Þann 22. mars næstkomandi verður því fagnað að 150 ár eru síðan Borgarnes fékk verslunarleyfi. Þann dag heldur sveitarstjórn Borgarbyggðar hátíðarfund í Kaupangi, elsta húsi Borgarness, kl. 15.00. Því næst verður opnuð ný sýning í Safnahúsi og hefur hún hlotið heitið Tíminn gegnum linsuna. Þar verða sýndar ljósmyndir sem fjórir ljósmyndarar hafa tekið í Borgarnesi á 20. öld. Val á ljósmyndum og textagerð er í höndum sagnfræðingsins Heiðars Lind Hanssonar sem er annar tveggja höfunda að Sögu Borgarness sem kemur út um þessar mundir. Sýningarhönnun annast Heiður Hörn Hjartardóttir. Eftirtaldir ljósmyndarar eiga verk á sýningunni:

Friðrik Þorvaldsson (1896-1983)
Einar Ingimundarson (1929-1997)
Júlíus Axelsson (1937-2016)
Theodór Kr. Þórðarson (1952)

Sýningin verður eins og áður kom fram opnuð kl. 17.00 miðvikudaginn 22. mars og verður húsið opið til 19.00 þann dag, eftir það verður hún opin alla virka daga 13.00 – 18.00.
Frá 1. maí verður opið alla daga vikunnar, nánar kynnt hér á heimasíðunni.

Þess má að lokum geta að laugardaginn 29. apríl n.k. kl. 15.00 býður Borgarbyggð til hátíðardagskrár í Hjálmakletti í Borgarnesi og verður forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson þar viðstaddur.  Sýningin Tíminn gegnum linsuna verður opin í tengslum við þann viðburð, nánar auglýst síðar.

Ljósmynd með frétt: Borgarnes (Guðrún Jónsdóttir)

Categories:

Tags:

Comments are closed