirðingafélagsins gegnum tíðina. Félagið hefur verið og er einnig nú með gjöf sinni verðmætur stuðningur við borgfirskan menningararf.“   Ljósmynd: Þráinn Kristinsson og Jóhanna Skúladóttir héraðsskjalavörður skoða gögnin…

Viðburðir á aðventu

Fimmtudagur 7. desember „Þekkir þú myndina?“  Fimmtudaginn 7. desember kl. 10.30 verður myndamorgunn á vegum Héraðsskjalasafnsins. Sýndar verða  ljósmyndir víða að úr héraðinu og gestir beðnir að greina óþekktar myndir. Heitt verður á könnunni.  Viðburðurinn er í Hallsteinssal á efri hæð Safnahúss og lýkur kl. 11.45. Föstudagur 8. desember Þann dag verður lengd opnun í Safnahúsi í tilefni aðventu og boðið upp á dagskrá. Bókasafnið verður opið til 20.00 og þá hefst frásögn Gunnlaugs A. Júlíussonar af þátttöku hans í um 400 km hlaupi á Bretlandi fyrir nokkrum árum. Gunnlaugur er eins og kunnugt sveitarstjóri Borgarbyggðar, en einnig þekktur afrekshlaupari. Hefur hann tekið þátt í fjölmörgum langhlaupum, m.a. Thames Ring hlaupinu í London árið 2013 sem jafngildir tíu maraþonhlaupum. Húsið verður opið til 21.00 þetta kvöld og boðið verður upp á kaffisopa og konfekt, aðgangur ókeypis. Safnahús hefur gefið út sérstakt bókamerki í tilefni dagsins og er það gert í minningu tveggja einstaklinga sem báðir eru látnir, Jóns Guðmundssonar (1901-1957) og Bjarna Valtýs Guðjónssonar sem lést 2013. Þess má að lokum geta að fljótlega eftir áramót verður opnuð ný sýning í Safnahúsi, myndlistarsýning Guðrúnar Helgu Andrésdóttur.  Þar sýnir Guðrún verk af ýmsu tagi og verður sýningin opnuð kl. 13.00 laugardaginn…

Saga Borgarness á Degi íslenskrar tungu

Fimmtudaginn 16. nóvember verður Degi íslenskrar tungu fagnað í Safnahúsi með fróðleik úr bókunum sem út komu í vor um sögu Borgarness. Um leið minnumst við með vinarhug og söknuði góðs vinnufélaga okkar Egils Ólafssonar sem lést langt fyrir aldur fram þegar hann var vel á veg kominn með ritun verksins. Frændi hans Heiðar Lind Hansson kom þá til liðs við sveitarfélagið og lauk skrifunum með sóma. Heiðar flytur erindi  í Safnahúsi kl. 20.00 annað kvöld þar sem hann fjallar um tíu þræði úr sögunni. Erindið tekur um 45 mín. og á eftir er kaffispjall. Dagskrá lýkur um 21. 15. Þess má geta að Heiðar á ríkan hlut í sýningunni Tíminn gegnum linsuna sem nú er í Safnahúsi og stendur til áramóta.  Þar valdi hann ljósmyndirnar og setti við þær skýringartexta.  Myndirnar á sýningunni eru eftir fjóra ljósmyndara og sýna mannlíf og umhverfi í Borgarnesi á 20. öld. Ljósmyndararnir eru þessir: Friðrik Þorvaldsson, Einar Ingimundarson, Júlíus Axelsson og Theodór Kr. Þórðarson. Sýningin hefur hlotið góðar umsagnir og hefur verið vel sótt. Ljósmynd (Guðrún Jónsdóttir): Heiðar Lind Hansson.

Norræni skjaladagurinn 11. nóvember

Opinber skjalasöfn á Norðurlöndum hafa um nokkurra ára skeið sameinast um árlegan dag þar sem starf þeirra er kynnt. Er það annar laugardagur í nóvember sem hittir að þessu sinni á 11. dag mánaðarins. Verkefnið á sér sameiginlegt þema í ár og er það „Hús og heimili“. Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar tekur þátt í skjaladeginum. Er það gert með tvennu móti, annars vegar með örsýningu á ljósmyndum eftir Júlíus Axelsson (1937-2016) af fólki á heimilum sínum og hins vegar með því að setja inn á vef verkefnisins (www.skjaladagurinn.is) heimildir um dr. Selmu Jónsdóttur listfræðing (1917-1987), sem var fædd og uppalin í Borgarfirði. Einnig má benda á umfjöllun um dr Selmu undir fróðleikur/fólk annars staðar hér á síðunni, en það efni var tekið saman í tilefni af því að í ár eru 100 ár liðin frá fæðingu hennar. Ekki verður um sérstaka opnun skjalasafnsins að ræða á umræddum laugardegi, en framlag þess felst í ofangreindu. Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar var stofnsett árið 1961  og er opinbert skjalasafn fyrir Mýra- og Borgarfjarðarsýslu.  Það er eitt fimm safna undir hatti Safnahúss Borgarfjarðar og héraðsskjalavörður er Jóhanna Skúladóttir.   Ljósmynd (Guðrún Jónsdóttir).

Madame Annie Marie Vallin-Charcot látin

Sú fregn hefur borist að Frú Annie Marie Vallin- Charcot sé látin rúmlega áttræð að aldri. Hún var búsett í Frakklandi og var barnabarn skipherrans og vísindamannsins Jean Babtiste Charcot sem fórst með rannsókna- og vísindaskipinu Pourquoi pas við Mýrar aðfaranótt 16. september 1936. Hefur hún oft komið til landsins til að minnast þessa. Þá kom hún gjarnan við í Safnahúsi og gladdist mjög yfir þeim sóma sem sveitarfélagið sýndi minningu afa hennar. Síðast var hún viðstödd fjölmenna samkomu í húsinu haustið 2016 þar sem þess var minnst að 80 ár voru frá þessu mikla sjóslysi. Blessuð sé minning þessarar merku konu sem hafði sögu afa síns svo mjög í heiðri. Hér má sjá Vallin- Charcot á mynd sem tekin var í Safnahúsi árið 2015, þar er hún ásamt Guðrúnu Jónsdóttur forstöðumanni hússins og Svani Steinarssyni sem mikið hefur lagt af mörkum við að varðveita sögu slyssins. Svanur er búsettur í Borgarnesi en dvelur mikið í Straumfirði ásamt sínu fólki, en þar strandaði skipið á sínum tíma og var staðurinn helsti vettvangur björgunaraðgerðanna. Vinstra megin á myndinni má sjá örsýningu um strandið þar sem m.a. má sjá líkan af skipinu. Svanur hefur verið nokkurs konar sendifulltrúi í samskiptum landanna tveggja…

Viðburðaskrá 2017-2018

Í Safnahúsi er fjölbreytt starfsemi framundan og byggir hún á fagsviðum safnanna fimm sem í húsinu eru. Hér má sjá helstu viðburði á næstunni, á þessu og næsta ári, með fyrirvara um ófyrirséðar breytingar. 2017 26. október kl. 20.00  – Fyrirlestur: Sigursteinn Sigurðsson fjallar um hönnunarsögu húsagerðar í héraði. 16. nóvember kl. 20.00 – Fyrirlestur: Heiðar Lind Hansson; „Tíu afleggjarar úr sögu Borgarness.“  07. desember kl. 10.30 – „Þekkir þú myndina?“ Gestir beðnir að greina óþekktar ljósmyndir. 08. desember – opið til 21 á sýningum og bókasafni, heitt á könnunni o.fl. Gestir fá bókamerki að gjöf sem gefið er út af Safnahúsi í minnningu frændanna Jóns Guðmundssonar og Bjarna Valtýs Guðjónssonar. 2018 06. janúar kl. 13.00 – Opnun sýningar á verkum eftir Guðrúnu Helgu Andrésdóttur. 18. janúar kl. 20.00 – Fyrirlestur: Guðrún Bjarnadóttir náttúrufræðingur fjallar um jurtalitun. 25. janúar kl. 10.30 – „Þekkir þú myndina?“ Gestir beðnir að greina óþekktar ljósmyndir.  15. febrúar kl. 20.00 – Fyrirlestur:  Már Jónsson sagnfræðingur segir frá höfundinum Jóni Thoroddsen og fyrstu íslensku skáldsögunni, Pilti og stúlku.  22. febrúar kl. 10.30 – „Þekkir þú myndina?“ Gestir beðnir að greina óþekktar ljósmyndir. 10. mars kl. 13.00 – Opnun sýningar á verkum Christinu Cotofana. 19. apríl kl. 15.00 – Tónleikar unga fólksins: „Að vera skáld og skapa.“  Tónlistarskóli…

Fann sjálfa sig á mynd

Það gerist stundum á sýningunni Börn í 100 ár í Safnahúsi að gesti safnsins er að finna á ljósmyndunum sem þar eru.  Þetta gerðist m.a. í gær þegar Ester Hurlen sótti sýninguna heim og var þessi mynd tekin við það tækifæri.  Ljósmyndin sem hún er á er úr safni Bjarna Árnasonar frá Brennistöðum í Flókadal og er tekin í garðinum við Ránargötu 9 í Reykjavík snemma sumars árið 1938. Ester var þá eins árs gömul en á sjálf eintak af myndinni og þekkti hana þess vegna aftur. Börnin sem þarna eru saman komin á myndinni eru fimm talsins, þar af eru fjögur systkini, þau Margrét, Regína, Gunnar og Sigurður, börn Gunnars Gunnarssonar og Hólmfríðar Sigurðardóttur sem þá áttu heima í húsinu.  Þar átti Ester einnig heima og er hún önnur frá vinstri á myndinni. Bjarni Árnason var fæddur árið 1901. Hann var sonur Árna Þorsteinssonar og Valgerðar Bjarnadóttur sem þá bjuggu á Brennistöðum og býr þeirra fólk þar enn.  Bjarni átti við vanheilsu að stríða frá barnsaldri og lamaðist að nokkru um þrítugt. Hann lærði bókband og kenndi það fag bæði við Hvítárbakkaskóla og Reykholtsskóla. Hann var sjálfmenntaður ljósmyndari og eru myndir hans merkar heimildir um mannlíf í Borgarfirði og…