Safnahús

Böðvar Guðmundsson 80 ára

Böðvar Guðmundsson skáld er áttræður í dag. Hann fæddist 9. janúar 1939 á Kirkjubóli í Hvítársíðu, sonur hjónanna Guðmundar Böðvarssonar og Ingibjargar Sigurðardóttur. Böðvar hefur sent frá sér fjölbreytt höfundarverk og þýðingar á verkum fyrir börn og fullorðna. Fyrsta bók hans, ljóðabókin Austan Elivoga, kom út árið 1964. Skáldsögur hans um ferðir Íslendinga til Vesturheims hafa vakið mikla athygli og hlaut Böðvar Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir þá síðari. Böðvar hefur einnig samið fjöldann allan af söngtextum. Þótt Böðvar sé búsettur í Danmörku hefur hann ætíð fylgst vel með starfi Safnahúss og hefur veitt dygga aðstoð í ýmsum verkefnum er varða arfleifð foreldra hans. Næsta verkefni eru tónleikar í Safnahúsi í vor, honum til heiðurs á afmælisári, í samvinnu við Tónlistarskóla Borgarfjarðar. Starfsfólk Safnahúss sendir Böðvari heillaóskir á þessum merkisdegi og birtir hér eitt hans þekktasta kvæði, Næturljóð úr Fjörðum. Næturljóð úr Fjörðum Yfir í Fjörðum allt er hljótt.Eyddur hver bær hver þekja fallin.Kroppar þar gras í grænni tóttgimbill um ljósa sumarnótt.Ókleifum fjöllum yfirskyggðein er þar huldufólksbyggð. Bátur í vör með brostna rábíður þar sinna endalokalagði hann forðum landi fráleiðina til þín um vötnin blá.Aldrei mun honum ástin mínáleiðis róið til þín. Fetar þar létt um fífusundfolaldið sem í vor var aliðaldrei…

Viðburðaríkt ár 2019

Á árinu 2019 verður margt um að vera í Safnahúsi og hefst dagskráin með myndamorgni kl. 10.00 og fyrirlestri kl. 19.30 fimmtudaginn 10. janúar. Viðburðaskráin er unnin í samstarfi við marga góða aðila og byggir á fagsviðum safnanna fimm sem í Safnahúsi eru.  Fyrsta fyrirlestur ársins (10. janúar) flytur Marín Guðrún Hrafnsdóttir bókmenntafræðingur sem segir frá langömmu sinni, rithöfundinum Guðrúnu frá Lundi. Aðrir fyrirlesarar ársins eru þau Þóra Elfa Björnsson, Ástráður Eysteinsson, Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir og Sigurjón Einarsson.  Fjórar myndlistarsýningar verða opnaðar á árinu, sú fyrsta 16. mars þar sem Josefina Morell sýnir verk sín. Þar á eftir sýnir Snjólaug Guðmundsdóttir og síðar Ingibjörg Huld Halldórsdóttir. Á komandi sumri verður sýning Listasafns Borgarness í Hallsteinssal og er Helena Guttormsdóttir sýningarstjóri hennar.  Tónleikar verkefnisins „að vera skáld og skapa“ verða í lok apríl í samstarfi við Tónlistarskóla Borgarfjarðar og í árslok verða sýndir dýrgripir úr hinu merka bókasafni Páls Jónssonar. Verður það gert undir stjórn Sverris Kristinssonar. Myndamorgnar skjalasafnsins verða á sínum stað og margt fleira mætti upp telja. Sjá nánar um viðburði hússins hér: http://safnahus.is/vidburdir-2019/

Opnunartími um hátíðar

Opið verður í Safnahúsi á virkum dögum um komandi hátíðar kl. 13.00 – 18.00, en einnig á öðrum tímum skv. samkomulagi fyrir hópa sem sækja vilja húsið heim. Næsti viðburður í Safnahúsi er svo myndamorgunn kl. 10.00 og fyrirlestur um Guðrúnu frá Lundi kl. 19.30 fimmtudaginn 10. janúar. Sjá nánar um viðburði í Safnahúsi árið 2019 með því að smella hér. Ljósmynd (Guðrún Jónsdóttir): Hvanneyrarkirkja (1905). Skólastjórahúsið í baksýn, byggt 1920. 0 0 0 0 0

Lengd opnun og upplestur í dag

Í dag verður opið í Safnahúsi til kl. 20.00. Sett hefur verið upp handsmíðað jólatré eftir Guðmund Böðvarsson skáld á Kirkjubóli og smásagan Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson verður lesin frá kl. 18.00. Sjálfboðaliðar lesa ásamt starfsfólki Safnahúss.  Sagan var skrifuð á dönsku og kom fyrst út á þýsku. Hún var síðan þýdd á íslensku af Magnúsi Ásgeirssyni frá Reykjum í Lundarreykjadal árið 1939 og er það sú útgáfa sem verður lesin í kvöld.  Eins og kunnugt er dvaldi Gunnar langdvölum í Danmörku og skrifaði á dönsku. Halldór Kiljan Laxness segir svo í formála útgáfunnar 1939: „Gunnar markaðist aldrei einkennum útflytjandans, hins vegalausa, áttavillt og upprætta, í þessari löngu hríð, heldur vissi alltaf veðurstöðuna; hann hafði æfinlega af Íslandi bæði fugl og hval, eins og segir um farmenn í gömlum bókum…” Við bjóðum gesti velkomna til okkar til að hlýða á lesturinn eftir því sem hentar, boðið verður upp á kaffi/te og smákökur.   0 0 0 0 0

Hundrað ára fullveldi

Í dag eru liðin 100 ár frá því að Ísland fékk fullveldi sem síðar leiddi til sjálfstæðis landsins frá Dönum árið 1944. Af þessu tilefni er birt hér á síðunni safn borgfirskra ættjarðarljóða, en það lá til grundvallar tónleikum sem haldnir voru í apríl s.l. í samstarfi við Tónlistarskóla Borgarfjarðar og afmælisnefnd um 100 ára fullveldisafmælið.  Í safninu eru alls 27 kvæði, eftir 23 höfunda. Elst er Júlíana Jónsdóttir sem var fædd árið 1838. Yngstur er Ívar Björnsson, fæddur árið 1929. Æviskeið skáldanna ná því yfir langt tímabil í borgfirskri bókmenntasögu og kynjahlutföll eru nánast jöfn þegar horft er til fjölda ljóða.   Það var Sævar Ingi Jónsson héraðsbókavörður sem tók efnið saman. Sjá má ljóðaheftið með því að smella hér.   0 0 0 0 0

Aðventa lesin 6. desember

Fimmtudaginn 6. desember verður opið til kl. 20.00 í Safnahúsi. Við það tækifæri verður smásagan Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson lesin milli kl. 18 og 20 og er vonast til að einhverjir eigi leið í Safnahús þetta síðdegi til að hlýða á bókmenntir eins og þær gerast bestar. Aðventa var fyrst lesin í Safnahúsi í fyrra og mæltist vel fyrir. Sagan er lesin af sjálfboðaliðum, í meistaralegri þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar frá Reykjum í Lundarreykjadal. Magnús var fæddur á Reykjum 9. nóv. 1901.  Hann vann fyrir sér sem blaðamaður og þingskrifari og var lengi bókavörður við Bókasafn Hafnarfjarðar. Hann var tvíkvæntur, fyrri kona hans var Anna Ólafsdóttir og eignuðust þau þrjár dætur, síðari kona hans var Anna Guðmundsdóttir, dóttir Guðmundar Björnssonar sýslumanns í Borgarnesi og  Þóru Leopoldínu Júlíusdóttur. Magnús og Anna Guðmundsdóttir eignuðust eina dóttur.  Aðeins 22 ára sendi Magnús frá sér sína fyrstu ljóðabók og raunar þá einu sem geymdi frumort ljóð. Hún bar heitið Síðkveld en þar mátti einnig finna nokkrar ljóðaþýðingar. Skemmst er frá því að segja að hann lagði þýðingar fyrir sig og þýddi vel yfir 300 hundruð ljóð á sinni ævi. Með þýðingum sínum á mörgum af þekktustu ljóðskáldum heimsins opnaði Magnús dyrnar  fyrir yngri skáld og hafði mikil áhrif á…

Hvítárbrú um 1960

Það kemur fyrir að okkur berast frásagnir tengdar Hvítárbrúnni vegna sýningarinnar um hana sem opnuð var 1. nóv. s.l.. Sigurjón Jónasson á Egilsstöðum (áður í Staðarsveit) sendi okkur eftirfarandi ásamt þessari mynd og kunnum við honum bestu þakkir fyrir: „Ég var að lesa eitthvað um Hvítárbrúna gömlu og góðu og minntist þá myndar sem ég á frá fyrri tíð, af nefndri brú. Ég er fæddur og uppalinn vestur í Staðarsveit á Snæfellsnesi og lærði á bíl hjá Sigurði Jónssyni vélstjóra hjá frystihúsi KB í Borgarnesi. Ég minnist þess að Siggi fór með mig a.m.k. þrisvar upp að Hvítárbrú og þá einkum til þess að skýra sem best út fyrir mér hvað maður þyrfti að gæta sín á brúnni. Benti hann mér á að þegar komið væri í beygjuna hjá Ferjukoti þá sæi ég veginn hinum megin brúarinnar með því að horfa undir bogann á brúnni. Þar með gæti ég séð umferð á móti og varast hana, en það væri auðveldara að fyrgjast með þessu vestan megin og því hægt að komast hjá því að bílar mættust á brúnni, sem var nokkuð aðgengt með viðeigandi rifrildi um, hvor ætti að bakka. Þetta er eitt af því fáa sem ég man ennþá úr ökunáminu fyrir utan að þá var aðeins eitt umf. merki sem mark væri takandi…

Dagur íslenskrar tungu

Ríkisstjórn Íslands ákvað haustið 1995 að 16. nóvember ár hvert yrði dagur íslenskrar tungu. Var dagurinn valinn vegna þess að hann er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar. Hefur menntamála- og menningarmálaráðuneytið árlega beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls á þessum degi og beinir þar með athygli þjóðarinnar að stöðu tungunnar, gildi hennar fyrir þjóðarvitund og alla menningu. Í Safnahúsi er dagsins minnst með uppstillingu höfundarverka handhafa verðlauna Jónasar Hallgrímssonar á Héraðsbókasafninu. Auk þess er hér birt fallegt kvæði Snorra Hjartarsonar skálds er vísar til arfleifðar Jónasar og ber heitið Jónas Hallgrímsson. Snorri Hjartarson var fæddur á Hvanneyri og bjó í Borgarfirði fram á unglingsár, á Ytri Skeljabrekku og í Arnarholti. Sem ungur maður bjó hann um skeið í Noregi þar sem hann lagði m. a. stund á myndlist. Hann kom heim árið 1936 og var bókavörður á Borgarbókasafninu í Reykjavík.  Snorri samdi eina skáldsögu á norsku á meðan hann dvaldi í Noregi en heima á Íslandi var hann þekktur sem ljóðskáld en hann gerði líka eitthvað af því að þýða ljóð. Hann vandaði mjög til verka í ljóðagerð sinni og eftir hann liggja aðeins fjórar ljóðabækur.  Í ljóðum Snorra má oft finna fallega liti sem hann málar með orðum. Annað…

Aukaopnun á laugardaginn

Næstkomandi laugardag, 10. nóvember, verður aukaopnun í Safnahúsi kl. 13.00 – 15.00, þar sem Helgi Bjarnason sýningarstjóri veitir leiðsögn um sýninguna um Hvítárbrúna. Sýningin var opnuð að viðstöddu fjölmenni á 90 ára afmælisdegi brúarinnar 1. nóvember síðastliðinn. Þar flutti Helgi ávarp auk Baldurs Þórs Þorvaldssonar sem talaði fyrir hönd Vegagerðarinnar, sem er samstarfsaðili Safnahúss um verkefnið. Hvítárbrúin á sér merka byggingarsögu og gegndi veigamiklu hlutverki í samgöngum á Íslandi í rúma hálfa öld.  Hún þykir einnig sérstaklega fallegt mannvirki og  prýðir nú héraðið sem innansveitarleið eftir að Borgarfjarðarbrúin var tekin í notkun um 1980. Verkefnið hefur verið í undirbúningi frá því fyrir um tveimur árum og var það að frumkvæði Helga sem samið hefur allan texta og valið ljósmyndir. Verkefni Safnahúss taka ævinlega sterkt mið af því menningarsamfélagi sem húsið starfar í, en starfssvæðið nær allt frá Hvalfirði og vestur að Haffjarðará.  Oft er unnið með einstaklingum af svæðinu um efni sem þeir þekkja vel til og er framlag Helga gott dæmi um slíka samvinnu.  Heiður Hörn Hjartardóttir er hönnuður sýningarinnar sem er hluti af dagskrá Menningararfsárs Evrópu í samvinnu við Minjastofnun Íslands. Þess má geta að Borgarbyggð átti í ár í gegnum starfsemi Safnahúss einnig þátt í landsdagskrá Fullveldisafmælis Íslands og…