Opinber skjalasöfn á Norðurlöndum hafa um nokkurra ára skeið sameinast um árlegan dag þar sem starf þeirra er kynnt. Er það annar laugardagur í nóvember sem hittir að þessu sinni á 11. dag mánaðarins. Verkefnið á sér sameiginlegt þema í ár og er það „Hús og heimili“.

Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar tekur þátt í skjaladeginum. Er það gert með tvennu móti, annars vegar með örsýningu á ljósmyndum eftir Júlíus Axelsson (1937-2016) af fólki á heimilum sínum og hins vegar með því að setja inn á vef verkefnisins (www.skjaladagurinn.is) heimildir um dr. Selmu Jónsdóttur listfræðing (1917-1987), sem var fædd og uppalin í Borgarfirði. Einnig má benda á umfjöllun um dr Selmu undir fróðleikur/fólk annars staðar hér á síðunni, en það efni var tekið saman í tilefni af því að í ár eru 100 ár liðin frá fæðingu hennar. Ekki verður um sérstaka opnun skjalasafnsins að ræða á umræddum laugardegi, en framlag þess felst í ofangreindu.

Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar var stofnsett árið 1961  og er opinbert skjalasafn fyrir Mýra- og Borgarfjarðarsýslu.  Það er eitt fimm safna undir hatti Safnahúss Borgarfjarðar og héraðsskjalavörður er Jóhanna Skúladóttir.

 

Ljósmynd (Guðrún Jónsdóttir).

Categories:

Tags:

Comments are closed