Safnahús

Arfur Þorsteins frá Hamri

Í kvöld, þriðjudaginn 1. október verður haldinn í Reykjavík stofnfundur félags sem lagður hefur verið grunnur að undir heitinu Arfur Þorsteins frá Hamri. Þorsteinn var sem kunnugt er frá Hamri í Þverárhlíð og hefur Byggðarráð Borgarbyggðar fylgst með undirbúningi að stofnun félagsins með Safnahúsið sem megin tengilið. Á fundi sínum s.l. fimmtudag lýsti ráðið yfir ánægju með væntanlega stofnun félagsins og vonast eftir góðu samstarfi við það í framtíðinni. Félagið mun standa fyrir viðburðum, einkum á ævislóðum Þorsteins, í Borgarfirði og á höfuðborgarsvæðinu. Markmið þess er að sýna arfleifð Þorsteins ræktarsemi sem og þeim menningararfi sem hann tók í fang sér. Með verkum sínum fann hann og skapaði ótal tengsl á milli hefða og nýsköpunar, og með því móti varð hann einn af fremstu nútímahöfundum tungumáls sem á sér merka sögu og stendur nú frammi fyrir miklum áskorunum. Ljóðafjársjóður Þorsteins frá Hamri, sem og skáldsögur hans og önnur verk, bera glöggt með sér að hann var einn mestur völundur íslensks máls fyrr og síðar, en jafnframt djarfur könnuður mannlegra gilda og áskorana í lífi einstaklings og samfélags.  Í undirbúningshópi vegna verkefnisins eru eftirtalin: Ástráður Eysteinsson,  Guðrún Nordal, Hólmfríður Matthíasdóttir, Hrafn Jökulsson og Laufey Sigurðardóttir auk Guðrúnar Jónsdóttur forstöðumanns Safnahúss.                Stofnfundurinn…

Híbýli vindanna – Lífsins tré

Um síðustu helgi var haldið námskeið í Hvítársíðu og Reykholtsdal á vegum Litlu menntabúðarinnar í samstarfi við ýmsa aðila. Viðfangsefnið var ritverk Böðvars Guðmundssonar Híbýli vindanna og Lífsins tré. Farið var um söguslóðir vesturfara í Hvítársíðu, sagðar sögur um hugsanlegar fyrirmyndir bókanna og bankað upp á bæjum og í kirkjum í fylgd heimamanna og skáldsins sjálfs. Námskeiðsgestir dvöldu á Hótel Á á Kirkjubóli, æskustöðvum Böðvars. Safnahús var aðili að þessu ágæta framtaki í formi fyrirlestrar um borgfirska vesturfara og fjölskyldu þeirra og var hann haldinn í Snorrastofu.  Erindið bar heitið Lífsþræðir í tíma og rúmi og var flutt af Guðrúnu Jónsdóttur safnstjóra.  Námskeiðið hófst á laugardagsmorguninn og lauk með gönguferð að eyðibýlinu Suddu eftir hádegið á sunndag.  Nærvera Böðvars Guðmundssonar og nokkrra annarra fjölskyldumeðlima frá Kirkjubóli gaf námskeiðinu sérstakt vægi.  Öll framkvæmd þess var til fyrirmyndar og viljum við koma á framfæri þakklæti til helstu aðstandenda þess sem voru Ingibjörg Kristleifsdóttir, Ingibörg Danielsdóttir, Ragnar Sigurðsson, Þórunn Reykdal og Halldór Gísli Bjarnason.  Um þarft og gott framtak var að ræða sem vekur verðskuldaða athygli á bókmenntaarfi héraðsins. Á myndinni má sjá Ingibjörgu Kristeifsdóttur lesa upp úr verkinu fyrir námskeiðsgesti í gömlu kirkjunni í Reykholti. Ljósmynd: Guðrún Jónsdóttir.

Sýningaropnun 28. sept.

Laugardaginn 28. september kl. 13.00 verður opnuð ný myndlistarsýning í Hallsteinssal.  Nefnist hún Litabækur og litir  og er fyrsta einkasýning Önnu Bjarkar Bjarnadóttur sem annars starfar sem framkvæmdastjóri hjá Advania en er einnig íþróttafræðingur fyrir utan að hafa sótt nám í myndlist og stundað hana eftir föngum.  Anna er fædd og uppalin í Borgarnesi og megin uppistaða sýningarinnar eru myndir þaðan. „Mér finnst ég vera aftur orðin sjö ára þegar ég fer að leika mér með liti og vatn og ég endurupplifi og ferðast um æskuslóðir og minningar með því að mála þær.“ Íbúar og gestir Borgarfjarðar hafa gegnum tíðina verið duglegir að sækja listsýningar í Safnahúsinu og margir listamenn í héraðinu hafa sýnt þar. Hallsteinssalur er kenndur við listvininn Hallstein Sveinsson sem gaf Borgnesingum stórmerkt listaverkasafn sitt á sínum tíma. Þess má geta að salurinn er þegar uppbókaður allt árið 2020. Sjá nánar um Hallsteinssal með því að smella hér. Sýning Önnu Bjarkar verður opin kl. 13.00-16.00 á opnunardaginn og eftir það 13.00-18.00 alla virka daga fram að 29. október eða á öðrum tímum fyrir hópa eftir samkomulagi. 

Fyrirlestur um fugla 12. sept.

Sigurjón Einarsson náttúrufræðingur og ljósmyndari heldur fyrirlestur um fugla í Hallsteinssal  í Safnahúsi kl. 19.30 fimmtudaginn 12. september n.k.  Erindi hans tengist fagsviði Náttúrugripasafns Borgarfjarðar og er um fugla í borgfirskri náttúru með ljósmyndum sem sýndar verða um leið. Vistgerðir í Borgarfirði er margar og þar er breiða fuglafánu að finna og verður fróðlegt að heyra innlegg Sigurjóns um þetta verðuga efni. Sigurjón starfar sem náttúrufræðingur hjá Landgræðslunni, með mikinn áhuga á fuglum. Hann er frá Hafnarfirði en hefur undanfarin 20 ár verið búsettur í Borgarfirði. Fallegar ljósmyndir hans af fuglum hafa vakið mikla athygli. Sigurjón hefur áður unnið ýmis verkefni fyrir Safnahús. Hann á t.d. ljósmyndir á grunnsýningunni Ævintýri fuglanna og var með sýningu í Hallsteinssal fyrir nokkrum árum þar sem hann sýndi ljósmyndir frá vetrarveiði refaveiðimanna á Borgarfjarðarsvæðinu. Fyrirlestur Sigurjóns tekur um klukkustund og á eftir verður spjall og heitt á könnunni. Aðgangur er ókeypis en söfnunarbaukur er á staðnum fyrir þá sem vilja leggja safnastarfseminni lið. Vakin er athygli á því að þennan sama dag kl. 10.00 er Myndamorgunn á Héraðsskjalasafninu, þar sem gestir aðstoða við að greina ljósmyndir úr safnkostinum.

Litabækur og litir

Laugardaginn 28. september kl. 13.00 verður opnuð ný myndlistarsýning í Hallsteinssal.  Nefnist hún Litabækur og litir  og er fyrsta einkasýning Önnu Bjarkar Bjarnadóttur sem annars starfar sem framkvæmdastjóri hjá Advania en er einnig íþróttafræðingur fyrir utan að hafa sótt nám í myndlist og stundað hana eftir föngum. Anna Björk er fædd og uppalin í Borgarnesi. Hún segir sjálf svo um verkefnið: „Meginuppistaðan verður myndir úr Borgarnesi, en líka einhverjar úr öðrum bæjum og svo landslagsmyndir. Heiti sýningarinnar er lýsandi fyrir ferðalagið sem ég er á þessi misserin, að heimsækja aftur Önnu Björk 7 ára eða þar um bil, sem var alltaf að teikna og lita. Það má segja að ég sé í heimsókn hjá æskunni, bæði í vali á myndefni úr Borgarnesi og Borgarfirðinum, en einnig í vatnslitunum, sem voru fyrstu litirnir sem ég prófaði til að mála með sem krakki, því þeir voru svo einfaldir og aðgengilegir. Svo hef ég gripið í myndlistina öðru hvoru á æviskeiðinu, var komin inn í myndlistaháskóla í Búdapest á sínum tíma, en guggnaði og fór í íþróttafræðina í staðinn og snerti varla pensil né blýant í mörg herrans ár. Þegar ég flyt svo aftur í Borgarnes 1994 á fullorðins aldri, er ég dregin…

Dugnaðarfólk í sumarlestri

Í sumar var að venju sumarlestur á vegum Héraðsbókasafnsins. Fyrir skemmstu lauk honum formlega með árlegri uppskeruhátíð.  Í ár lásu 20 börn 174 bækur sem verður að teljast glæsileg frammistaða.  Nokkur fleiri börn sýndu verkefninu áhuga þó þau hafi ekki skilað inn happamiðum fyrir lesna bók sem telst um leið skráning í verkefnið.  Á uppskeruhátíðinni var að venju farið í létta leiki, m.a. voru leiknir nokkrir bókatitlar sem vakti kátínu víðstaddra.  Að vanda voru dregnir út átta vinningshafar en allir þátttakendur fengu viðurkenningu fyrir þátttökuna ásamt lestrargóðgæti frá Eddu útgáfu, ýmislegt dót frá Arionbanka og forláta blýpenna frá Tækniborg.  Þá voru veitingum líka gerð góð skil í dagskrárlok. Þeir sem ekki áttu tök á að koma á hátíðina, geta sótt sína viðurkenningu á Héraðsbókasafnið. Takk fyrir þátttökuna! Ljósmynd: Guðlaug Dröfn Gunnarsdóttir.

Gömul hús kvödd

Tvö gömul hús í Borgarnesi hafa nú horfið af sjónarsviðinu og var það síðara rifið fyrir nokkrum dögum, Var það „Veggir“ eða Gunnlaugsgata 21 b sem stóð á klettabrún við hlið Grunnskólans.  Hitt húsið var „Dýralæknishúsið,“ sem rifið var í fyrrasumar.  Ástæða þessa eru breytingar á lóðinni við Grunnskólann skv. deiliskipulagstillögu sem lögð var fram vegna undirbúnings viðbyggingar við skólann á sínum tíma. Byggðasafn Borgarfjarðar hefur lagt áherslu á að húsin fengju að standa vegna gildis þeirra sem sérkenna í bæjarlandslagi. En því miður náðist ekki að stuðla að endurbyggingu þeirra og tryggja þeim þannig áfram sinn stað í anda fyrri tíma. Þess má geta að á þessu svæði hafa nú þegar orðið miklar breytingar. Templarahúsið (Mæjuhús), Klöpp og Þórshamar (Gunnlaugsgata 13) hafa horfið, svo og svokallað Friðborgarhús sem stóð þar sem Gunnlaugsgata 12 er í dag.  Ennfremur eru tvö hús vestast í Gunnlaugsgötu farin, Digranes sem brann 1920 og svokallað Immuhús sem stóð á sömu lóð.  Það síðarnefnda var rifið á níunda áratugnum. Nú hafa því allmargir fulltrúar frumbyggjaáranna kvatt í bænum, sem byggðist upp á fyrri hluta 20. aldar. Húsin sem þá voru reist eru afar fjölbreytt í útliti en eiga það flest sameiginlegt að vera smá í…

Samtímalist og Plan-B

Fimmtudaginn 8. ágúst n.k. flytur Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir fyrirlestur í Safnahúsi. Efni hans er samtímalist og heiti erindisins er Hvað er samtímalist og hvers vegna er svona erfitt að skilja hana? Fyrirlesturinn hefst kl. 19.30 og er upptaktur að Plan-B Art Festival sem fer fram dagana 9. –11. ágúst í Borgarnesi. Inga Björk er sjálfstætt starfandi listfræðingur og sýningarstjóri og leggur nú lokahönd á meistaragráðu í listfræði frá Háskóla Íslands. Í fyrirlestri sínum í Safnahúsi fer hún á léttum nótum yfir hvað samtímalist er og hvers vegna erfitt getur reynst að skilja hana.  Inga Björk er fædd árið 1993. Hún sleit barnsskónum í Borgarnesi og er einn stofnenda listahátíðarinnar Plan-B Art Festival sem haldin hefur verið ár hvert í Borgarnesi frá árinu 2016. Hátíðin hefur vakið mikla athygli og m.a. komist á Eyrarrósarlistann, en þar eru verðlaunuð framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni. Það er afar ánægjulegt að fá Ingu Björk til samstarfs um þetta efni og er vonast til að sem flestir sjái sér fært að mæta. Fyrirlesturinn tekur um klukkutíma og að honum loknum verður óformlegt spjall og heitt á könnunni. Ljósmynd: Gunnhildur Lind Hansdóttir.

Safnahús: sumarlestur barna

Héraðsbókasafn Borgarfjarðar efnir nú í 12. sinn til sumarlesturs fyrir börn.  Tímabil lestursins er frá 10. júní – 10. ágúst. Fyrir skömmu afhenti Ragnheiður Guðrún Jóhannesdóttir Sævari Inga héraðsbókaverði  teikningu sína af einkennismynd verkefnisins en þetta er annað árið í röð sem hún teiknar hana.  Ragnheiður Guðrún var að ljúka námi í 10. bekk Grunnskólans í Borgarnesi og hyggur á menntaskólanám í haust. Öll börn á aldrinum 6-12 ára geta skráð sig í sumarlesturinn og  tekið bækur að eigin vali til lestrar sér að kostnaðarlausu.  Sérstakir happamiðar fara í pott fyrir hverja lesna bók en auk þess fá allir þátttakendur viðurkenningu  í lok sumars á Uppskeruhátíð sumarlesturs.  Markmið verkefnisins er sem fyrr að viðhalda lestrarfærninni sem börnin öðlast um veturinn en um leið er lögð áhersla á að börnin lesi það sem þau sjálf langar til, hvort sem um er að ræða bók á sérstöku áhugasviði eða góða sögubók.   Öll börn geta gerst lánþegar.  Æskilegt er að þau yngstu komi í fylgd fullorðinna fyrstu skiptin. Opið verður á bókasafninu alla virka daga í sumar frá 13 -18. Sumarið er góður tími fyrir bóklestur, sama hvernig viðrar! Ljósmynd:  Teiknarinn Ragnheiður Guðrún Jóhannesdóttir ásamt Sævari Inga Jónssyni héraðsbókaverði. Myndataka: Ásthildur Magnúsdóttir.

HVAR-HVER-HVERJAR

Verk eftir Guðmundu Andrésdóttur kallast á við ramma eftir Hallstein. Á alþjóðlega safnadaginn 18. maí s.l. var opnuð ný sýning í Hallsteinssal. Þar eru sýnd valin verk úr safnkosti Listasafns Borgarness sem  var stofnað utan um gjöf listvinarins Hallsteins Sveinssonar (1903-1995).  Sýningarstjóri er Helena Guttormsdóttir myndlistarmaður og lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands og nefnir hún sýnnguna HVAR-HVER-HVERJAR. Helena hefur áður sett upp sýningu úr safni Hallsteins (2013) og þekkir því vel til safnkostsins. HVAR –  Hver staður hefur sín sérkenni sem myndar staðaranda og aðgreinir einn stað frá öðrum. Júlíus Axelsson skráði með myndmáli byggingar og tíðaranda Borgarness sem að hluta er horfinn en verður nú hægt að skoða á sýningunni. Gjöf Hallsteins Sveinssonar er meginuppistaða safnkosts Listasafns Borgarness sem er eitt safnanna fimm í Safnahúsi. HVER var þessi maður sem eyddi drjúgum tíma af lífsstarfi sínu í að ramma inn myndir fyrir starfandi listamenn og fékk oft greitt í verkum sem nú er dýrmætur hluti menningararfs okkar. Svipsterkt andlit Hallsteins varð mörgum listamönnum kveikja til sköpunar. Teikningar, málverk og höggmyndir verða sýnd á sýningunni. Einnig er áhugavert að velta fyrir sér sérkennum fólks og hvernig samtíminn hefur tilhneigingu til að afmá þau. HVERJAR – vísar í valin verk eftir konur og…